11.08.2017 20:15

B. v. Freyr. LCBW.

Botnvörpungurinn Freyr var smíðaður hjá Mackie & Thomson í Glasgow í Skotlandi árið 1891. 152 brl. 250 ha. Triple Expansion vél. Hét áður Umbria. Eigandi var P. J. Thorsteinsson & Co í Kaupmannahöfn og hér á landi frá 5 mars árið 1908. Skipið var selt 23 apríl 1908, Fiskveiðahlutafélaginu Ingólfi í Hafnarfirði. Togarinn slitnaði upp og rak á land í Rauðararárvík í Reykjavík árið 1913 og eyðilagðist. Skipið mun hafa verið rifið þarna í Rauðarárvíkinni.
Myndin hér að neðan er ekki af Frey, heldur af systurskipi hans, smíðað á sama stað í Glasgow í Skotlandi árið 1890. Það skip hét Zodiac GY 286 og var í eigu The Grimsby & Nort Sea Trawling Co Ltd í Grimsby. Árið 1906 fékk hann skráninguna GY 151, sama nafn og árið 1925 var skráningarnúmer togarans LT 173 og gerður út frá Lowestoft á Englandi. Zodiac var skráður 149 brl. (1914). Freyr hefur að öllum líkindum verið eins og Zodiac eða mjög líkur honum.


B.v. Zodiac GY 151 systurskip Freys.                                                                (C) Barry Johnson.

     Halinn og Djúpállinn

Við Vestfirði fiskuðu togararnir einna mest í svartasta skammdeginu, þó að einkennilega kunni að virðast. Voru þeir fyrir öllum Vestfjörðum og allt norður á svonefndan Hornbanka, en hann er í norðaustur frá Horni um 30 sjómílur út. Á hinu fræga togaramiði, Halanum, voru skipin ekki farin að fiska að marki á þessum árum, það var ekki fyrr en árið 1924, sem veiðar þar urðu almennar. Einstaka skipstjórar "gerðu þó túra" á þessum árum út á það svæði, sem seinna var nefnt Hali, en það er um 50 sjómílur til norðvesturs frá minni Ísafjarðardjúps. Hafa ýmsir menn eignað sér það að hafa orðið fyrstir til að fiska á eða nærri þessum frægu miðum. Telur Guðmundur Jónsson skipstjóri, er lengi var kunnur aflamaður á togaranum Skallagrími, að það hafi verið í maí árið 1911, sem fyrst var kastað trolli í nánd við Halann, en annars var það ekki venja togaraskipstjóra á þessum árum að sækja svo langt út. Það var togarinn Freyr, skipstjóri Jóel Jónsson, er gerði þessa tilraun. Guðmundur Guðmundsson frá Móum, sem var skipstjóri á Snorra Sturlusyni RE, segist hafa veitt á 85-90 faðma dýpi norðaustur af Horni. Gerðist það um 20 maí 1911. Þó að hér hafi verið lögð á það áhersla, að togararnir hafi sótt mest til Vestfjarða vetrarmánuðina, þá ber þó einnig að nefna, að oft fóru þeir þangað vor og haust.

Saga Íslenskrar togaraútgerðar fram til 1917.
Heimir Þorleifsson 1974.


Flettingar í dag: 1257
Gestir í dag: 115
Flettingar í gær: 421
Gestir í gær: 22
Samtals flettingar: 1191659
Samtals gestir: 83671
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:18:30