12.10.2017 12:58
Sjöstjarnan EA 365. LBGM / TFQJ.
Eyjabátur
stórskemmdist í eldsvoða í gærmorgun
Eldur kom upp í vélbátnum Sjöstjörnunni VE 92, um 9 leytið í
gærmorgun, þar sem hann var að veiðum við Súlnasker. Báturinn, sem er 55
smálestir að stærð, hafði lagt línu sína suður við Súlnasker og voru skipverjar
búnir að taka inn 10-20 bjóð af línunni, þegar þeir urðu varir við, að eldur
var kominn í vélarhúsið, svo mikill, að þeir fengu ekki við neitt ráðið.
Skipverjar tóku það ráð, að byrgja eldinn eins og hægt var, en hann var svo
magnaður, að þeir þorðu ekki annað en yfirgefa bátinn og fara í gúmbjörgunarbát.
Sigurfari VE 138, kom fljótlega á staðinn og tók mennina um borð. Þrír aðrir
línubátar hjuggu af sér og héldu á staðinn svo og Drangajökull, sem var skammt
frá Eyjum. Gert var viðvart um eldinn í gegn um talstöð til lands.
Hafnsögubáturinn Lóðsinn hélt þegar út og var kominn á staðinn kl rúmlega 11 f.
h. Ekki var talið fært að reyna að slökkva eldinn þarna, því slæmt var í sjó og
erfiðar aðstæður. Óttuðust menn, að sprenging kynni að verða í olíutönkum eða
loftkút, sem var í vélarrúminu. Sjöstjarnan var dregin til Eyja og var ráðizt
til uppgöngu þegar báturinn kom inn á Víkina og þar var eldurinn slökktur eftir
nokkra viðureign. Báturinn er mjög mikið skemmdur. Öll siglingatæki eru ónýt,
mikið brunnið í káetu, vélarrúmi og stýrishúsi. Miklar viðgerðir þurfa að fara
fram og óvíst að það geti orðið hér i Eyjum.
Sjöstjarnan var keypt hingað frá Akureyri fyrir stríð, en hún var byggð 1916 og
umbyggð 1951. Eigandi er dánarbú Tómasar M. Guðjónssonar. Fjögurra manna áhöfn
var á bátnum, formaður var Sveinn Valdimarsson.
Morgunblaðið. 23 október 1962.