05.10.2017 16:29
Kristján EA 390. TFDI.
Allt
hjálpaðist að, Kafbátur, flugvél, ísing og leki
Guðmundur
Jörundsson útgerðarmaður rifjar upp hættuför á stríðsárunum
Ég hélt því á fund hafnsögumanns og spurði hann ráða og hvort hann teldi ekki fært út úr hafnarmynninu og ennfremur hvort hann mundi leyfa mér að fara án hafnsögumanns. Okkur samdi ágætlega og varð það að ráði að ég freistaði þess að fara úr höfn. Veðurofsinn var enn svipaður og áður, enda var Ægir gamli óspar á hnúta og hnykla, sem hann lét yfir skip mitt ganga. Fátt bar nú til tíðinda næstu tvo sólarhringa. Veðrið hélst svipað, en sjólag batnaði eftir því sem við fjarlægðumst landgrunnskantinn. Um nóttina 30. marz vakti 1. vélstjóri mig og segir lensidælu skipsins ekki hafa undan miklum leka, sem kominn sé að skipinu. Lét ég strax hægja á aðalvélinni og halda skipinu í andófi. Þá reyndum við stýrimaðurinn og ég að komast framí þar sem okkur grunaði að lekinn kynni að vera með "klussi" á bakborða, sem "patentakkeri" var í. Þegar niður í lúkarinn kom, heyrðist hviss í hvert sinn þegar skipið hjó í báru. Það fyrsta sem gera þurfti var að ná akkerinu úr "klussinu" og það tókst með því að snúa skipinu undan veðrinu. Greinilegt var að timburbyrðingur skipsins var fúinn kringum "klussið". Röktum við þá sundur kaðla til þess að fá hamp, börðum við hann niður með "klussinu", skárum síðan sundur lóðabelgi og negldum þá yfir kampinn. Lekinn virtist næstum búinn. Var því sett á fulla ferð og allt virtist í lagi. Næsta sólarhring var vindur orðinn suðlægur u.þ.b. 7 vindstig. Ganghraði skipsins var nú í kringum 5-6 hnútar. Hvað um það, við nudduðum þó í rétta átt. Kl. 1 næstu nótt kom mikill leki að skipinu. Ég lét minnka ferðina og skiptum við með okkur vöktum á handdælunum og þannig gekk fram í birtingu, en þá batt ég um mig línu og krafsaði mig fram með öldustokknum þar til ég kom fram að lúkarskappanum. Sá ég þá að kappinn hoppaði upp og niður hvert sinn sem skipið hjó í báru. Nú kom sér vel að er ég lagði af stað frá Akureyri í ársbyrjun hafði ég látið smíða eikarslagbranda og járnteina, sem þvinguðu kappann niður í sitt sæti. Ennþá varð að snúa skipinu undan veðrinu á meðan við reyndum að þétta lekann á kappanum.
Kristján EA 390 á sildveiðum. Myndin er tekin frá togaranum Garðari GK 25 frá Hafnarfirði af Guðbjarti Ásgeirssyni.
Við mökuðum koppafeiti á milli bita og kappa og þrælhertum svo slagbrandana.
Þetta tókst og lekinn varð sáralítill. Til gamans vil ég geta þess, að nótt
eina, áður en ég fór af stað frá Akureyri, dreymdi mig kappaskömmina.
Draumurinn var nú ekki merkilegri en svo að mig dreymdi að kappinn var
nýtjargaður, en skipið sjálft allt hvítmálað. Það var auðvelt að ráða þennan
drauminn, enda var það mitt fyrsta verk morguninn eftir að láta smíða umrædda
slagbranda með sínum búnaði. Mér hetur síðan sýnst að sú smíði hafi orðið okkur
til lífs. Veður fór nú batnandi og allt lék í lyndi. Á fjórða sólarhring eftir
að við kvöddum Vestmannaeyjar komum við í írska kanalinn. Komin var himinblíða
og hvergi sást skýhnoðri á lofti. Allt í einu heyrðist feiknarlegur hávaði. Sá
ég þá að flugvél hafði rennt sér fram með skipinu í 50 til 60 metra fjarlægð.
Tók vélin stóran sveig og kom nú öskrandi og stefndi að skipinu. Kallaði ég til
karla minna að flýta sér í skjól. Áður en ég beygði mig niður, sá ég glöggt
andlit þeirra manna, sem við stjórn flugvélarinnar voru ásamt manni, sem sat
við byssu, og sá ég greinilega nasistamerki á hlið flugvélarinnar. Í næstu
atrennu spann vélin sig hátt yfir skipið. Þá sagði kokkurinn, sem var norskur,
"Guðmundur, nú skulu helvítin henda sprengin". Nei, það létu þeir vera, en
komu ellefu ferðir að skipinu án þess þó að gera okkur nokkurt mein.
Við þessa reynslu opnaðist mér furðuheimur, sem mér var áður ókunnur, en það
var þegar vélin í eitt skiptið kom mjög nærri skipinu og skyttan miðaði á okkur
byssunni. Þá hefði ég í sjálfsvörn ekki fundið fyrir því að skjóta manninn. Já,
þannig eru eflaust áhrif styrjaldanna. Veður var nú hið bezta það sem eftir var
leiðarinnar. Þegar til Fleetwood kom gerði ég þau mistök að segja tollvörðunum
frá heimsókn vélarinnar. Það hafði það í för með sér að ég var kallaður til
yfirheyrslu hjá hernaðaryfirvöldum staðarins. Ætlaði þeim aldrei að Ijúka og
eyðilagði þann stutta tíma sem ég ætlaði að hafa til verzlunar fyrir fjölskyldu
mína. Um kvöldið komu hermenn með vélbyssu og skotfærakassa um borð og sögðu
mér að skjóta hverja þá flugvél sem kæmi inn fyrir 500 yarda frá skipinu. Svo
mörg voru þau orð. En við íslendingar hlógum. Að lokinni löndun á fiskinum, sem
seldist fyrir mjög gott verð, var framkvæmd bráðabirgðaviðgerð á skipinu, sem reyndist
ágætlega. Næsta dag var ráðgert að fara til Runcorn, sem er lítill bær skammt
frá Liverpool og sækja þangað saltfarm. Á flóðinu þann dag átti hafsögumaðurinn
að koma og fara með okkur til Runcorn. Þegar fara átti af stað, neitaði
hafsögumaðurinn að fara, þar sem hann kvaðst hafa frétt af ferðum kafbáta inni
í kanalnum.
Guðmundur Jörundsson útgerðarmaður á yngri árum.
Þá var ekki um annað að ræða, en að treysta á sjálfan sig og við
lögðum af stað. Enginn radar var þá kominn til sögunnar og enginn dýptarmælir
var í skipinu, þar snerist því allt um kompásinn og handlóðið. Hafnsögumaðurinn
í Fleetwood hafði gefið okkur upp stað, þar sem vitaskip átti að vera staðsett.
Ennþá var sótþoka og skyggnið aðeins fáir metrar. Allt í einu kom gamall
brezkur togari út úr þokunni. Ég bað skipstjórann að gefa mér staðarákvörðun.
Hann skellihló og sagði: "Hefurðu hugmynd um hvar þú ert staddur?" Nei,
ekki nægilega vel. Þá sagði hann " Við erum á miðju tundurduflabeltinu."
Síðan gaf hann mér stefnu og fjarlægð til vitaskipsins, sem var þar skammt frá.
Já nú var gott að vera á grunnristu skipi. Nú komum við að færeyska skipinu
"Tvej syskin", sem var þá á sömu leið og við að sækja saltfarm. Ég renndi
upp að hlið skútunnar og sagði skipstjóranum hvernig málin stæðu, en nú skyldum
við flýta okkur áður en fjaraði út. "Já, já du skal bara fara fyrst ég kemur á
oftir, gamli!" Þetta gekk allt að óskum og við komumst báðir á leiðarenda
óskaddaðir. Þegar við á m/s Kristjáni voru komnir í skipastigann, sem er neðan
við Runcorn, og biðum þess að hólfið í stiganum fylltist, heyrum við að bölvað
er á íslenzku upp á bryggjukantinum. Þar situr þá á að gizka 10 ára gamall
strákur, sem segir í sífellu: "Helvíti, helvíti, Sláturfélag Suðurlands."
Þegar upp var komið spurði ég drenginn, hver hefði kennt honum þetta. Hann
svarar: "Strákur Fossinn." Sýndi hann mér þá strigapoka, sem á stóð
Sláturfélag Suðurlands. Þegar upp var komið úr skipastiganum, komu í Ijós nýir
erfiðleikar; það er að segja, skipið hafði ekki fengið neinn toll og þar af
leiðandi var engin flaska til handa hafnarverðinum. "Hverslags skip er þetta
eiginlega?" spyr aumingja maðurinn og stígur á land af bátapallinum.
Ég sá
að nú dugðu ekkert nema liðlegheit, svo ég hljóp á eftir manninum og lofa honum
því, að hann skuli fá tvær flöskur af viskí, þegar ég komi næst að sækja salt.
Þar með horfði málið allt öðru vísi við fyrir blessaðan manninn og ég fékk
stimpilinn á ferðakortið upp til Runcorn. Allt gekk nú að óskum og við héldum
út á Atlantshafið í góðu veðri fyrstu tvo dagana. Á þriðja sólarhring frá því
við yfirgáfum vitaskipið, fór veðrið að versna og norð- austan illviðri tók við
beint í nefið hjá okkkur. Um hádegisbilið kom ég upp í brú frá því að matast og
leit út um bakborðsglugga. Kom þá heljar mikill skrokkur upp úr sjónum og
göslaði áfram á móti brælunni. Skellt var upp hlera á turni kafbátsins og tveir
hausar með kíki gláptu á okkur. Ekkert gerðist, kafbáturinn hvarf. Sennilega
hefur þeim þótt skotmarkið lítilfjörlegt. Áfram hélt norðaustanáttin með
tilheyrandi frosti. Ganghraði skipsins var afar lítill svo hægt miðaði okkur að
Íslandsströndum. Mest angraði okkur sambandsleysið við land. Þóttumst við vita
að nú væri fólkinu okkar farið að líða illa, þar sem ekkert hafði fréttst frá okkur
á níunda sólarhring. Annað kom nú í Ijós, sem áhyggjum olli, en það var að
brennsluolían var nú að ganga mjög til þurrðar.Ég sendi þá eftir 1. vélstjóra
og ræddum við vandann.
Kristján EA 390 á Eyjafirði. Ljósmyndari óþekktur.
Okkur kom saman um að minnka álag aðalvélarinnar niður í
2/3 og með því móti spara olíuna allverulega. Nú bættist við áhyggjur okkar
vaxandi ísing á skipinu, en við það að minnka ferðina, þá dró að sjálfsögðu úr
sjólöðri yfir skipið, sem fljótt var að mynda íshellu. Nú var reynt að lóða en
enginn botn fannst. Já, nú var hann fyrst dökkur í álinn. Hvað átti til bragðs
að taka? Ég fór einn inn í "bestikkið" og gerði enn á ný upp reikninginn
við sjókortið og sjálfan mig. Klukkan var nú 11.45. Skyndilega rofar til í hríðinni
og ég sé til sólar stuttan tíma. Ég hleyp inn í klefann minn og næ í gamlan sextant
sem ég átti þar og næ að mæla breidd í hádegi, örugglega að mér virðist. Á meðan
ég er að útfæra reikninginn og heimfæra hann við kortið, þá skellur
hriðarþykknið saman. Þvílík guðssending var þessi sólargeisli, þótt stuttur
væri. Ég hringi á fulla ferð og geri mér grein fyrir að ég verð að ná Langanesi
áður en myrkrið skellur yfir. Klukkan 5 í eftirmiðdag sáum við rofa í blessuð
fjöllin á austurströnd Íslands, það var gleðistund, en djúpt var orðið á
þilfarinu vegna mikillar ísingar og ekki gott að segja hver myndi verða
sigurvegarinn, ef svo færi sem horfði. Áfram var nuddað á hálfri ferð fyrst og
fremst til að spara olíuna og jafnframt að forðast ísinguna, sem orðin var
illilega mikil. Klukkan 22.00 um kvöldið sást móta fyrir Fontinum og
sjógangurinn minnkaði. Þegar komið var upp á grunnt vatn við Fontinn, var akkerið
sett í botninn og það var sælustund eftir allt andstreymið og vökurnar síðustu
sólarhringana. Morguninn eftir léttum við akkeri og héldu inn að Skálum og
lögðumst þar.
Nú sáum við nokkra karla í vörinni á Skálum, sem voru að glíma
við að hrinda bát á flot sjáanlega til þess að hafa samband við okkur, en
stöðugt hættu þeir við sjógangsins vegna. Ég ákvað þá að við reyndum að setja
Iífbátinn okkar á flot og reyna að freista þess að koma boðum í land. Öll
loftnet og vírar voru niðurslitin og því ekki mögulegt að koma neinum boðum frá
sér. Á skipinu var 7 manna áhöfn og ráðgerði ég að fara við fimmta mann í
bátinn en tveir yrðu eftir í skipinu. Til allrar lukku hugkvæmdist okkur að
hafa meðferðis langa línu, ef illa færi. Við börðumst um á árunum til að komast
í námunda við fjöruna, en allt kom fyrir ekki, við réðum ekki við ofureflið og
þóttumst góðir að geta dregið okkur á línunni að skipinu og drógum síðan bátinn
upp í sínum bátsuglum. Hvað sagði nú um veðurútlitið. Ennþá var strekkingur með
hríðaréljum og miklum hafsjó. Ég sá þó um eftirmiðdaginn að vindur var að
snúast til norðanáttar, en ef við slyppum ekki fyrir Fontinn áður en norðan eða
norðaustanáttin kæmi, þá værum við eins og lömb króaðir inn, en við vorum hér
fyrir hafnlausri strönd. Ég kallaði nú saman áhöfnina og sagði þeim af
fyrirhugan minni. Allir voru þeir því samþykkir að við tækjum þá áhættu að
leggja í röstina í stórsjó á þrauthlöðnu skipi.Þá var létt akkeri og haldið út
með Langanesi. Þegar komið var út með Fontinum sást best hið hrikalega sjólag.
Mikill straumur var sem ýfði öldurnar illilega. Þessi barátta stóð yfir í hálfa
klst. Allt í einu vorum við komnir í vestur kantinn á röstinni og vindinn tók
að hægja. Vegna olíuleysisins var nú sett á mjög hæga ferð og hífðar upp þrjár
þríhyrnur og fékk skipið all góða ferð, því nú var vindurinn kominn að norðan.
En ósköp var notalegt að vita sig vera kominn yfir Langanesröst. Þegar komið
var vestur undir Melrakkasléttu, sáum við, að með sömu olíunotkun og með hjálp
seglanna, þá myndum við komast til Hríseyjar af sjálfsdáðum. Um kvöldið kl.
21.00 tókum við konurnar okkar í Hrísey með okkur til Akureyrar. Já, þær áttu
það svo sannarlega skilið eftir allt andstreymið og óttann, eftir að hafa
ekkert frétt af okkur í 10 sólarhringa. Að lokum vil ég nota tækifærið til að
þakka þeim mönnum, sem með mér voru fyrir frábæran dugnað og atorku, er þeir
sýndu, þegar verst gegndi. Ég gleymi aldrei slíkum mönnum og vona að íslenzka
sjómannastéttin eigi jafnan fjölda slíkra manna á að skipa.
Lesbók Morgunblaðsins. 21 mars 1981.