20.07.2017 18:15

Kveldúlfur ÍS 397.

Kveldúlfur ÍS 397 var smíðaður í Frederikssund í Danmörku árið 1916. Eik og fura. 24 brl. 36 ha. Dan vél. Eigendur voru Jóh. J. Eyfirðingur & Co (Jóhann Jónsson Eyfirðingur og fl. Oftast kallað "kompaníið") á Ísafirði, Guðmundur Magnússon og Árni E Árnason í Bolungarvík. Ný vél (1922) 40 ha. Bolinder vél. Báturinn var seldur 22 júní 1927, Skafta Jónssyni á Akranesi, hét Kveldúlfur MB 27. Ný vél (1929) 64 ha. Tuxham vél. Um 1930 var Skafti Jónsson & Co á Akranesi eigandi Kveldúlfs. Báturinn fórst í róðri 20 janúar árið 1933 með allri áhöfn, 6 mönnum.


Kveldúlfur ÍS 397 við steinbryggjuna í Reykjavíkurhöfn um 1930.               (C) Magnús Ólafsson.

                   Báta vantar

Í fyrrakvöld vantaði þrjá vjelbáta úr róðri, einn af Sandi, annan úr Ólafsvík og hinn þriðja af Akranesi. Bátarnir frá Ólafsvík og Sandi komu fram í gærmorgun, en Akranesbáturinn ekki. Hann heitir "Kveldúlfur". Sást það seinast til hans í fyrrakvöld úti á miðum, að hann var að draga línuna, en hún slitnaði, og fór báturinn þá að leita að hinni uppistöðunni. Í gærdag fékk Slysavarnafjelagið togarann ,Kóp' til þess að leita að bátnum. Ennfremur er saknað vjelbáts að austan, sem Valur heitir. Lagði hann á stað frá Fáskrúðsfirði 19. janúar og ætlaði til Vestmannaeyja. Á honum eru fjórir menn. Varðskipið "Þór" var fengið til þess að leita að bátnum í gær.

Morgunblaðið. 22 janúar 1933.


           V.b. "Kveldúlfur" talinn af                               með 6 mönnum.

Eins og getið var í blaðinu á sunnudaginn, var á laugardag hafin leit að vjelbátnum "Kveldúlfi" frá Akranesi. Var leitað þann dag allan og eins um nóttina og á sunnudaginn. Tóku þátt í leitinni togararnir Kópur, Skallagrímur, Snorri goði, línuveiðarinn Ólafur Bjarnason og fleiri skip, en leitin bar engan árangur. Þegar seinast sást til bátsins á föstudagskvöld var hann að draga línuna, en hún slitnaði og lagði hann þá á stað og ætluðu menn að hann mundi ætla að taka duflið á hinum endanum og draga þaðan. En annað- hvort hefir hann ekki fundið duflið, eða ekki komist að því, því að leitarskipin fundu það og línuslitrið. Veður var hvasst um kvöldið, skafningsrok, en alveg sjólaust, svo að litlir bátar, sem úti voru og höfðu fullt þilfar af fiski, misstu enga bröndu út. Í gær var leitinni að bátnum enn haldið áfram og tóku þátt í henni þrír togarar og línuveiðiskip, en leitin bar engan árangur og er talið vonlaust að báturinn sje ofansjávar. 
Á bátnum voru 6 menn.
Skafti Jónsson, formaður
Einar Jónsson, bróðir hans,
Guðmundur Jónsson,
Indriði Jónsson,
Helgi Ebeneserson og unglingspiltur, sem sagt er að hafi heitið Þorbergur Guðmundsson. Þeir Skafti og Einar voru eigendur bátsins, menn á besta aldri og mestu dugnaðarmenn,  báðir ókvæntir. Guðmundur Jónsson ætlaði innan skamms að halda brúðkaup sitt og ganga að eiga systur þeirra bræðra. Indriði Jónsson var kvæntur maður og átti 2 börn. Helgi Eheneserson var kvæntur maður.

Morgunblaðið. 24 janúar 1933.

Flettingar í dag: 326
Gestir í dag: 59
Flettingar í gær: 276
Gestir í gær: 42
Samtals flettingar: 1057972
Samtals gestir: 76542
Tölur uppfærðar: 3.12.2024 17:27:57