06.10.2017 21:44
Þilskipin Fönix og Róbert á Eyjafirði.
Skipsströnd
og mannskaðar
3 seglskip
og 2 vjelbátar stranda
Menn töldu það ekki ólíklegt, að norðangarðurinn, er skall á
fyrir helgina síðustu, mundi einhversstaðar gera usla á skipum eða mönnum. Bæði
var það, að veðrið skall á mjög fljótt, og eins hitt, að því fylgdi frost og
stórhríð, og var hið harðasta. Nú hefir það frjest, að uggur manna um þetta
hefir ekki verið ástæðulaus.
Þrjú seglskip og tveir vjelbátar hafa rekið á land, og einn maður drukknað. Er
þó ekki frjett alstaðar að enn. Á Hornvík strönduðu tvö skip af Norðurlandi,
"Róbert" af Akureyri, eign Ásgeirs Pjetursonar, og brotnaði í spón. En
hitt af Siglufirði, "Kristjana", eign Sameinuðu verslananna og rak hana
upp á sanda, svo hún er talin lítt skemmd. Af "Róbert" drukknaði einn
maður, Sigtryggur Sigtryggsson frá Ytri-Haga á Árskógsströnd. Þá rak ennfremur
upp tvo vjelbáta á Hornvík, "Björninn", eign Sigfúsar Daníelssonar og
fleiri, og "Farsæl", var hann frá Súðavík, Brotnuðu þeir báðir í spón. Á Haganesvík
í Fljótum, rak á land
seglskipið "Flink",
eign Höepfnersverslunar á Akureyri. Er ófrjett enn, hvort hann hefir brotnað
eða ekki. En miklar líkur eru til þess, því landtaka er víðast ill í
Haganesvík. Öll þessi skipströnd munu hafa orðið á föstudagssólarhringnum, því
þá var veðrið mest og stórhríðin dimmust þar norður.
Á þessum sama tíma og veðrið skall á, var póstbáturinn, sem gengur um
Ísafjarðardjúp, á leið frá Akureyri til Ísafjarðar með beitusíld. Skall
garðurinn á hann í miðjum Húnaflóa og var ekkert viðlit að leita lands fyrir
stórhríðardimmu. Var bátnum því nauðugur einn kostur að forðast land og leitaði
hann því til hafs svo sem unt var. Kenndi hann ekki lands í þrjá sólarhringa.
En á sunnudagsmorguninn var hann kominn
upp undir Látrabjarg. Og hafði misst bátinn, eldhús, sem var ofan þilfars, og
brotnað eitthvað meira. Þykja það undur, að baturinn skyldi slanka fyrir Horn
og alla Vestfirði alla leið suður að Bjargi, og telja menn það þrekvirki.
Þrjá báta vantaði, alla úr Eyjafirði, einn frá Dalvík og tvo frá Höfða. En þeir
komu allir í leitirnar í gærmorgun. Höfðu þeir legið við Grímsey yfir alla
stórhríðardagana og ekkert um þá haggað.
Morgunblaðið. 9 maí 1923.
Fönix sekkur
Mótorskipið »Fönix, eign Ásgeirs Péturssonar, sökk úti fyrir
Siglunesi á Sunnudaginn var. Var það á leið til Siglufjarðar, drekkhlaðið með
salt og tunnur. Menn björguðust nauðuglega í skipsbátinn. Skip og farmur var
óvátrygt.
Verkamaðurinn. 7
ágúst 1923.