10.07.2017 11:51

333. Bjarni Ólafsson GK 200. TFXM.

Bjarni Ólafsson GK 200 var smíðaður í Skipasmíðastöð Marselíusar Bernharðssonar á Ísafirði árið 1944 fyrir Albert Bjarnason útgerðarmann í Keflavík. Eik. 35 brl. 120 ha. Wichmann vél. Frá árinu 1950 er báturinn skráður KE 50, sami eigandi. Ný vél (1950) 240 ha. GM vél. Seldur 12 júlí 1955, Halldóri Jónssyni í Ólafsvík, báturinn hét Bjarni Ólafsson SH 177. Seldur 31 maí 1963, Guðna Sturlaugssyni á Selfossi og Sigurjóni Sigurðssyni á Stokkseyri, hét Bjarni Ólafsson ÁR 9. Árið 1966 er Guðni Sturlaugsson einn skráður eigandi bátsins. Ný vél (1971) 240 ha. GM díesel vél. Seldur 6 ágúst 1973, Guðmundi Ragnarssyni í Reykjavík, hét Bjarni Ólafsson RE 97. Seldur 27 maí 1974, Páli Grétari Lárussyni á Hvammstanga, báturinn hét Fróði HU 10. Fróði brann við bryggju á Hvammstanga 11 desember árið 1975 og var talinn ónýtur eftir brunann.


Bjarna Ólafssyni GK 200 hleypt af stokkunum hjá Marselíusi í nóvember 1944.    Mynd úr safni mínu.


Bjarni Ólafsson KE 50. ex GK 200.                                                   (C) Þórhallur S Gjöveraa.

      Bátur brennur á Hvammstanga

Um kl. 7 árdegis í gærmorgun urðu skipverjar á Glað HU 67 varir við að reyk lagði upp úr mb. Fróða HU 10, þar sem hann lá við bryggju á Hvammstanga. Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að eldur var laus í vélarrúmi bátsins og var slökkvilið staðarins kallað út. Endanlega hafði tekizt að ráða niðurlögum eldsins, sem einungis var neðan þilja, á tólfta tímanum en við slökkvistarfið var beitt froðu og vatni. Báturinn er verulega skemmdur og óvíst hvort hann fer aftur á veiðar. Eldurinn var einungis í vélarrúmi bátsins og brann vélarrúmið að innan en eldsupptök eru ókunn. Einn maður svaf frammi í bátnum, þegar eldurinn kom upp, en hann sakaði ekki. Fjórir bátar hafa að undanförnu stundað rækjuveiðar frá Hvammstanga og var Fróði einn þeirra. Rækjuveiði hefur gengið fremur illa og hjálpast þar að ógæftir og lélegri veiði heldur en verið hefur undanfarin ár.

Morgunblaðið. 12 desember 1975.

Flettingar í dag: 1257
Gestir í dag: 115
Flettingar í gær: 421
Gestir í gær: 22
Samtals flettingar: 1191659
Samtals gestir: 83671
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:18:30