26.08.2017 17:21
B. v. Eggert Ólafsson BA 127. LBMJ.
togarinn
Eggert Ólafsson BA 127
Í desember 1911 kom togari til Patreksfjarðar sem Pétur A
Ólafsson kaupmaður þar, hafði keypt og hugðist gera út þaðan. Var hann nefndur
Eggert Ólafsson BA 127. Pétur hafði keypt eignir I.H.F. á Geirseyri árið 1906
og hafði þar mikil umsvif. Fljótlega komu í ljós erfiðleikar í sambandi við
útgerð þessa skips, þ.e. aðstaða við bryggju á Geirseyri var engan veginn
fullnægjandi. Til þess að reyna að bæta úr þessu keypti Pétur barkskip og lét
það liggja í höfninni, hlaðið kolum, salti og öðrum nauðsynjum. Ef ill aðstaða
var við bryggju, gat togarinn lagst upp að barkinum og fengið þannig
afgreiðslu. Ekki reyndist þetta þó fullnægjandi lausn, og varð Pétur að selja togara
sinn hlutafélagi í Reykjavík sem nefnt var Eggert Ólafsson.
Hlutafélagið Eggert Ólafsson var stofnað 31 janúar árið 1913. Pétur A Ólafsson
seldi félaginu skip sitt og mun hann að einhverju leyti hafa fengið andvirði
þess greitt í hlutabréfum. Hlutafélagið Eggert Ólafsson keypti annað skip í
febrúar 1915 og hét það Earl Hereford RE 157, keypt frá Færeyjum. Báðir þessir
togarar voru seldir til Frakklands í desember árið 1917.
Saga Íslenskrar togaraútgerðar fram til 1917.
Heimir Þorleifsson 1974.
Togarasalan
1917
Sökum vaxandi skipaeklu hafa flestar þjóðir tekið það ráð að
banna með lögum sölu skipa úr landi. Aukaþingið sem haldið var í vetur bjó til
samskonar lög fyrir ísland og bannaði að selja eða leigja skip út úr landinu.
Lög þessi voru einhver hin mikilsverðustu sem þingið afgreiddi. En nú er komið
á daginn að þingið samþykti lögin af tómum apaskap, bara af því að aðrar þjóðir
gerðu það - en ekki af því að þingmönnum væri ljóst hve skaðlegt væri fyrir
þjóðfélagið að skipin væru seld, því nú hefir Sama þingið, sömu þingmennirnir,
gefið samþykki sitt til þess að togaraflotinn íslenzki sé seldur út úr landinu.
Snemma í sumar kvisaðist það að útgerðarmenn vildu fá að selja Þá af togurunum
sem elstir væru, eða óhentugir sökum ónógrar stærðar , eins og t. d.
"Íslending". En nú veit hvert mannsbarn í Reykjavík, þó blöðin sem daglega
koma út, og vanalega tilfæra allar fréttir, ekki hafi getið þess með einu orði,
að búið er að selja meirihlutann af togurunum, og að þeir verða sóttir einhvern
daginn. Togararnir sem sagt er að séu seldir eru þessir:
Apríl 295,19 smálestir eign h.f. "Ísland".
Baldur 290,69 smálestir eign h.f. "Bragi".
Bragi 291,37 smálestir eign sama.
Eggert Ólafsson 262,62 smálestir eign E. Stefánssonar.
Ingólfur Arnarson 305,77 smálestir eign h.f. "Haukur".
Maí 263,92 smálestir eign h.f. »Ísland".
Þór 264,70 smálestir eign "Defensor".
Jarlinn 277,49 smálestir, eign "Hákon Jarl"
Earl Hereford 273,02 Eign E Stefánssonar.
Þorsteinn Ingólfsson 264,92 eign h.f "Haukur"
Eins og þeir geta séð af þessari skrá sem til þekkja, eru eldri og nýrri
togararnir seldir upp til hópa, af þeim fáu sem eftir eru, er meirihlutinn
skip, sem ekki eru ný eða nýleg.
Upprunalega mun ekki hafa verið ætlun útgerðarmanna að selja aðra togara en þá
fáu sem, á næsta ári eða svo , þörfnuðust kostnaðarsamrar endurbótar, en þegar
farið var að semja óx græðgin í verðhækkunina er orðið hefir á skipunum frá stríðsbyrjun,
og eins mun það, að síldveiðin tókst ekki betur í sumar en raun varð á, hafa
slegið felmtri á útgerðarmenn, og ýtt undir þá að greipa gullið.
Er nú gróðinn af því að selja togarana eins viss og auðsær fyrir útgerðarmenn
og þeir telja sér? Gróðinn við að selja er eingöngu, eða nær það, í því falinn
að hremma verðhækkunina, sem orðið hefir á togurunum frá því stríðið hófst, en
hins vegar er mjög vafasamt hvort togarar fást keyptir eða smíðaðir á næstu 5 -
10 árum ódýrar en þessi skip hafa verið seld. Undantekningarlaust allar þjóðir
búast við skipaeklu að ófriðnum loknum; t. d. hafa Þjóðverjar svo illa aðstöðu sem
þeir eiga til slíkra starfa um þessar mundir, smíðað hvert stórskipið á fætur
öðru til þess að geta að einhverju bætt úr hinni fyrirsjáanlegu skipaeklu er
verður eftir stríðið.
Í bréfinu hér að ofan óskar h/f Eggert Ólafsson í Reykjavík eftir undanþágu frá lögunum frá 18 janúar 1917 og þeim leyft að selja botnvörpuskip sín, Eggert Ólafsson RE 156 og Earl Hereford RE 157 úr landi.
En þó ganga mætti að því vísu, að hægt yrði, að stríðinu
loknu, að fá jafngóða togara, að mun ódýrara en það verð, sem íslensku
togararnir eru nú seldir fyrir, þá er gróðinn af sölunni samt sem áður mjög
vafasamur. Að öllum líkindum verður síðasta tímabil styrjaldarinnar vopnahlé.
Og þegar litið er á hvílík feikna flækja það er, sem greiða á úr við
friðarsamningana, og þegar hinsvegar er litið á, hve langan tíma
friðarsamningar hafa tekið, sem hafa verið á eftir margfalt, margfalt minni
styrjöldum, þá virðist svo, sem hinn skemmsti tími sem hægt sé að hugsa sér að
vopnahléið standi áður en friður kemst á, muni vera eitt ár. Nú er lítt
hugsandi að vopnahlé verði samið upp á aðra skilmála en að Þjóðverjar hætti á
meðan kafbátahernaðinum, og þá að líkindum einnig að Bretar hætti að banna
flutning til Þýskalands, að minsta kosti á matvöru. Allt bendir því á að árið
sem fer á undan undirskrift friðarsamninganna, verði ágætis ár fyrir hlutlausar
þjóðir, með öðrum orðum, verði 1915 eða 16 upp aftur, því vitanlega gera
hverjir málsaðilar ófriðarins um sig, allt sem þeir geta, til þess að búa sig
sem best undir áframhald ófriðarins, ef friðarsamningarnir skyldu fara út um
þúfur (auðvitað innan þeirra takmarka er vopnahlésskilmálarnir tiltaka).
Verði
nú gangur málsins eins og hér er tilgetið, er bersýnilegt, að sala togaranna er
fyrir útgerðarmennina sjálfa hið versta glapræði, og það er ekki ótrúlegt, að
það fari fyrir þeim, eins og fyrir manninum ;í sögunni sem átti hænuna sem
verpti gulleggjum. Maðurinn sá hugði, að hænan mundi vera tómt gull að innan,
og þar eð hann var mjög ágjarn, þá slátraði hann henni. En eins og þeir muna,
sem söguna hafa lesið, var það allt annað en gull, sem maðurinn fann innan í
hænunni! Útlitið fyrir togaraútgerðina er síst verra núna, en það var fyrir
kúaeigendur hér sunnanlands í fyrra haust, þegar öll taðan hafði skemmst svo,
að hún var nær ónýt. Hvað mundi það hafa verið kallað, ef kúaeigendur hefðu
alment í fyrrahaust selt kýrnar til niðurskurðar? Eitthvað miður fallegt hefði
það, með réttu, verið kallað. En það sem togaraeigendur gera nú, er þó
nákvæmlega hið sama.
Sé togarasalan vafasöm ráðstöfun miðuð við hagsmuni útgerðarmannanna, þá þarf
enginn vafi að leika á því, hvað hún er, þegar horft er á hana með hagsmuni
þjóðarheildarinnar fyrir augum, það er niðurskurður og ófyrirgefanleg glópska,
hvernig svo sem á málið er litið. Á sama tíma og menn gera sitt ítrasta til
þess að finna ráð til þess að bæta úr fyrirsjáanlegu atvinnuleysi, sem meðal
annars stafar af því, að togararnir verða að hætta í bili, eru þeir sömu
togarar seldir út úr landinu, og þar með alveg fyrirsjáanlega
atvinnuleysistímabilið framlengt um hver veit hvað langan tíma. Auðvitað er, að
togarasalan gerir að líkindum hvorki til né frá um atvinnuleysi það, sem er nú
rétt framundan, og er þó ekki ómögulegt, að gera hefði mátt samninga við Breta
um að selja þeim ísfisk hér, sem þeir sjálfir sæktu, og borguðu hæfilegu verði
miðað við kolaverðið. En auðvitað er þetta atriði mjög vafasamt og líklegast
verður það atriði, að togarasalan hefir ekki mikilvæga þýðingu fyrir nánustu
framtíðina að ríða baggamuninn um það, að alþýðan skerst hér ekki sjálf í
leikinn. Því væri fyrirsjáanlegt, að hægt væri að halda út togurunum í nánustu
framtíð, ætti verklýðurinn að freista þess hvort ekki væri hægt að hindra
söluna með því að gera allsherjarverkfall hér í Reykjavík og í Hafnarflrði
(stuðningsverkföll hefði mátt búast við að gerð hefðu verið hér og þar, sem
verklýðsfélagsskapurinn er lengst kominn). Slíkt verkfall hefði eigi einungis
verið rétt frá siðferðislegu sjónarmiði, heldur einnig frá lagalegu, því sala
togaranna er algerlega ólögleg, og skal það nú skýrt nánar.
Lög þau er getið er um í upphafl greinar þessarar, "Lög um bann við sölu og
leigu skipa úr landi", sem aukaþingið í vetur samdi, hljóða þannig;
"1. gr. Bönnuð skal sala og leiga skipa út úr landinu. Landsstjórnin getur
veitt undanþágu frá banni þessu.
2. gr. Brot gegn lögum þessum varða sektum frá 10 þús. til 200 þús. krónum. Með
mál út af brotum gegn lögum þessum skal fara sem almenn lögreglumál.
3. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi." Eins og sjá má á 2. gr. getur
landsstjórnin veitt undanþágu frá lögunum, en það kemur ekki til mála að það
geti kallast undanþága, sem hér á sér stað, því eftir því sem útgerðarmenn
skýra sjálfir frá nú, stendur ekki á útflutningsleyfi frá stjórninni. Stjórnin
hefir því brotið lögin, eða öllu heldur þegjandi og hljóðalaust numið lögin úr
gildi. Það þýðir ekki að tala um það, að lögin banni sölu allra skipa, og
undanþágan sé aðeins gefin fyrir togara, því lögin eru nor eingöngu samin til
þess að hindra sölu togaranna, því ennþá hefir ekki heyrst að Utlendingar hafi
ágirnst mótorbátana okkar. Vitanlega hefði stjórnin ekki leyft söluna nema með
samþykki þingflokkanna. Þeir eru því jafnsekir stjórninni; en þó þetta hafi
verið borið undir þingmennina, þá er lagabrotið jafnt fyrir því. Þingmenn geta
ekki frekar en aðrir menn gefið leyfl til þess að breyta þvert ofan í gildandi
lög.
Dagsbrún. 22 september 1917.