18.10.2017 20:01

1615. Einar Benediktsson BA 377. TFAM.

Togskipið Einar Benediktsson BA 377 var smíðaður hjá Fairmile Construction Co Ltd í Berwick on-River-Tweed á Englandi árið 1972. 295 brl. 1.095 ha. Ruston Paxman díesel vél. Smíðanúmer 670. Hét fyrst Boston Sea Spirite LT 247 og var í eigu Boston Sea Fisheries Co Ltd í Lowestoft á Englandi. Skipið var selt 26 júlí 1982, Fjarðarskip h/f á Tálknafirði, fékk nafnið Einar Benediktsson BA 377. Selt 22 september 1983, Fjarðarskipum í Reykjavík, hét Keilir RE 37. Ný vél (1984) 980 ha. Mirrlees Blackstone díesel vél, 721 Kw. Árið 1988 fær skipið sitt fyrra nafn, en skráningarnúmerið var RE 37. Selt 27 júlí 1988, Íslensku umboðssölunni h/f í Reykjavík, hét þá aftur Keilir RE 37. Selt 31 maí 1991, Útgerðarfélaginu Barðanum h/f í Kópavogi, hét Snarfari HF 186. Selt 4 júní 1992, Skagstrendingi h/f á Skagaströnd, sama nafn og númer. Skipið var selt til Írlands 9 júní árið 1992. Hét þar Alimar D 6 og var gert út frá Dublin. Selt í brotajárn til Danmerkur árið 2005 og rifið í Esbjerg sama ár.


1615. Einar Benediktsson BA 377 við bryggju á Ísafirði árið 1983. Það er ekki hægt að segja annað en að útlitið á skipinu sé dapurlegt og það virðist vera illa hirt.                     (C) Hörður Kristjánsson.

           Nýr skuttogari á leiðinni

Nú er á leiðinni til landsins enn einn nýr skuttogari, og nefnist hann Einar Benediktsson BA 377. Eigandi er Fjarðarskip hf. á Tálknafirði og kemur þessi togari í stað bátsins Fálka frá Tálknafirði, sem sökk úti af Látrabjargi í fyrrahaust. Einar Benediktsson er 37 metra langt skip og var áður í eigu útgerðarfyrirtækisins Boston Deep Sea Limited og var togarinn gerður út frá Lowestoft á austurströnd Englands. Í togaranum er 1200 hestafla vél. Þar sem Einar Benediktsson er undir 39 metrum að lengd, telst skipið til báta og fær því að veiða nær landi en togarar yfir 39 metrum að lengd og sama gildir raunar um hinn nýja togara Sjóla, sem kom til Hafnarfjarðar á fimmtudaginn. Eins og fyrr segir, þá er eigandi Einars Benediktssonar Fjarðarskip hf. á Tálknafirði, en að því fyrirtæki standa aðilar á Tálknafirði og tvö fyrirtæki í Reykjavík og Hafnarfirði. Eru Tálknfirðingarnir skuldbundnir til að leggja aflann upp í Hafnarfirði næstu þrjú árin. Skipstjóri á Einari Benediktssyni er Níels Ársælsson og er hann jafnframt einn eigenda togarans.

Morgunblaðið. 21 mars 1982.



1615. Einar Benediktsson BA 377 við bryggju á Ísafirði.                              (C) Hörður Kristjánsson.

        Einar Benediktsson tekinn í                    landhelgi undan Vík


Togskipið Einar Benediktsson BA 377 var staðið að meintum ólöglegum veiðum rúmlega fjórar mílur undan Vík í Mýrdal í gærmorgun. TF-SYN kom að skipinu um klukkan 11 í gærmorgun og voru skipstjóra skipsins send fyrirmæli um að hætta þegar veiðum og halda til Vestmannaeyja. Þar verður málíð tekið fyrir í dag. Einar Benediktsson var keyptur hingað til lands á síðasta ári og er skipið tæplega 36 metrar á lengd. Á þeirri forsendu að skipið er innan við 39 metrar að lengd telja skipstjórnarmenn og eigendur að ekki beri að líta á skipið sem skuttogara. Því megi þeir stunda veiðar upp að fjórum mílum. Vélarstærð segja þeir hinir sömu 910 hestöfl, en samkvæmt skipaskrá er vél skipsins 1095 hestöfl. Skip með svo sterka vél má ekki veiða fyrir innan 12 mílurnar.  
Morgunblaðið. 9 mars 1983.       .


"Togarinn" Boston Sea Spirite LT 247 frá Lowestoft á Englandi.                     Ljósmyndari óþekktur.

Einar Benediktsson færður til hafnar

     haffærniskírteini skipsins útrunnið,
            segir Siglingamálastofnun 
Ofsóknir, segir Níels Ársælsson, skipstjóri

Landhelgisgæzlan fór um borð í fiskiskipið Einar Benediktsson BA 377 í gær, þar sem það var að veiðum á Barðagrunni að beiðni Siglingamálastofnunar, handtók skipstjórann og var skipinu síðan siglt áleiðis til hafnar í Hafnarfirði undir stjórn Gæzlunnar. Forsaga málsins er sú, að haffærniskírteini skipsins rann út um síðustu mánaðamót, en skipið hélt þó til veiða. Skipið kom síðan til hafnar á Tálknafirði á þriðjudag sl. og var það þá kyrrsett af sýslumanni að ósk Siglingamálastofnunar. Skipstjóri virti það ekki og hélt á ný til veiða. Skipstjórinn á Einari Benediktssyni, Niels Ársælsson, sagði í samtali við Morgunblaðið, að hann teldi þetta ofsóknir af hálfu Siglingamálastofnunar og að hún hefði auk þess gefið undanþágu til 15. þessa mánaðar. Dæmt verður í málinu í Hafnarfirði, en heimahöfn skipsins, sem gert er þaðan út, er Tálknafjörður. "Mér er kunnugt um það að skeyti kom að sunnan þess efnis að skipið mætti ekki halda úr höfn, en mér var ekki sýnt neitt svoleiðis. Siglingamálastofnun hafði einnig gefið undanþágu til 15. þessa mánaðar þó haffærniskírteini hefði ekki verið endurnýjað. Þangað til voru tveir dagar og sá ég því ekkert til fyrirstöðu, að halda áfram veiðum. Mér fannst ekki ástæða til að stoppa fyrir tvo daga þegar önnur skip komast upp með það að vera skírteinislaus í marga mánuði.
Þetta eru bara ofsóknir af hálfu Siglingamálastofnunar og hefndaraðgerðir. Það er aðeins eitt að, það vantar sjódælu í vélarrúm. Sú dæla hefur verið keypt og átti að setja hana í skipið eftir tvo daga. Ég get heldur ekki séð að þessi dæla skipti miklu máli. Skipið hefur verið á sjó í 10 ár án hennar, án þess að það hafi nokkru máli skipt," sagði Níels Ársælsson, skipstjóri á Einari Benediktssyni. "31. síðastliðins mánaðar rann haffærniskirteini skipsins út. Vegna þess fórum við þess á leit við Landhelgisgæzluna, að skipinu yrði vísað til hafnar. Þá fórum við fram á það við sýslumanninn á Patreksfirði, að hann kyrrsetti skipið á Tálknafirði á þriðjudag og þar yrðu haldin sjópróf í málinu. Þrátt fyrir að sýslumaður gerði svo lét skipið Einar Benediktsson úr höfn. Það var því ekki um annað að ræða, en færa skipið til hafnar eins og nú hefur verið gert," sagði Hjálmar R. Bárðarson, siglingamálastjóri, í samtali við Mbl. Aðspurður um það hvernig tryggingamálum skipa, sem ekki hefðu gilt haffærniskírteini væri háttað, sagði hann, að hann teldi það ekki hafa áhrif á tryggingu. "Það er fjarri því, að stofnunin sé að ofsækja þetta skip, þvert á móti. Skipið hefur hvað eftir annað fengið frest á að lagfæra ýmsa hluti og við höfum hliðrað til svo að það gæti haldið til veiða. Skipinu hafði verið veittur frestur til síðustu mánaðamóta af slíkri tilhliðrunarsemi. Hvað varðar hefndarráðstafanir er það út í hött. Við mælum aðeins vélarstærðir skipa, allra skipa, ekki aðeins þessa, og okkur kemur ekkert við hvort skipið telst togari eða ekki. Með þessum ráðstöfunum erum við aðeins að sinna lögum stofnunarinnar," sagði Hjálmar.

Morgunblaðið. 14 apríl 1983.


Alimar D-6 frá Dublin.                                                                                  Ljósmyndari óþekktur.

            Einar Ben fastur í ís 

Togskipið Einar Benediktsson BA 377 situr fastur í ís við miðlínuna milli Íslands og Grænlands vestur af Straumnesi. Hefur skipið verið fast í ísnum í tæpa tvo sólarhringa. Einar Benediktsson hafði verið að veiðum ásamt tveim öðrum skipum á þessum slóðum þegar ís tók að reka að þeim. Hin tvö tóku þegar upp veiðarfærin og héldu á brott en skipstjórinn á togaranum hugðist halda áfram veiðum í um klukkustund til viðbótar. Þegar sigla átti skipinu af svæðinu hafði rekið svo mikinn ís að því að það komst hvergi.
Áhöfnin gerði Landhelgisgæslunni viðvart um kl. 14 í gær og var TF-Sýn, gæsluvélin, send á staðinn til að aðstoða skipið. Að sögn Helga Hallvarðssonar, skipherra á Sýn, hafði tekið talsverðan ís að því og voru um 30 mílur í auðan sjó. Ísinn á svæðinu var frá 3/10-7/10 að þéttleika. Sagði Helgi að landhelgisgæslumenn hefðu komið auga á rennu í ísnum, sem hefði legið í vestur og síðan suður, um 38 sjómílna vegalengd. Hefði verið fyrirhugað að aðstoða skipið við að sigla í gegnum rennuna. Það hefði þó ekki reynst gerlegt þar sem straumurinn hefði verið svo mikill á þessum slóðum að ísinn hefði verið á stöðugri hreyfingu. Sagði Helgi ennfremur að skyggni hefði verið slæmt yfir staðnum í gær og hefði það torveldað björgunaraðgerðir. Veður hefði hins vegar verið kyrrt og skipinu væri því engin hætta búin. Fyrirhugað er að Landhelgisgæslan haldi út til að aðstoða skipið í dag. Einar Benediktsson er nú gerður út á djúprækju frá Ísafirði.

Dagblaðið Vísir. 31 maí 1983.

          Einar Ben laus úr ísnum

Togskipið Einar Benediktsson BA 377 losnaði úr ísnum á Dornbanka um ellefuleytið í gærkvöldi. Það hafði þá verið fast þar í rúmlega tvo sólarhringa. TF-Sýn, vél Landhelgisgæslunnar, hafði reynt að lóðsa skipið út úr ísnum í fyrradag en án árangurs, vegna mikillar hreyfingar á ísjökunum. Í gær, um tvöleytið, flugu Landhelgisgæslumenn aftur yfir staðinn. Átti skipið þá um 35 sjómílur í auðan sjó. Hófu Gæslumenn að leiðbeina skipinu út úr ógöngunum og sóttist ferðin hægt en örugglega. Um kl. 11 í gærkvöld sigldi Einar Benediktsson svo út úr ísnum, eins og áður sagði. Ekki var talið í morgun, að skipið hefði skemmst.

Dagblaðið Vísir. 1 júní 1983.


     .




Flettingar í dag: 965
Gestir í dag: 30
Flettingar í gær: 1155
Gestir í gær: 85
Samtals flettingar: 1194740
Samtals gestir: 83790
Tölur uppfærðar: 2.4.2025 08:53:57