04.10.2017 19:28

B. v. Ari GK 238. LBHV / TFHD.

Botnvörpungurinn Ari GK 238 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1920 fyrir Fiskveiðahlutafélagið Ara fróða í Reykjavík. 321 brl. 600 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 735. Hét fyrst Ari RE 147. Selt 14 janúar 1928, Fiskveiðahlutafélaginu Kára í Viðey, fær nafnið Ari GK 238. 9 janúar 1932 er Útvegsbanki Íslands eigandi togarans og fær hann þá sitt gamla nafn og númer, Ari RE 147. Selt 3 september 1932, Ólafi Jóhannessyni & Co h/f á Patreksfirði, hét Leiknir BA 167. Togarinn sökk á Halamiðum 2 október 1936. Áhöfnin, 15 menn, bjargaðist um borð í togarann Gylfa BA 77 frá Patreksfirði.


B.v. Ari GK 238 á veiðum innan um gömlu þilskipin.                      (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


B.v. Leiknir BA 167.                                                                            (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

                Þrjú botnvörpuskip
             og stöðin í Viðey til sölu.

Botnvörpuskipin "Kári Sölmundarson", GK. 153, "Ari", GK. 238 og "Þorgeir skorargeir", GK. 448, eru til sölu. Hverju skipi geta fylgt veiðarfæri og varahlutar, eins og bankinn hefir eignast með skipunum. Til sölu er ennfremur stöð KÁRA-félagsins í Viðey, með bryggjum og öllum áhöldum, eins og bankinn hefir eignast stöðina úr þrotabúi Fiskveiðahlutafélagsins KÁRI. Tilboð í eignir þessar allar sameiginlega eða í hvert skip og stöðina fyrir sig, sendist Útvegsbanka íslands h.f" Reykjavík, fyrir 15. desember næstkomandi. - Reykjavík, 2. desember 1931.   Útvegsbanki Íslands hf.

Vísir 3 desember 1931.

       Togarinn "Leiknir" sökk á Halamiðum
                 Vörpuhleri orsakar skipstapa

Togarinn "Leiknir" frá Patreksfirði sökk í fyrrinótt á Halamiðum. Skipverjar allir björguðust í bátana og síðan um borð í togarann "Gylfa", sem fór með skipshöfnina til Patreksfjarðar, eftir að Leiknir var sokkinn. Leiknir var að karfaveiðum á Halamiðum og í fyrrakvöld kom allt í einu óstöðvandi leki að skipinu, dælurnar höfðu ekki við, og er svo mikill sjór var kominn í skipið, að hætta gat verið á ketilsprengingu, neyddust skipverjar til að yfirgefa skipið. Misstu þeir allt sitt dót, nema það, sem þeir stóðu í. Dagbók 1. vjelstjóra, sem var á verði í vjelarúmi, gefur einna glegsta hugmynd um, með hverjum hætti slysið vildi til. Þar segir svo: "Klukkan 6,10 e. h. kom jeg á vakt og var þá allt í venjulegum gangi. Klukkan 10 er híft upp á hálfri ferð og stoppi. Kl. 10,15 er vjelin stöðvuð og skellur þá afturhlerinn stjórnborðsmegin með óvenju miklu höggi, svo að öryggi fjell úr rafmagnsborðinu, sem var á þilinu, og ljet jeg það í aftur. Kl. 10,25 tek jeg eftir því, að óvenju mikill sjór er í vjelrúmsbotninum. Þar eð hann var tómur þegar verið var að hífa, setti jeg því lensidælurnar í gang og tilkynti lekann. Því næst lýsir vélstjórinn í dagbókinni ýmsum varúðarráðstöfunum, sem hann gerði, en alt kom fyrir ekki, sjórinn jókst jafnt og þjett. Kl. 10,45 kom skipstjóri niður í vjelarrúm og tilkynti vjelstjórinn honum þá, að hann hefði ekki við að dæla. Var sjórinn þá kominn upp í sveifar og flaut yfir ketilrúmsgólfið. Klukkan 11 var sjór farinn að renna inn í miðeldhólfið og þá gaf skipstjórinn skipun um að yfirgefa skipið. Skömmu síðar komu togararnir Gylfi og Egill Skallagrímsson á vettvang og fóru skipverjar um borð í Gylfa. Var síðan komið vírum frá Gylfa um borð í Leikni og helt Gylfi af stað með hann í eftirdragi áleiðis til lands. Leiknir fyltist æ meir af sjó og rúmlega 3 klukkutímum eftir að Gylfi hafði tekið hann í eftirdrag, sökk skipið, og var þá höggvið.á vírana milli skipanna. Skipið sökk austanvert við Nesdýpi á 56 faðma dýpi, um 25 mílur NV af Sauðanesi. Gylfi kom til Patreksfjarðar kl. 10 í gærmorgun með skipshöfnina, og leið öllum vel. Sjópróf byrjuðu kl. 4 í gær. ,,Leiknir" var 321 smálest brúttó að stærð. Byggður í Selby á Englandi árið 1920, og þá keyptur hingað til lands af hlutafjelaginu "Ari fróði". Þá hjet skipið "Ari". 1928 keypti Kárafjelagið í Viðey "Ara" og árið 1932 núverandi eigendur þess, Ó. Jóhannesson á Patreksfirði, sem þá breyttu um nafn á skipinu og nefndu það "Leikni".

 Morgunblaðið 3. Október 1936.

Flettingar í dag: 284
Gestir í dag: 39
Flettingar í gær: 2446
Gestir í gær: 98
Samtals flettingar: 1074662
Samtals gestir: 77514
Tölur uppfærðar: 26.12.2024 20:48:46