05.06.2017 16:56

50 ár frá goslokum í Surtsey.

Að morgni fimmtudagsins 14 nóvember 1963, var vélbáturinn Ísleifur ll VE 36 frá Vestmannaeyjum að veiðum vestan Vestmannaeyja. Um 7 leitið um morguninn lá báturinn yfir línu sinni um 5 sjómílur vestur af Geirfuglaskeri, en það var syðsta eyjan í Vestmannaeyjaklasanum og um leið syðsti staður Íslands. Á áttunda tímanum, en þá var tekið að elda af nýjum degi, urðu skipverjar varir við brennisteinsfýlu og skömmu síðar grilltu þeir í þúst suðaustur af bátnum. Þegar þeir gættu nánar að sáu þeir um 60 m. háa, kolsvarta sprengibólstra stíga upp af haffletinum. Eldgos var hafið á sjávarbotni. Fylgdust þeir síðan með gosinu nokkra stund, og virtist þeim það sífellt vera að færast í aukana og jafnframt virtist gossprungan lengjast. Sjávardýpi var um 130 metrar á þessum stað fyrir gosið.


Gullfoss, skip Eimskipafélags Íslands á siglingu nálægt gosstöðvunum suðvestur af Heimaey að morgni 17 nóvember árið 1963.      Mynd á póstkorti.


606. Ísleifur ll VE 36 var að veiðum stutt frá er gosið í Surtsey hófst.             Mynd úr Íslensk skip.


Surtseyjargosið í algleymingi. Varðskipið Óðinn við gosstöðvarnar 16 desember 1963.                                                                                    (C) Sigurður Þórarinsson.


Varðskipsmenn af Ægi ganga á land í Surtsey 16 apríl 1964. (C) Garðar Pálsson.


Hraungos hafið í Surtsey 24 apríl 1964.                                                           (C) Garðar Pálsson.

 Sjórinn 10 stiga heitur í hálfrar mílu fjarlægð

              Rætt við sjómenn á Eyjabátunum
           sem komu á gossvæðið í gærmorgun

Skipverji á m.b. Ísleifi frá Vestmannaeyjum, Ólafur Vestmann, varð fyrstur manna var við gosið og skýrði hann Morgunblaðinu svo frá í gærdag: Ég var á baujuvakt og var að svipast eftir baujum, þegar mér varð litið í austur og sá þar eitthvert þykkni, kolsvart. Þá hefur klukan verið um 7.15 í morgun. Mér leizt ekki á þetta, hélt helzt að þarna væri skip að brenna. Ræsti ég skipstjórann, Guðmar Tómasson, og gátum við ekki fundið út hvað þetta var. Þegar birti sigldum við í áttina að þykkninu og sáum þá hvað um var að vera. Svæðið var kolmórautt og ólga og straumar í sjónum. Fórum við næst svona 200- 300 metra frá gosinu. Sprengigosin voru lág í fyrstu en hækkuðu stöðugt. Um 10 leytið sáum við 2-3 eldglampa í gufumekkinum. Einnig sáum við 2-3 glóandi steina hendast upp í loftið. við mældum hitann í sjónum ca. hálfa mílu frá gosinu og var hann 10 stiga heitur. Þarna er um 65 faðma dýpi. Við sáum ekki glampa á sjónum og hvergi dauðan fisk. Við erum núna að draga línuna og förum svo inn til Eyja. Ennþá má sjá að strókurinn stendur hátt til himins. Ég hef verið á sjónum í 42 ár, en aldrei séð annað eins og þetta. Aldrei nokkurn tíma.
Morgunblaðið náði í gær tali af Sigurði Elíassyni, skipstjóra á Vestmannaeyjabátnum Jóni Stefánssyni, sem varð var við gosið um kl. 7,30 um morguninn, er hann var staddur um 5 mílur frá staðnum. Sigurður skipstjóri sagði: Við sáum strók mikinn stíga til himins og sigldum við þangað til að athuga hvað þetta væri. Við komum á staðinn um kl. 8,30 og héldum okkur í ca. hálfrar mílu fjarlægð. Þetta var herjans mikið gos og stóð svartur strókurinn upp í loftið. Virtist þarna vera mikill eimur eða gufa. Við sáum í sjónauka stóra steina þeytast upp í loftið og falla í boga í sjóinn. Rauk mikið af þeim og hafa þeir líklega verið glóandi. Sjórinn nmhverfis gosstaðinn var eins og hann á að sér að vera, en ólgan var aðeins þar sem gosið brauzt upp. Gosið virtist vera mest á einum stað, en annað minna, eða minni, á eins konar ræmu út frá aðalgosinu. Núna erum við staddir um 10 mílur frá staðnum og sést greinilega móta fyrir stróknum, sem stendur upp í skýin.

Morgunblaðið. 15 nóvember 1963.

       50 ár frá goslokum í Surtsey

50 ár eru í dag, 5 júní, liðin frá því að Surtseyjargosinu lauk. Það hafði þá staðið yfir með hléum í tæp fjögur ár. Fyrst var vart við gosið 14. nóvember 1963, en talið er að það hafi byrjað nokkrum dögum fyrr sem neðansjávargos á 130 metra dýpi.
Á vef Umhverfisstofnunar segir að Surtseyjareldar sé lengsta og best þekkta eldgos í sögu Íslandsbyggðar þar sem fylgst var náið með gangi gosins frá upphafi. Í eldsumbrotunum mynduðust auk Surtseyjar, eldfjallaeyjarnar Surtla, Syrtlingur og Jólnir, en eldvirkni í þeim stóð stutt og þegar henni lauk átti sjórinn auðvelt með að brjóta þær niður. 
Surtsey er 1,4 ferkílómetrar og hefur minnkað um helming frá goslokum vegna rofs sjávar og vinda. Surtsey  er um 20 km suðvestur af Heimaey, og hefur frá upphafi verið náttúruleg rannsóknarstofa í jarðfræði og líffræði. Hún var friðlýst árið 1965 meðan gos stóð enn yfir. Eftir að Surtsey komst á heimsminjaskrá UNESCO árið 2008 var friðlandið stækkað verulega og í dag nær friðlýsingin yfir alla eldstöðina Surtsey, ásamt hafsvæðinu og botninum umhverfis, samtals 65 ferkílómetra.

Ruv.is 5 júní 2017.



Flettingar í dag: 965
Gestir í dag: 30
Flettingar í gær: 1155
Gestir í gær: 85
Samtals flettingar: 1194740
Samtals gestir: 83790
Tölur uppfærðar: 2.4.2025 08:53:57