06.08.2017 07:56
B. v. Víðir GK 450. LCDN / TFSD.
Togarafélögin
Víðir og Ýmir í Hafnarfirði
Togaraútgerð, rekin með nýtískuskipum og að fullu
samkeppnisfær við það, sem gerist best annars staðar, hófst í Hafnarfirði árið
1915. Þá komu til bæjarins tveir nýir togarar, báðir smíðaðir í Þýskalandi.
Hétu þeir Víðir og Ýmir, eign samnefndra hlutafélaga.
Ýmisfélagið var eldra, stofnað 24 febrúar 1914. Stjórnina skipuðu þeir Ágúst
Flygenring, Olgeir Friðgeirsson og Hjalti Jónsson (Eldeyjar-Hjalti). Þessir
menn höfðu áður komið að togaraútgerð frá Hafnarfirði. Hjalti segir frá því, að
Holger Debell forstjóri Hins íslenska steinolíufélags, hafi verið annar
aðalhvatamaður að stofnun félagsins ásamt Ágúst Flygenring.
Hitt félagið, Víðir, var stofnað 11 febrúar 1915. Stjórnina skipuðu þeir Magnús
Einarsson dýralæknir, formaður, Pétur Halldórsson bóksali, síðar borgarstjóri í
Reykjavík og Guðmundur Böðvarsson kaupmaður. Þá voru þeir og hluthafar
bræðurnir Böðvar bakari og Þórarinn Böðvarssynir. Hafði Þórarinn prókúruumboð
og framkvæmdastjórn.
Saga Íslenskrar togaraútgerðar fram til 1917.
Heimir Þorleifsson 1974.
Botnvörpungurinn
Víðir GK 450
Hinn nýi botnvörpungur Hafnfirðinga, kom hingað í nótt.
Liggur hann fyrir innan Battarísgarðinn, allur flöggum skreyttur.
Vísir. 29 maí 1915.
Árekstur
Botnvörpungarnir »Rán« og , »Víðir« rákust á á Eyjafirði í
gær. Sagt er að »Rán« (eign M. Th.
Blöndahl o. fl.) hafi skemst allmikið, en »Víðir« (Guðm. Böðvarsson o. fI. ekki
meira en svo að hann getur haldið áfram síldveiðinni.
Vísir. 9 september 1915.
Togarann
Sindra rekur á land
Togarann Sindra frá Akranesi rak mannlausan á land, undir
túnfætinum að Saurbæ á Hvalfjarðarströnd í gærmorgun. Óvíst er hvort skipinu
verði bjargað. Nokkru eftir að Sindri kom af síldveiðum á liðnu sumri, var
togarinn fluttur inn í Hvalfjörð og lagt þar, en sem kunnugt er liggja nú því
nær allir gömlu togararnir við festar. Nokkru fyrir hádegi í gær veitti
heimilisfólkið því eftirtekt að skip kom, að því er virtist siglandi upp að
landinu. Þótti heimilisfólkinu þetta all kynlegt, en hjelt að hjer væru á ferð
erlendir fiskimenn á skipi sínu, villtir af leið. Segir nú ekki frekar af
ferðum skipsins, fyrr en það strandar í fjörunni, skammt vestan við túnfótinn í
Saurbæ. Var veður þá hið besta. Kom þá skýrt í ljós að þetta var Sindri, sem
legið hefur í Hvalfirði í allan vetur. Í gærkvöldi var óvíst hvort takast myndi
að bjarga togaranum.
Morgunblaðið. 24 desember 1949.