11.07.2017 06:39
569. Hjalti SI 12.
Hjalti SI 12 var smíðaður af Antoni Jónssyni skipasmið á
Akureyri árið 1916. 9 brl. 10 ha. Hein vél. Hét fyrst Hjalti EA 360. Eigandi
var Einar Einarsson á Akureyri frá sama ári. Seldur 2 desember 1930, Anton
Jónssyni á Siglufirði, báturinn hét Hjalti SI 15. Seldur 7 september 1931,
Þorbirni Áskelssyni á Grenivík, hét Hjalti TH 272. Ný vél (1933) 35 ha. June
Munktell vél. Báturinn var lengdur árið 1936, mældist þá 11 brl. Ný vél (1939)
50 ha. June Munktell vél. Seldur 19 sept 1948, Hlutafélaginu Hjalta á Siglufirði,
báturinn hét Hjalti SI 12. Ný vél (1957) 66 ha. Kelvin díesel vél. Hjalti var
talinn ónýtur og tekinn af skrá 18 janúar árið 1979.
Hjalti SI 12 við bryggju á Siglufirði. (C) Þór Eyfeld Magnússon.
Hjalti SI 12. (C) Már Jóhannsson.
Hjalti SI 12 á siglingu. (C) Þjóðbjörn Hannesson.
Hjalti SI 12. Líkan Gríms Karlssonar. (C) Þórhallur S Gjöveraa.
Borgarísjaki
út af Siglufirði
Mikil og
tignarleg sjón
Fréttaritari blaðsins á Siglufirði, Steingrímur Kristinsson
fór á m.b. Hjalta út að borgarísjaka, sem var 7-8 sjómílur frá landi, og tók
með fylgjandi myndir af honum. Það var mikil og tignarleg sjón að sjá þetta
ferlíki gnæfa 20-40 metra hátt yfir sjávarmál og 100-150 m. á breidd, þar sem
jakinn er breiðastur, segir Steingrímur. Og þó er þetta sennilega aðeins 1/9
hlutinn af jakanum, hitt mun vera neðansjávar. Hann segir svo frá ferðinni: -
S. l. laugardag sá ég fyrsta borgarísjakann á minni 30 ára ævi, en þá var
jakinn eins og smádepill úti við sjóndeildarhringinn. Á mánudag var sami jaki
staddur út af Siglufirði, ásamt öðrum minni 1-2 sjómílur utar. Hafði sá stóri á
sunnudag verið á hraðri ferð austur með landinu, þrátt fyrir austan kalda og
sjó, en á mánudag var farið að hvessa meira og jakinn snúinn við og hélt í
vestur undan veðrinu, ásamt minni jakanum. Sást vel til jakans bæði á sunnudag
og mánudag frá Siglufjarðarkaupstað. Bar hann yfir Siglunesið eins og stór
snjóhvít eyja, glæsileg að sjá. Utan af ströndinni sást hann betur og var mikil
umferð um veginn úteftir. Bílar fóru með fólk með sjónauka, sem vildi virða
þessa tignarlegu og sjaldgæfu sjón fyrir sér.
Borgarísjakinn út af Siglufirði. (C) Steingrímur Kristinsson.
Og nú fór ljósmyndari okkar af stað. Hann leigði sér mótorbátinn Hjalta SI 12.
Með hann eru svokallaðir Kambsbræður, Grímur og Gunnar Helgasynir, sem fyrr
hafa dugað okkur vel, lentu t.d. í sögulegu ferðalagi á sínum tima í hvassviðri
við að koma til okkar myndum af tunnuverksmiðjubrunanum. Steingrímur
ljósmyndari tók sem sagt sjóveikitöflu og lagði í hann. En 7-8 vindstig voru,
talsverður sjór og þar á ofan kröpp vindbára, og rak veðrið alla undir þiljur
áður en 20 mínútur voru liðnar og ekki var liðin klukkustund, þegar Ægi var
fórnað gómsætum signum fiski ásamt nýjum kartöflum. Eftir hálfs annars tíma
siglingu í bansettum hamagangi, höggum og veltingi, miður þægilegum fyrir
höfuð, maga og hnjáliði, sló vélstjórinn á Hjalta, Gunnar Helgason, af og
andæfði, segir Steingrímur. Mikið var um smáísrek, jakar höfðu brotnað úr
borgarísnum og þurfti að vara sig á þeim. Ekki var hægt að "stíga á land",
bæði vegna sjógangs og brattra hliða jakans. Taldi Grímur Helgason, skipstjóri
ekki ráðlegt að fara mjög nærri, því ekki er gott að átta sig á hvort brotið í
kring um jakann stafar af sogi, sem myndast af grynningum, t.d. ef sá hluti
jakans sem er neðansjávar, skagar mikið út undan. En árangur ferðarinnar sést á
meðfylgjandi myndum, sem Steingrímur tók af jakanum.
Morgunblaðið. 17 september 1964.