16.10.2017 11:52

Brúni SI 7.

Brúni SI 7 var smíðaður á Akureyri árið 1896 sem seglskip. Hét fyrst Brúni EA 18. Eik og fura. 13,33 brl. Eigandi var Kristinn Havsteen á Akureyri frá (1903 ?) Ásgeir Pétursson útgerðarmaður á Akureyri mun hafa eignast bátinn árið 1915-16. Hann lét stækka hann, mældist þá 26 brl. Einnig var sett í hann vél, 25 ha. Skandia vél. Frá 22 nóvember 1932 var Edvard Sólnes á Akureyri eigandi bátsins. Seldur 8 febrúar 1933, Sigurði Kristjánssyni og fl. á Siglufirði, hét Brúni SI 7. Ný vél (1935) 55 ha. Völund vél. Brúni var sigldur niður af Dronning Alexandrine 16 september árið 1936 um 3 sjómílur út af Siglunesi. Tveir menn fórust en þrír menn björguðust um borð í árekstrarskipið. Togarinn Garðar GK 25 var þá með Brúna sem var með bilað stýri, í togi og einnig með vélbátinn Einar EA 426 frá Akureyri. Einar sökk svo skömmu síðar. Fárviðri mikið gekk þá yfir landið, þá sínu verst á Vestur og Norðurlandi með miklu tjóni. Í þessu veðri fórst einnig franska rannsóknarskipið Pourqoui pas ?, en það er önnur saga.

Brúni SI 7 á reki í stórsjó með bilað stýri.                                                (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

Brúni EA 18 eftir breytingar og orðinn vélskip.                                             Ljósmyndari óþekktur.

Brúni EA 18 eins og hann leit út upphaflega sem seglskip.                       Ljósmyndari óþekktur.


Dronning Alexanderine í Reykjavíkurhöfn árið 1932. Drottningin var smíðuð hjá Helsingör & Jernskib Maskinfabrikk A/S í Helsingör í Danmörku árið 1927. 1.854 brl.          Ljósmyndari óþekktur.

  Vélbáturinn Brúni SI 7 sigldur niður

                Tveir menn drukkna

Um sexleytið í gær drukknuðu tveir menn af vjelbátnum Brúna. Mennirnir voru Eðvarð Solnæs vjelstjóri (kvæntur, barnlaus) og Ingvar Sigurðsson frá Dalvík ( ókvæntur ). Togarinn Garðar var með Brúna, sem var með bilað stýri og vjelbátinn Einar í eftirdragi. Hafði komið leki að Einari og maraði hann í kafi. Skipshöfnin var um borð í Garðari, en 7 manna skipshöfn var kyrr í Brúna. Um 3 sjómílur fyrir utan Siglunes hitti Garðar Dr. Alexandrine, sem var á leið frá Akureyri til Siglufjarðar. Ætlaði "Drotningin" að hjálpa Garðari að koma Einari, sem óttast var um að sökkva myndi þá og þegar, til Siglufjarðar. En svo slysalega vildi til að Drotningin rakst á Brúna og sökk hann samstundis. Fimm mönnum af áhöfninni tókst að bjarga um borð í Drotninguna en tveir drukknuðu. Drotningin og Garðar komu til Siglufjarðar um 9 leytið í gærkvöldi. Var vjelbáturinn Einar þá sokkinn.

Morgunblaðið. 17 september 1936.



Flettingar í dag: 454
Gestir í dag: 62
Flettingar í gær: 437
Gestir í gær: 35
Samtals flettingar: 1018560
Samtals gestir: 73261
Tölur uppfærðar: 18.10.2024 08:30:13