Sæbjörn ÍS 16 var smíðaður í Risör í Noregi árið 1928. Eik og fura. 43 brl. 90 ha. Ellwe vél. Eigendur voru Ólafur Júlíusson, Finnur Jónsson og fl. á Ísafirði frá desember 1928. Kom til heimahafnar á þorláksmessu sama ár og var fyrsti Sammvinnufélagsbáturinn sem kom til landsins. 3 nóvember 1943 var Samvinnufélag Ísfirðinga skráður eigandi bátsins. Ný vél (1943) 165 ha. Gray díesel vél. Ný vél (1947) 120 ha. Ruston díesel vél. Ný vél (1957) 215 ha. MWM díesel vél. Seldur 27 júlí 1963, Baldri Sigurbaldurssyni á Ísafirði. Talinn ónýtur og brenndur 31 desember árið 1968.
Sæbjörn ÍS 16 með góðan síldarfarm á Siglufirði. Mynd úr safni mínu.
Samvinnufélagsbátarnir sjö við bryggju á Siglufirði. Sæbjörn ÍS 16 er annar frá hægri. Þeir eru frá vinstri talið,; Valbjörn ÍS 13, Gunnbjörn ÍS 18, Ásbjörn ÍS 12, Auðbjörn ÍS 17, Ísbjörn ÍS 15, Sæbjörn ÍS 16 og Vébjörn ÍS 14. (C) Jón & Vigfús á Akureyri. Úr safni Hauks Sigtryggs Valdimarssonar.
Samvinnufélag
Ísfirðinga
"Birnirnir"
fimm smíðaðir
Fyrsti aðalfundur Samvinnufélagsins var haldinn 9 maí árið 1928. Á stjórnarfundinum daginn eftir var ákveðið að ráða sérstakan mann til að annast útvegun skipa, og urðu menn sammála um að kanna hvort Finnur Jónsson myndi fáanlegur til þess verks. Hann svaraði jákvætt á fundi 13 maí og voru þar lagðar fram beiðnir frá nokkrum skipstjórum, sem áhuga höfðu á því að kaupa skip og höfðu safnað nokkru fé í því skyni.
Fleiri slíkar beiðnir bárust félagsstjórninni á næstu dögum og síðar í mánuðinum komst hún í samband við norskar, danskar og sænskar skipasmíðastöðvar, sem áhuga höfðu á því að smíða skip fyrir félagið. Hinn 30 maí var afráðið að ráða Eirík Einarsson sem eftirlitsmann með smíðinni, og héldu þeir Finnur utan í júníbyrjun til viðræðna við fulltrúa skipasmíðastöðvanna. Í þeirri ferð samdi Finnur við Svenska Maskinverken A/B um smíði fimm vélbáta, og töldust þeir smíðaðir fyrir skipstjórana, Harald Guðmundsson, Rögnvald Jónsson, Ólaf Júlíusson, Halldór Sigurðsson, Jón Kristjánsson og sjómenn sem þeir höfðu myndað félög með um skipakaupin.
Voru vélarnar í bátana smíðaðar í Svenska Maskinverken, en skipin sjálf í Risör í Noregi. Smíðin gekk vel og aðfaranótt 23 desember 1928, réttu ári eftir stofnun Samvinnufélagsins, kom fyrsti báturinn, Sæbjörn til Ísafjarðar, en hinir fjórir, Ísbjörn, Ásbjörn, Vébjörn og Valbjörn næstu daga. Allir voru bátarnir 43 brl. að stærð og kostaði hver þeirra 44.007 krónur frá skipasmíðastöðinni, en þar við bættist ýmis annar kostnaður vegna heimferðarinnar. "Birnirnir" fimm voru óneitanlega laglegur floti, en engu að síður voru Samvinnufélagsmenn ekki horfnir frá áætlunum um frekari skipakaup.
Saga Ísafjarðar og Eyrarhrepps hins forna. lV bindi. 1921-1945. Jón Þ Þór. 1990.
Bátar
samvinnufélagsmanna.
Fjórir þeirra eru nú komnir hingað heilu og höldnu. Eru það
þessir: Sæbjörn kom 23. f. m, Ísbjörn kom 27. f. m., Ásbjörn kom 30 f. m. og
Vébjörn kom á nýársdagsmorgun. Fimmti báturinn Valbjörn sneri aftur til Noregs
vegna bilunar á olíugeymi. Var hann í Færeyjum á föstudaginn er var á leið
hingað. Af þessum bátum sem komnir eru var. Sæbjörn lang fljótastur hingað.
Hann var sjö og hálfan sólarhring frá Risör til Ísafjarðar og eyddi 14 tonnum
af olíu, þó stansaði hann í 15 klst. á leiðinni.
Skutull. 6 janúar 1929.