Kútter Egill RE 17 var smíðaður í Brixham á Englandi árið 1871. 69 brl. Árið 1917 var sett í skipið 48 ha. Alpha vél. Hét áður Marquis of Lorne. Kútterinn var keyptur hingað til lands árið 1897 og fyrsti eigandi virðist hafa verið Klemens Egilsson Minni Vogum á Vatnsleysyströnd frá því ári. Selt 3 febrúar árið 1900, Jóhannesi Jósepssyni í Reykjavík. Kútterinn var gerður upp í slippnum í Reykjavík árið 1904. Selt 10 júní 1905, Þorsteini Þorsteinssyni og Birni Símonarsyni í Reykjavík. 15 janúar 1907 var Þorsteinn einn eigandi skipsins. Selt 3 nóvember 1909, Hlutafélaginu Stapanum í Reykjavík. Skipið var selt 15 júlí 1910, O. Ellingsen í Reykjavík. Sama ár selt H.P. Duus í Reykjavík, skipið hét Iho RE 17. Iho strandaði við Gjögur í Reykjarfirði á Ströndum 20 október árið 1930. Áhöfnin bjargaðist en skipið eyðilagðist á strandstað.
Kútter Egill RE 17 í slippnum í Reykjavík. (C) Magnús Ólafsson.
Kútter Egill RE 17 á Reykjavíkurhöfn. (C) Magnús Ólafsson.
Kútter Egill RE 17 lengst til vinstri í slippnum í Reykjavík. Árið mun vera 1904, því það ár var slippurinn stækkaður. Skipið í miðjunni er gufubáturinn Reykjavík sem annaðist póst og farþegaflutnnga á Faxaflóa fyrir og eftir aldamótin 1900. Hann var fyrsta skipið sem tekið var upp í slippinn endurbyggðan. Reykjavíkin endaði upp í fjörunni við Batteríið í febrúar árið 1907 og eyðilagðist. (C) Magnús Ólafsson.
Kútter Iho
RE 17 strandar við Gjögur
Síðasti Faxaflóakútterinn strandaði við Gjögur við
Reykjarfjörð á Ströndum, mánudaginn 20. Október 1930 í stórviðri af norðri.
Skip þetta kom hingað til lands 1897, keypt í Englandi og hét þá Marquess of
Lorne. Vogamenn keyptu skipið og nefndu það »EgiI«, og héldu því úti skamma
stund, síðan keypti trésmiður Jóhannes Jósefsson það og hélt því úti á veiðum,
en hann hætti brátt útgerð og eftir það áttu ýmsir skipið þar til H. P. Duus
verzlun eignaðist það 15. júlí 1910. Var Ólafur Ólafsen forstöðumaður verzlunarinnar,
kom hann hingað á sumrin, en var búsettur í Kaupmannahöfn. Hann breytti nafni
skipsins og nefndi það »Iho«; er nafnið samsett af upphafsstöfum nafna sona
hans, Ingvars, Hálfdáns og Ólafs. Hefir skipið borið það heiti síðan.
Einhverjar leifar munu eftir af kútterflota landsins, en skipin munu flest úr
sér gengin, enda flest smíðuð á tímabilinu 1880 til 1886 og má það heita góð
ending. Nokkrir hinna íslenzku kúttara, eru í eign Færeyinga og eru á veiðum
vertíð hverja, en á þeim er farið að sjá sem von er, en allir voru þeir
gæðaskip.
Ægir. 10 tbl. október 1930.
Skrifað af Þórhalli S Gjöveraa.