30.07.2017 13:08
S. t. Northern Reward LO 168.
Nýr togari
kemur á morgun
Fyrir hádegi á morgun bætist eitt skip við í togaraflotann
íslenska. Togarinn Vörður, eign h.f. Vörður á Patreksfirði er þá væntanlegur
hingað til Reykjavíkur. Vörður er systurskip Gylfa, en þau eru bæði af
svonefndri "Sunligthgerð" Gísli Bjarnason skipstjóri flytur skipið hingað
heim. En frá Grimsby var lagt af stað s. l. laugardagsmorgun. H.f. Vörður hefir selt gamla Vörð til
Færeyja.
Morgunblaðið. 11 mars 1947.
Togarinn
Vörður ferst í hafi
Fimm menn
fórust, en 14 var bjargað
Enn hefur skarð verið höggvið í íslenska sjómannastjett.
Togarinn Vörður frá Patreksfirði fórst á sunnudagskvöld í hafi og með honum
fimm menn af 19 manna áhöfn. Með þessu slysi hafa fimm heimili, fjögur á
Patreksfirði og eitt í Tálknafirði, misst fyrirvinnu sína. Menn þessir láta
eftir sig 15 börn, þar af munu 13 barnanna ekki hafa náð 16 ára aldri.
Skipstjórinn á Verði, Gísli Bjarnason, meiddist er slys þetta bar að. Leið
honum eftir atvikum vel í gærkvöldi svo og öðrum skipsmönnum, en þeir voru væntanlegir
til Akraness árdegis í dag með togaranum Bjarna Ólafssyni, er bjargaði
Varðarmönnum, þeim er af komust.
Fjórir skipverjanna, sem fórust, voru búsettir á Patreksfirði, þeir:
Jens Viborg Jensson fyrsti vjelstjóri. Hann lætur eftir sig konu og tvær
uppkomnar dætur og sex ára fósturson. Hann var 41 árs.
Jóhann Jónsson annar vjelstjóri, 48. ára að aldri. Lætur hann eftir sig konu og
sjö börn. Þrjú þeirra eru innan fermingaraldurs. Hann átti aldraðan föður á
lífi, og er hann búsettur hjer í Reykjavík.
Guðjón Ólafsson annar stýrimaður. Hann lætur eftir sig konu og tvö börn og
aldraðan föður átti hann á lífi. Guðjón var 43 ára.
Halldór Guðfinnur Árnason, kyndari, 33 ára. Hann lætur eftir sig konu og þrjú
börn. Foreldrar hans eru báðir á lífi og búa á Ísafirði.
Ólafur Kristinn Jóhannesson háseti frá Hvammeyri í Tálknafirði. Hann var
yngstur þeirra er fórust, 32 ára. Hann var nýkvæntur og lætur eftir sig auk
konu sinnar, fósturföður og foreldra.
Frjettin um tildrög þessa hörmulega sjóslyss, voru mjög óljósar í gærkvöldi, en
vitað er að Vörður var staddur um 165 sjómílur suðaustur af Vestmannaeyjum er
hann sökk. Var togarinn á leið til Bretlands með fullfermi. Slæmt veður var er
Vörður sökk og illt í sjó, en togarinn mun hafa sokkið um klukkan sjö. Án þess
að geta nokkuð fullyrt um tildrög slyssins, eins og fyrr segir, þá er margt
talið benda til þess að það hafi borið að nokkuð skyndilega, því mennirnir 14,
er Bjarni Ólafsson bjargaði, voru sagðir hafa verið klæðlitlir er þeim var
bjargað.
Bjarni Ólafsson var á leið heim frá Bretlandi og var nærstaddur er slysið varð,
en um björgunarstarfið, sem annað í sambandi við sjóslysið, var ekkert vitað í
gærkvöldi. Bjarni Ólafsson hjelt sig á slysstaðnum nokkrar klukkustundir eftir
að slysið varð í þeirri von að finna lík þeirra, sem fórust. Fann hann þó
aðeins eitt þeirra, og mun það hafa verið lík Jóhanns Jónssonar. Í gærkvöldi um
kl. 10,30 var Bjarni Ólafsson staddur skammt sunnan Reykjaness og var þar hið
versta veður. Þá átti forstjóri útgerðar hans, tal við Jónmund Gíslason,
skipstjóra á Bjarna Ólafssyni. Sagðist Jónmundur ekki geta rætt málið við
forstjórann um talstöðvar samband, enda mjög slæm skilyrði. En Jónmundur
skipstjóri lagði á það áherslu að skipsmönnunum af Verði liði vel og Gísla
Bjarnasyni skipstjóra, sæmilega eftir atvikum.
Togarinn Vörður BA 142, var þýskbyggður af svonefndri Sunlightgerð. Hann var
smíðaður í Bremerhaven 1936, 620 rúmlestir. Hann var rúmlega 57 m. á lengd og
tæplega 9 m. á breidd. - Vörður var með stærstu togurum flotans og kom hingað
til lands árið 1947. Eigandi Varðar var samnefnt fjelag, er Garðar Jóhannesson
veitir forstöðu.
Morgunblaðið. 31 janúar 1950.
Sáputogararnir
seldir.
Svo sem kunnugt er, voru að styrjöldinni Iokinni keyptir
hingað til lands frá Englandi þrír þýzkbyggðir togarar, af svokallaðri
"Sunlight" gerð. Tveir þessara togara voru keyptir til Patreksfjarðar, en
H/f Alliance keypti þann þriðja. Annar Patreksfjarðartogarinn, Vörður, fórst í
hafi í vetur, en hinn, Gylfi, hefur nú verið seldur til Þýzkalands og einnig
Kári, togari sá, er Alliance átti.
Ægir. 1 mars 1950.