11.06.2017 08:45
Sjómannadagurinn.
Fyrsti sjómannadagurinn var haldinn hátíðlegur 6. júní árið
1938 og er hann séríslenskur hátíðisdagur. Sjómenn höfðu um langan aldur gert
sér glaðan dag í vertíðarlok á lokadegi að vorinu. Eflaust hafa ýmsir velt
þeirri hugmynd fyrir sér að haldinn yrði árlegur hátíðisdagur sem allir
sjómenn, jafnt fiskimenn sem farmenn, gætu tekið þátt í. Hugmyndin að
sjómannadeginum er rakin til Henrys Hálfdanssonar þótt fleiri komi við sögu.
Hann var loftskeytamaður á togaranum Hafsteini vorið 1929 og ræddi þá við
stýrimann skipsins um að hann ætti sér þann draum að sjómenn myndu helga sér
einn dag á vori sem nefndur væri sjómannadagur. Hugmynd hans var sú að haldinn
yrði árlegur minningardagur um drukknaða sjómenn og þeim yrði reistur veglegur
minnisvarði. Markmiðið yrði að auka skilning þjóðarinnar á hinu áhættusama
starfi sjómannsins og jafnframt að auka veg og virðingu stéttarinnar.
Ég óska öllum sjómönnum og fjölskyldum þeirra nær og fjær innilega til hamingju
með daginn og megi þeir og landsmenn allir njóta hans vel.
Hópsigling á Norðfirði á sjómannadag árið 1978. Ystur í röðinni er, 1137. Barði NK 120, þá varðskipið Óðinn, 1495. Birtingur NK 119 og næstur er 1278. Bjartur NK 121. (C) Karl Hjelm.
226. Beitir NK 123 og 1548. Barði NK 120 á leið í hópsiglingu árið 1986. (C) Þórhallur S Gjöveraa.
Hópsigling á Norðfirði á sjómannadag árið 1986. Beitir sálugi í hópi smábáta sem raða sér upp í röð sem sigldi svo út fjörðinn, falleg sjón. (C) Þórhallur S Gjöveraa.
1495. Birtingur NK 119 í hópsiglingu. (C) S.V.N.
Fyrsti sjómannadagurinn var haldinn hátíðlegur í Reykjavík og á Ísafirði, 2 í hvítasunnu, mánudaginn 6 júní 1938, þar sem sunnudagurinn 5 júní var hvítasunnudagur. Ljósmyndari óþekktur.