08.06.2017 21:25
B. v. Karlsefni RE 24. TFKD.
Nýr togari
Karlsefni, hinn nýi togari h.f. Karlsefnis,
útgerðarfyrirtækis Geirs Thorsteinsonar, kom hingað á laugardaginn. Er togarinn
smíðaður í skipasmíðastöð Alexander Hall í Aberdeen í Skotlandi. Fór togarinn á
gamlársdag frá Skotlandi og reyndist mjög vel á heimleiðinni.
Tíminn. 5 janúar 1948.
Togaraverkfallið
1962
Karlsefni
seldi í Cuxhaven
Togarinn Karlsefni seldi afla sinn 185 tonn í Cuxhaven í
nótt. Vísi var enn ekki kunnugt um söluverð, en eftir því sem bezt er vitað var
enginn tilraun gerð til að hindra löndun. Togarinn mun nú verða 2-3 daga í
Cuxhaven meðan verið er að ganga frá sérstökum björgunartækjum í hann, stórum
gúmmíbjörgunarbát sem á að koma í staðinn fyrir venjulegan lífbát. Vísir átti
tal við Ragnar Thorsteinsson forstjóra útgerðarinnar í morgun. Hann kvaðst nú
vera mjög feginn að Karlsefni væri kominn í höfn og þeir því lausir við allt
fjaðrafok í kringum þetta.
En ástæðan til þess að við fórum út í þetta, sagði
Ragnar, var sú að það hafði dregizt að við fengjum afhentan þennan
gúmmbjörgunarbát. Fyrir nokkru brotnuðu björgunarbátar skipsins í brotsjó og
fengum við tvo björgunarbáta að láni, en þurftum að skila þeim fyrir vissan
tíma. Þar sem afhending bátsins dróst og ekki yrði hægt að koma
gúmmíbjörgunarbátnum fyrir nema í Þýzkalandi var þetta eina leiðin sem við sáum
til að tryggja öryggi á skipinu. Hinn nýi gúmmíbjörgunarbátur á að standa
uppblásinn á bátadekki. Verður hægt að renna honum út á hvora hliðina sem er og
festingar á honum miklu sterkari en á litlum bátum. Hann á að geta tekið alla
skipshöfnina og kemur í staðinn fyrir venjulega björgunarbáta. Togarinn verður
auk þess með hinn tilskilda fjölda venjulegra gúmmíbáta. Karlsefni mun nú sigla
heim og verða lagt eins og öðrum togurum ef verkfallið stendur þá enn.
Vísir. 11 apríl 1962.
Togaraverkfallið
1962
Fullkomin
samstaða Karlsefnismanna
Togarinn Karlsefni kom á sumardaginn fyrsta til Reykjavíkur
og lagðist utan á þá mörgu togara, sem lágu fyrir við Faxagarð vegna
verkfallsins. Strax og togarinn var kominn að bryggju gengu út í hann fulltrúar
Sjómannafélags Reykjavíkur, þeir Jón Sigurðsson, formaður, Hilmar Jónsson,
varaformaður og Pétur Sigurðsson ritari og fulltrúar Dagsbrúnar þeir Eðvarð
Sigurðsson og Guðmundur J. Guðmundsson.
Ekki áttu þeir þó miklar viðræður við skipsmenn að sinni aðrar en þær að spyrja
hver vilji eða samstaða hefði verið um að fara í auka söluferðina, sem stjórn
Sjómannafélagsins telur verkfallsbrot. Boðuðu þeir skipsmenn til fundar við sig
á Iaugardaginn í skrifstofu félagsins. Ekki mættu þó margir á þeim fundi. Í dag
ætlaði stjórn Sjómannafélagsins að ræða málið og mun væntanlega verða haldinn
almennur félagsfundur um málið síðar í vikunni.
Vísir átti tal við skipstjórann á Karlsefni, Halldór Ingimarsson,; Öll
skipshöfnin var sammála um að fara í þessa aukasöluferð, sagði Halldór, Ég
talaði við þá alla og enginn mælti á móti því. Í allri ferðinni var fullkomin
samstaða um að halda henni áfram til loka og gott samkomulag. Var skipsmönnum
ljóst, að hér væri um verkfallsbrot að ræða? Þeim var ljóst, að stjórn
sjómannafélagsins myndi líta svo á, en þess ber að gæta, að það er ekkert
óalgengt að togari fari þannig í tvær söluferðir án viðkomu í Reykjavík.
Hvers vegna lokuðuð þið talstöðinni? Það gerðum við nú bara til að hafa frið.
Enda kom í ljós að sífelld ásókn var að ná sambandi við skipið, aðallega frá
blöðunum í Reykjavík og við máttum ekki vera að því að sinna því. Hinsvegar
tókum við á móti skeytum til skipshafnar. Töluðu þeir ekki við þig frá
sjómannafélaginu, þegar þið komuð í höfn? Jú, en það var litið, þeir spurðu
bara hvort ég hefði beðið skipshöfnina um að fara í túrinn og ég svaraði því
játandi. Annars gerðist ekkert sérstakt í túrnum, annað en að við fengum gott
verð fyrir aflann.
Vísir. 24 apríl 1962.