03.09.2017 08:36

Skútuöldin.

Í lok 19 aldar gafst okkur íslendingum tækifæri til hagstæðra kaupa á stórum seglskipum til meiri sóknar en á litlum þilskipum, og fór þetta saman við erfiðleika í árabátaútvegi við Faxaflóa. 2 janúar 1897, birtist grein í Ísafold, þar sem segir að árabátaútgerð í Reykjavík og Seltjarnarnesi verði á komandi vetri, sem svarar 1/4 til 1/6 % af því, sem verið hafi fyrir tíu árum. Þá var komið að því að leita varð nýrra úrræða. Togara gátum við ekki keypt. Til þess var engin fjárhagsgeta og engin kunnátta. Þessi skip höfðu vakið mikinn ótta, þegar þeirra varð vart hér við landið 1889. Alþingi brást þá hart við til að stemma stigu við þessum vágesti, sem menn töldu boða landauðn, ef ekkert væri að gert til varnaðar. Botnvörpuveiðar voru bannaðar í landhelgi Íslands. Rétt í þann mund, sem erfiðleikarnir steðjuðu að árabátaútgerðinni og menn sáu ekki önnur úrræði en reyna að auka þilskipaútgerð og einkum var það svo í Reykjavík og Seltjarnarnesi.

 
Kútter Hákon RE 113. LBPH. Hét áður Haraldur MB 1, smíðaður í Rye á Englandi árið 1878. 74 brl. Skipið strandaði við Grindavík 9 maí árið 1926. Mannbjörg.           (C) Magnús Ólafsson. 

Í þennan tíma voru Englendingar að leggja af sér segltogara sína. Segltogarafloti Englendinga var feykilega fjölskipa, á þriðja þúsund slíkra skipa gerð út frá austurströnd Englands og Skotlands og sótt á þeim í Norðursjó með botnvörpu. Við íslendingar kölluðum þessi skip kúttera, drógum það af enska orðinu "cutter", dregið af þverhníptu stefni skipanna. Sem togskip voru kútterarnir kallaðir "smacks". Bretar tóku að leggja þessum skipum þegar þeir hófu togveiðar á gufutogurum á níunda áratugnum og lögðu segltogurunum mjög ört. Árið 1887 voru 450 segltogarar í Hull, en 1903 enginn. Grímsbæingar voru aðeins seinna á ferð. Þaðan gekk 471 segltogari 1901, en 1903 var þar enginn. Víðar gerðist sama sagan á austurströnd Englands og Skotlands. Það var því úr nógu að velja 1897 og fyrstu árin sem við íslendingar stóðum í kútterakaupum. Kútterarnir voru miklu stærri og betri seglskip en við áttum fyrir og kaupverðið ekki nema sem svaraði einum fjórða af raunverulegu verði skipanna, fjögur til fimm þúsund krónur, algengt verð á nýlegum kútterum. Þetta varð okkur Íslendingum aldeilis veizla. Geir Zoéga, átti sem fram er komið, óumdeilanlega stærstan hlut að því að koma fótum undir þilskipaútgerð í Reykjavík, enda kölluðu samtímamenn hans hann föður Reykjavíkur í skálaræðum.


Kútter Bergþóra RE 54. LBPM. Smíðuð í Goole á Englandi árið 1881. 85 brl. Skipið var selt til Færeyja 16 febrúar 1914.                                                          (C) Magnús Ólafsson.

En af þeim mönnum, sem mest unnu að því að efla þessa útgerð með Geir, eru þeir Tryggvi Gunnarsson, Landsbankastjóri 1893 (Landsbankinn stofnaður 1885) og Markús Bjarnason, skipstjóri og stýrimannaskólastjóri. Geir er enn eitt dæmið um hversu örlagaríkt það gat reynzt í uppbyggingu byggðarlaga, að þar væri maður, sem risi uppúr fjöldanum að áræði, dug og skynsemd til framkvæmda. Efalaust er það, að Geir ásamt því að vera frumkvöðull 1866, gerir hann stærsta átakið og afdrifaríkasta að hluta með Tryggva í ráðum með sér.
Snemma árs 1897 fór Geir, kominn undir sjötugt, út til Englands og kaupir 5 kúttera, (þrjá fyrir sjálfan sig) sem komu hingað út í marz 1897. Reykvíkingar ættu að halda þessu ártali vel til haga. Nú tók að færast aukið líf í Reykjavík til að umskapast úr dönsku stjórnsýslu- og verzlunarplássi í íslenzkan útgerðarbæ, sem hófst til foryztu í íslenzkri stórútgerð, þótt finna mætti stærri einstaka útgerðarmenn á nokkrum stöðum, framan af kútteratímanum. Svo er talið (Matthías Þórðarson), að við íslendingar höfum keypt 100 kúttera af Englendingum á þremur til fjórum árum um aldamótin (1897- 1901). Nokkuð var einnig keypt af þilskipum frá Noregi og Danmörku á sama tíma.


Kútter Sigga. Smíðuð í Danmörku árið 1900. Stærð óþekkt. Var með 10 ha. hjálparvél af Dan gerð. Skipið var selt H.P. Duus árið 1904. Fékk nafnið Ingvar. Skipið fórst á Viðeyjarsundi 7 apríl árið 1906 með allri áhöfn, 21 manni.                                              Ljósmyndari óþekktur. 

Engin áreiðanleg tala er til um þilskipafjölda í landinu, þegar kútteraöldin eykst, en eflaust voru þau orðin þegar kútteraöld hefst 1897 á annað hundrað þessi litlu skip, 10-30 tonn, með 8-15 manna áhöfn, en nú tóku menn að leggja þau af og endurnýja þann skipaflota með kútterum, 50-100 tonna, með 15-30 manna áhöfn. Reykjavík varð stærsti kútterabærinn með 32-42 skip á blómatíma kútteranna. Á árunum 1905/06 hafa þeir orðið flestir í Reykjavík 42 og til viðbótar 4 á Seltjarnarnesi, en allt fram til 1910 voru þeir aldrei færri en 32, sem gengu frá Reykjavík, með um 700 sjómönnum, og um þúsund manns, þegar kútterarnir voru flestir. Eins og fólksfjölgunin í Reykjavík á árunum 1880-90 var eignuð litlu þilskipunum, sem þá voru fyrir landi í Reykjavík, var fólksfjölgunin 1890- 1901 eignuð kútteraútgerðinni, en þá var fólksfjölgunin 72% frá 1890- 1901, eða úr 3.886 í 6.682 og árin 1900-1910 um álíka prósentutölu 73%, eða úr 6.682 í 11.539.

 
Kútter Seagull RE 84. LBJQ. Smíðaður í Englandi (Hull ?) 86 brl. Skipið var síðast gert út af H.P. Duus hér á landi fram yfir 1920. Óvíst hvað varð um skipið.         (C) Magnús Ólafsson.

Fólki var nú tekið að fjölga í landinu eftir hallærisárin og fjölgunin 1% á ári eða um 10% á sama tíma (1900- 1910) og í Reykjavík fjölgar um 73%. Útsvörin segja söguna líka. Þau hækkuðu á fimm árum (1895-1900) úr kr. 20.550 í kr. 30.808, og 1910 höfðu þau aukist í 92.385 krónur. Fjölgun fólks í Reykjavík varð náttúrlega af fleiri orsökum en aukinni þilskipaútgerð, iðnaðarmönnum fjölgaði í bænum, húsbyggingar til dæmis miklar, einnig fjölgaði verzlunarmönnum í sambandi við stórverzlanir sem hér risu upp, fólksfjölgun fylgdi og aukin stjórnsýsla með Heimastjórn 1904 og ýmsum stofnunum, svo sem tveimur bönkum, og auknum umsvifum í bæjarrekstrinum. Undirrótin var þó að verulegu leyti þilskipaútgerðin og það fjármagn og vinna sem henni fylgdi til lands og sjós. Kútteraútgerð reyndist fljótt hafa sína vankanta. Eins og fyrr segir gátum við íslendingar í fyrstu valið úr skipum í Englandi til kaups, en þegar framí sótti reyndust mörg skipanna slitin og þurfa mikið viðhald.


Kútter Surprise GK 4. LBTH. Smíðaður í Yarmouth á Englandi árið 1886. 70 brl. Skipið var gert út af Útgjörðarfélaginu við Hafnarfjörð (Einari Þorgilssyni) frá 13 ágúst árið 1900. Talið ónýtt og rifið, ekki vitað hvenær það var.                                                                                Ljósmyndari óþekktur. 

Tryggvi Gunnarsson sagði að þilskipin hafi greitt kaupverð sitt á þremur árum, en þeirri hagnaðarútgerð brá skjótt til hins verra. Það reyndist erfitt að manna skipin jöfnum færamönnum og tekjur manna reyndust mjög misjafnar á þeim, algengt að lægsti maður dragi ekki nema fjórðung móts við hæsta mann. Erfiði var mikið og aðbúnaður slæmur. Þröngt var um menn í lúkarnum, tvísett í margar kojur, skrínurnar tóku mikið pláss og skrínukosturinn geymdist illa, myglaði og þránaði. Eina nýmetið var soðningin. Engin var bryggjan í Reykjavík til að landa við úr skútum og þær lágu framá höfn og landað í uppskipunarbáta, og borinn uppúr þeim fiskurinn á handbörum lengi vel en síðar notaðar kerrur. Þessi uppskipun var erfitt verk og gat verið hættulegt, ef ókyrrt var í sjóinn á höfninni. Þegar þessu löndunarstreði var lokið tók við saltburður og útskipun í skútuna. Vatnsburðurinn var eitt erfiðisverkið. Vatn var tekið úr vatnspóstinum uppi í Aðalstræti og flutt til skips í tunnum (síðar belgjum).


Kútter Ása GK 16. LBCQ. Smíðuð í Calmton á Englandi árið 1886. 89 brl. Var með hjálparvél. Gerð út af H.P. Duus. Skipið strandaði við Hvalsnes 10 október árið 1919. Mannbjörg. Ljósmyndari óþekktur.

Þá varð það og svo, sem úrslitum réði að skjótt varð um þilskipaútgerðina að skipin reyndust meiri slysagildrur en árabátarnir höfðu verið, og var það þveröfugt við það, sem menn höfðu haldið. Á þremur áratugum (1881-1910), drukknuðu 2096 manns. Og voru þá drukknanir 83 af hundraði allra slysfara í landinu. Þær voru þá ferfalt tíðari hér en í Noregi. Á síðara hluta ofannefnds tímabils 1904-10 fórust að meðaltali 15 af hverjum 1000 skipverjum á þilskipum, og af þilskipum drukknuðu tiltölulega fleiri menn en af árabátum. Árið 1887 drukknuðu 124, 1897: 125 og 1906: 124. Þetta voru mestu mannskaðaárin á þilskipum. Þau voru þó enn meiri fyrr á öldinni. Á árunum 1832-46 misstu Vestlendingar (Vestfirðingar og Breiðfirðingar) 22 skip og þar af helminginn með allri áhöfn (Lúðvík). Viðhaldskostnaður varð mikill á mörgum skipanna, eða eins og Matthías Þórðarson orðar það, en hann var skipstjóri og útgerðarmaður: "Skúturnar voru flestar gamlar og úr sér gengnar og töpuðust stórar fjárhæðir árlega til viðhalds þeirra.


Áhöfnin á kútter Georg RE 39. Kútter Georg, LBSQ, var smíðaður í Hull árið 1888. 84 brl. Var í eigu Th. Thorsteinssonar. Skipið fórst við Vestmannaeyjar 21 mars árið 1907 með allri áhöfn 21 manni.
(C) Sigfús Eymundsson.

Hjá mörgum varð þessi kostnaður meiri en nam ágóðanum af sæmilegri vertíð og urðu því margir fyrir tapi af útgerðinni." Það var sýnt að hverju stefndi fyrir skútuútgerðinni þegar 1906, þegar reynsla var komin á vélbátana, sem Þorsteinn í Laufási segir frá í bók sinni "Sjómannsævi í Eyjum". Hann gerði út 7 tonna bát, sem hann keypti 1904 og Ægir segir bátinn hafa aflað á vertíð með 5 manna áhöfn álíka og skúta með 20 manna áhöfn, og þá komið upp hið sama og með árabátana og skúturnar áður. í Ægi 1908 er grein um hnignun skútuútgerðar, en þá mátti orðið merkja að hverju stefndi, þótt segja megi að fullur gangur væri á útgerðinni að því er laut að fjölda skipa fram um 1910. í greininni segir svo: . . . svo dæmi um hnignun útvegsins (þ.e. skútuútvegsins,) skal þess getið, að nú getur maður eiginlega ekki talið nema 5 útgerðarmenn við Flóann og það eru stórkaupmenn eða stórverzlanir, sumpart danskar selstöðuverzlanir og enskt auðfélag. Íslenskir útgerðarmenn eru að detta úr sögunni. Það eru eftir að nafninu til 4-5 menn með 1 skip eða hluta úr skipi, en það eru lítil líkindi til, að þeir geti haldið úti skipi í ár nema þá einn eða tveir af þessum mönnum, ef ekki er hlaupið undir bagga með þeim og þeim veitt fjárhagsleg aðstoð. Þessi útvegur er í dauðateygjunum ... "


Áhöfnin á kútter Guðrúnu GK 7. LBPV. Smíðuð í Hull á Englandi árið 1884. 75 brl. Skipið var jafnan kennt við Gufunes en eigandinn, Filippus Filippusson bjó þar. Bar einnig skráningarnúmerin, RE 77 og GK 1. Guðrún var seld til Færeyja 10 október árið 1917. Var gerð út þaðan fram á 8 áratug síðustu aldar.
  
Höfundurinn reyndist ekki sannspár um afdrif íslenzkra útgerðarmanna, þó að hann sæi glögglega dauðamörkin á skútuútgerðinni í þeirra höndum. Þessar verzlanir, sem greinarhöfundur hefur í huga voru Duus og Edinborg, sem rak útgerðarfyrirtækið Sjávarborg. Duus hafði keypt Fischer-verzlun 1902 og tók þar við útgerð og fiskverzlun og jók hvorttveggja stórlega.
Edinborgar-verzlun var fyrr á ferð og keypti 6 kúttera aldamótaárið 1900. Verzlanirnar tóku sinn hagnað í verzlun með fisk og viðskiptin við mannskapinn á skipum sínum og miklu verzlun bæjarbúa almennt, og gátu bætt sér tapið af útgerðinni með verzlunarhagnaðinum. Þessi fyrirtæki gerðu út til að fá fisk til sölu. Einstaklingar, sem ráku skútur sátu verr í því, og töpuðu fljótt skipum sínum, þegar rekstrarkostnaður tók að aukast vegna mikils viðhalds á skipunum. Hrunið í skútuútgerðinni hófst með fullum hraða eftir 1910, þá er allur skútuflotinn 140 skip í landi, fækkað um 26 frá 1906, og 1915 voru skútur 95 og 1920, 39, og í Reykjavík stærsta skútuútgerðarbænum voru aðeins eftir 1920 6 eða 8 kútterar. Nokkrum skútum var breytt í vélskip.

Ásgeir Jakobsson.
Sjómannadagsblaðið. 1 júní 1991.

             Skútuöld Gils Guðmundssonar

Skútuöldin, höfuðrit Gils Guðmundssonar, hefur nú selst í um 9 þúsund eintökum og verður það að teljast harla fátítt að rit um atvinnuhætti öðlist slíkar vinsældir. En Skútuöldin er ekki aðeins ómetanleg heimild, heldur einnig mjög læsilegt rit, fróðlegt og skemmtilegt. Gils var tæp þrjú ár að vinna að þessu stóra verki sem í annarri útgáfu var prentað í fimm bindum. Guðjón Ó. Guðjónsson bókaútgefandi átti frumkvæði að bókinni og kostaði samningu hennar. Telur Gils að Guðjón Ó. sé að líkindum fyrsti bókaútgefandi á Íslandi sem beinlínis ræður mann upp á mánaðarlaun til að skrifa fyrir sig bók. Gils hófst handa vorið 1943, samdi þá ávarp til skútumanna sem hann dreifði um landið og sagði þar meðal annars: "Þilskipin eiga sér mikla og merkilega sögu. Óhætt er að fullyrða, að útgerð þeirra var einhver traustasta undirstaða allra framfaranna, sem hér urðu á öldinni sem leið. Aldrei hefði íslendingum tekist að rétta við eftir áþján margra alda,ef þeirhefðu haldið áfram að "dorga dáðlaust upp við sand," og eftirlátið útlendingum einum að standa við stjórnvöl á glæstum fiskisnekkjum. Sá mikli fengur, sem þilskipin fleyttu að landi, gerði okkur kleift að rétta úr kútnum, bæði andlega og efnalega. Kynslóð skútualdarinnar tók við litlum og lélegum kænum, en kom sér upp fríðum flota. Sú kynslóð tók við atvinnuvegunum örsnauðum og niðurníddum, en skilaði þeim bjarg- álna. Hún tók við landinu í áþján, skilaði því frjálsu. Hún tók við tungunni spilltri, skilaði henni hreinni. Hún tók við þjóðerniskenndinni í svefni, skilaði henni vakandi. Á fáum áratugum var hinum ægilegu vágestum skorts og kvíða bægt frá íslenskum dyrum. Á skömmum tíma var sinnulítil og sofandi þjóð glaðvöknuð og tekin að sinna verkefnum, sem hvarvetna biðu. Margt hjálpaðist að til að skapa þessar miklu og snöggu breytingar. En þilskipaútgerðin var hin hagræna undirstaða alls þessa. Þess vegna er það brýn nauðsyn að halda til haga öllum fróðleik um þessi efni, stórum og smáum. Slíkt er hrein og bein skylda, ekki aðeins gagnvart hinni liðnu kynslóð, heldur miklu fremur vegna framtíðarinnar." Á árunum 1943-1944 ferðaðist Gils um landið, fór í helstu verstöðvar, ræddi við gamla menn og sögufróða, og spurðist fyrir um hvar skráðar heimildir væri helst að finna. Bókin kom fyrst út í tveimur geysiþykkum bindum, 1944 og 1946, og fékk undireins hinar bestu viðtökur; fyrra bindið þurrkaðist t.d. upp á örfáum dögum, alls fjögur þúsund eintök. "Það voru skemmtilegustu dagar sem ég hef lifað," segir Gils:


Gils Guðmundsson rithöfundur. Myndin er tekin árið 1946, um það leiti þegar hann lýkur við fyrstu útgáfu Skútualdarinnar.                               Ljósmyndari óþekktur.

"Það hafði engum komið til hugar að bókin fengi aðrar eins viðtökur." Áhugi Gils á skútuöldinni vaknaði strax í bernsku hans í Önundarfirði. Hann er fæddur á gamlársdag 1914 að Hjarðardal innri í Mosvallarhreppi, sonur Guðmundar Gilssonar bónda þar og Sigríðar Hagalínsdóttur. Áður en faðir hans fór að búa hafði hann verið skútuskipstjóri og svo var um fleiri bændur í Önundarfirði. Þegar þeir komu saman voru því gjarnan rifjaðar upp sögur frá sjómennsku þeirra á skútunum og tók Gils snemma að leggja við hlustir þegar skútusvalkið bar á góma. Og þegar Gils hafði lokið kennaraprófi rúmlega tvítugur, fór hann að safna í tómstundum sínum ýmsum frásögnum og fróðleik um sjósókn Vestfirðinga á liðnum tímum. Segir hann að það hafi vakað fyrir sér að semja síðar bók sem borið gæti heitið Vestfirskir sjómenn. Í formála að seinni útgáfu Skútualdarinnar lætur Gils svo um mælt: "Þá skal að lokum nefndur til sögu maður, sem hvergi er getið í fyrstu útgáfu Skútualdar, en á þó að líkindum meiri þátt í því en nokkur annar að ég fór að glíma við þetta efni. Sá maður er faðir minn, Guðmundur Gilsson. Hann hafði verið skútuskipstjóri í nokkur ár um það leyti sem ég fæddist og tók að vaxa úr grasi. Faðir minn er ekki sjálfhælinn maður og sagði lítt afrekssögur af sjóferðum sínum. En frá öðrum barst mér snemma vitneskja um það, að hann hefði verið farsæll skipstjóri og sómt sér með prýði í röðum vestfirskra skútumanna á lokaskeiði hinna seglprúðu gnoða. Ef til vill á myndin í litlu stofunni heima, hópmynd af mönnunum ungu og vasklegu sem útskrifuðust úr Stýrimannaskólanum vorið 1912, drjúgan þátt í að ég lét á sínum tíma tii leiðast að skrá söguþætti skútualdar."

Sjómannadagsblaðið. 5 júní 1988.
Brot úr viðtali við Gils Guðmundsson.

Flettingar í dag: 1257
Gestir í dag: 115
Flettingar í gær: 421
Gestir í gær: 22
Samtals flettingar: 1191659
Samtals gestir: 83671
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:18:30