06.09.2017 20:27
Önundarfjörður.
Þessi mynd er tekin á Önundarfirði, fjallið Þorfinnur til hægri handar, hátt, bratt og tignarlegt. Hinu megin fjarðarins er kauptúnið Flateyri. Togararnir leituðu oft hafnar á Vestfjörðum, til að fá gert við ef bilerí kom upp eða að fá aðra þjónustu sem þeir þurftu á að halda. Einnig leituðu þeir þangað í var undan vondum veðrum, enda firðirnir skjólgóðir undan norðan og norðvestan óveðrum. Halaveðrið mikla í febrúar árið 1925 færði mönnum heim þá staðreynd að togararnir, hversu stórir sem þeir væru, gætu hæglega farist á rúmsjó. Eftir Halaveðrið varð mönnum ljóst og þá sérstaklega skipstjórum togaranna, að viturlegra væri að leita vars upp við landið en að halda sjó á rúmsjó í óveðrum. Togarinn sem ber í fjallið Þorfinn, og er á útleið, er að ég held örugglega Beverley smíð. Nokkuð viss um að þetta er togarinn Venus GK 519 frá Hafnarfirði. Hér fyrir neðan er grein sem skrifuð er í Sjómannablaðið Víking í mars árið 1947. Höfundur greinarinnar er óþekktur, en kvittar undir sem "Togaramaður". Merkileg og skemmtileg lesning hjá honum.
![]() |
||||
Togari á útleið frá Flateyri við Önundarfjörð. Gæti verið Venus GK 519. Mynd úr safni mínu.
|
Önundarfjörður.
Mig hefur ekki undrað eins mikið á neinu á þessum tímum nýsköpunarinnar í íslenzku atvinnulífi, eins og því að sjá aldrei skrifað og og heyra aldrei talað um Önundarfjörð. Við, sem höfum verið á togurunum, vitum hvers virði sá staður er fyrir íslenzka togaraútgerð. Á Halanum, auðugustu fiskimiðum í heimi, hefur togaraflotinn íslenzki haldið sig 8—10 mán. ársins, en lífhöfnin undan stórviðrunum þar hefur verið Önundarfjörður. Það er stytzt á Halann frá Önundarfirði af öllum höfnum, og skipstjórarnir halda sig þar í óveðrum vegna þess að þeir vita manna bezt, hvers virði það er að vera fyrstur á miðin. Þegar staðið hafa stórviðri dögum saman, er ekki nýtt að sjá meginhlutann af togaraflotanum liggjandi á Önundarfirði og það er sama hver veðurofsinn er, aldrei „rekur“ skip sem liggur á Önundarfirði, hvaðan sem hann blæs, því þar er skjól fyrir hafsjóum í öllum áttum, auk þess sem botnlagið er þannig um allan fjörðinn, að ekki verður á betra kosið, enda sést þar ekki eitt einasta hálft eða heilt skipsflak liggjandi í fjörunni, eins og sjá má víða annarsstaðar. Áður en farið var að byggja hafnir hér á landi var höfnin á Önundarfirði talin ein af þrem beztu höfnum landsins, ásamt höfnunum á Akureyri og Ísafirði. Enda þótt togararnir séu gerðir út frá Reykjavík og nágrenni, hafa þeir meiri og minni viðskipti er þeir koma til hafna, ekki sízt ef veiðiferðirnar verða langar vegna veðurs. ókunnugir mættu ætla, að á slíkri höfn, sem Önundarfjörður er fyrir togaraflotann, væru yfirleitt til allir hlutir, sem togararnir þurfa á að halda, en því er nú ekki alveg þannig varið. Fyrsta skilyrði til afgreiðslu er bryggja.
Undanfarin ár hafa togararnir notast mikið við bryggju ríkisverksmiðjunnar á Sólbakka, en síðan hætt var að reka þá verksmiðju, hefur bryggjan gengið mjög úr sér og má nú heita hættuleg gangandi mönnum. Er þá ekki um aðra bryggju að gera en bryggjuna á Flateyri, sem er svo lítil, að þar er aðeins hægt að afgreiða eitt skip í einu, og þar að auki svo léleg, að bílum er bannað að fara fullfermdum eftir henni. Afgreiðsla togaranna gengur af þessum sökum afar seint og verða þeir stundum að fara óafgreiddir, sem seinastir koma. Þá mætti ætla, að á Flateyri væri bæði tré- og járnsmíðaverkstæði, sem togararnir gætu snúið sér til með a. m. k. smáviðgerðir. Mér er ekki kunnugt um nein slík verkstæði. Mér er sagt, að kolasalan á Flateyri hafi gert ítrekaðar tilraunir til þess að fá stímkol þangað, til þess að selja togurunum, en ekki fengið það. Hefur það orðið til þess að togararnir hafa orðið að senda kolaslatta með smábátum, eða láta þau á land sjálfir úr boxunum. Hefur á undanförnum árum mátt sjá smá-kolabyngi um alla Flateyri, sem hver togari um sig hefur átt. Sjá allir, hver sóun það er á vinnuafli og fjármunum, að vera með kolin í slíkum smáslöttum, heldur en að fá skip sem losaði út á Flateyri. Hið eina sem virðist vera í sæmilegu lagi hvað aðbúnað snertir til að taka á móti togurunum á Flateyri, er sjúkraskýlið, sem reist var þar fyrir stuttu síðan, og mér er sagt, að ekki væri komið upp ef skipshafnir togaranna og útgerðarmenn þeirra hefðu ekki verið jafn rausnarlegir í gjöfum sínum til þess og þeir voru.
Það má enginn taka þessi orð mín svo, að ég sé að kenna allt þetta slóðaskap Önfirðinga, því við því er tæplega að búast, að 3—4 hundruð manna hreppsfélag geti fullnægt þörfum skipanna, ekki betri en aðstaðan er. Meining mín með þessum línum er einungis sú, að benda á hversu mikils virði þessi staður er fyrir togaraútgerðina og um leið fyrir þjóðina í heild. Ég held að þjóðin hafi ekki efni á því að láta vera að gera á Flateyri við Önundarfjörð:
1. Það stóra bryggju, að hægt sé að afgreiða þar a. m. k. 3 togara í einu.
2. Eldsneytisbirgðastöð, sem hefði bæði kol og dieselolíu fyrir nýju togarana.
3. Verkstæði, sem framkvæmt gæti a. m. k. allar smærri aðgerðir fyrir togarana.
4. Kaldhreinsunarstöð fyrir lýsi, svo ekki þurfi að flytja allt lýsið óhreinsað til Reykjavíkur, sem lagt er þar á land, eins og gert hefur veiáð að undanförnu.
Þetta eru hlutir sem verða að gerast strax, til hagsbóta fyrir undirstöðu-atvinnuveg þjóðarinnar, togaraútgerðina og þar með alla þjóðina.
Togaramaður.
Sjómannablaðið Víkingur. 3 tbl. 1 mars 1947.