21.10.2017 13:13
B. v. Jörundur EA 335. TFLG.
Togarinn Jörundur EA 335 var smíðaður hjá
Brooke Marine Ltd í Outlon Broad í Lowestoft í Englandi árið 1949 fyrir Guðmund Jörundsson
útgerðarmann á Akureyri. 491 brl. 950 ha. Mirrlees díesel vél. 46,63 x 8,58 x 3,81 m. Smíðanúmer 175. Skipið var selt
21 janúar 1958, Þórólfi mostraskeggi h/f í Stykkishólmi, hét Þorsteinn
þorskabítur SH 200. Ný vél, 950 ha. Deutz díesel vél var sett í skipið árið
1963. 29 maí 1963 var skráður eigandi Ríkissjóður Íslands, skipið hét Sigurey
EA 8. Var um þetta leyti í eigu Sigurðar Finnssonar á Siglufirði. Skipið var
selt í ágúst árið 1966, Grími h/f á Eskifirði, hét Jón Kjartansson SU 111. Skipið
sökk út af Vattarnesi í minni Reyðarfjarðar, 28 janúar 1973. Áhöfnin, 12 menn,
bjargaðist í gúmmíbjörgunarbát og þaðan um borð í Dagfara ÞH 70 frá Húsavík.
B.v. Jörundur EA 335 á siglingu á Eyjafirði. Ljósmyndari óþekktur.
Jörundi vel
fagnað við komuna til Akureyrar
Eitt
nýtízkulegasta fiskiskip, sem byggt hefur verið fyrir Íslendinga
Hinn nýi glæsilegi togari Guðmundar Jörundssonar
útgerðarmanns Iagðist hér að hafnarbryggjunni sl. fimmtudagsmorgun. Kom skipið
beina leið frá Lowestoft á Bretlandi, en þar var það smíðað í skipasmíðastöð
Brooke Marine Ltd. MikiII mannfjöldi safnaðist saman á bryggjunni til þess að
fagna skipinu. Hafði Útgerðarmannafélag Akureyrar efnt til móttökuathafnar. Jón
Sólnes bæjarfulltrúi mælti fyrir minni skipsins og Guðmundar Jörundssonar
útgerðarmanns, lofaði framtak hans og árnaði skipinu heilla. Lúðrasveit
Akureyrar lék undir stjórn Jakobs Tryggvasonar. Guðmundur Jörundsson þakkaðí
móttökurnar og lýsti skipinu, en að því búnu var bæjarmönnum boðið að skoða
skipið.
"Jörundur" er 491 smálestir brúttó að burðarmagni, enskt mál, 152 fet á
lengd, 28 fet á breidd og 15 fet á dýpt.Gert hafði verið ráð fyrir því að setja Westinghouse radartæki í skipið, en af
því gat ekki orðið, því að íslenzk gjaldeyrisyfirvöld neituðu um leyfi til
kaupa á tækjunum. Skipstjórinn á "Jörundi" er Ragnar Guðmundsson úr
Reykjavík, 1. stýrimaður Páll Daníelsson, 1. vélstjóri Hámundur Eldjárn og 2.
vélstjóri Jörundur Jónsson.
Dagur. 4 ágúst 1949.
Fyrirkomulagsteikning af togaranum Jörundi EA 335. Úr safni mínu.
B.v.
Jörundur EA 335
Dieseltogarinn Jörundur, sem í byggingu er í Skipasmíðastöð
Brook Marine, Ltd. í Lowestoft, er athyglisverður fyrir margra hluta sakir.
Aluminiumblanda (Noral 515 og Noral 655) er notuð í klæðningu og skiljur í
fiskilestum, sem einnig eru kældar. Í skipinu er lýsisbræðsla, sem á að geta
afkastað ca. 20 smálestum af lýsi í túr. Einnig er í skipinu stærsta togvinda,
sem enn hefur verið sett í skip. Jörundur er stærsta skip, sem byggt hefur
verið í Lowestoft. Eigandi er Guðmundur Jörundsson. Aðalmál skipsins eru:
Mesta lengd 167 fet, kjöllengd 150 fet, breidd 28 fet, stærð 470 tons (gross
reg.). Stærð lestar 12.000 rúmfet, vélaafl 950 b.h.p., ganghraði 12 sjómílur.
Mirrlees dieselvél 950 b.h.p. er í skipinu, drífur hún skrúfuna gegnum 2-11
niðurfærslu- "gear". Meðal snúningshraði skrúfu í fullri keyrslu er 147
snúningar á mínútu Hjálparmótorar eru þrír: 225 b.h.p. mótor, tengdur við
Vickers V. S. G. vökvadælu fyrir togvinduna. Þessi mótor drífur einnig 50 kw.
110 volta rafal. 88 b.h.p. mótor, sem drífur 50 kw. rafal. 44 b.h.p.
hjálparmótor, tengdur við loftþjöppu, dælu og 5 kw. rafal. Togvindan er af
Robertson Artic gerð, með tveimur vindukeflum, sem hvort tekur 1200 faðma af
3" vír. Í lýsisbræðslunni er skilvinda og rafmagnsdæla, til losunar á á lýsi
í höfn. Vélar hafa verið settar í skipið til framleiðslu á fiskimjöli. Afköst
þeirra eru um 10 smál. af mjöli á 24 klukkutímum. Síður, endar og loft
lestarinnar er klætt með aluminium plötum og er hægt að losa hverja einstaka
þeirra er með þarf. Einnig er aiuminium notað í byggingu utan um reykrör
vélanna og stjórnpall. "Hall"-kælikerfi er notað til að kæla lestar
skipsins. Rafsuða er notuð við smíði skilrúma, botntanka og vélasæta.
Akkerisvinda er rafdrifin og stýrisvélin er rafmagns-vökvadrifin (electrohydaulic).
Í skipinu er eimketill, sem kyntur er hvort heldur vill með afgasi vélanna eða
hráolíu. Framleiðir hann 1600 lbs. af gufu með 75 lbs. þrýstingi á ferþumlung
með olíukyndingu, en 600 Ibs. þegar aðeins er notað afgas vélanna. Íbúðir eru í
skipinu fyrir 39 menn.
Talsverður hluti af togaraflota þeim, sem nú er í smíðum í Bretlandi fyrir
brezka og íslenzka útgerðarmenn eru knúnir með dieselvélum. Hr. Guðmundur
Jörundsson skýrði frá, eftir að "Jörundi" hafði verið hleypt af stokkunum,
hver sparnaður þess togara væri umfram gufutogara (nýsköpunartogara). Myndin,
sem Guðmundur Jörundsson dregur upp, er miðuð við íslenzk skip og íslenzkar
aðstæður: "Gufutogarinn brennir olíu fyrir £ 50 daglega, en dieseltogarinn
brennir olíu fyrir £ 33 á sama tíma. Sé reiknað með 300 dögum í hafi af hverjum
365, verður sparnaðurinn ca. £ 5000 á ári. Í þessum togara er létt
aluminiumblanda notuð í innréttingu lestar og í yfirbyggingu og mun það enn
spara olíu og auka burðarmagn skipsins. Hið nýja fyrirkomulag lýsisbræðslunnar
mun gefa af sér £ 3000 árlega, umfram eldra fyrirkomulag. Fiskimjólsvélarnar
ættu að gefa af sér £ 4000-5000 árlega. Guðmundur Jörundsson telur því, að
togari af þessari gerð ætti að gefa af sér £ 15.000 meira en venjulegur nýr
gufutogari gerir árlega.
Sjómannablaðið Víkingur. 11 árgangur 1949.
Togarinn Jörundur EA 335 við bryggju í Krossanesi. Minjasafnið á Akureyri.
B.v.
Jörundar loflega getið
B.v. Jörundar EA 335 hefir vakið mikla athygli víða um heim,
sakir þess hve frábrugðinn hann er öðrum togurum að mörgu leyti. Visi hefir
nýlega borizt tímaritið Aluminium News, sem gefið er út í Montreal í Kanada af
álumimnumframleiðendum þar í landi. Timarit þetta er aðeins 8 blaðsíður að
stærð, en fjórðungi þess eða tveim síðum í opnu þess er varið til að gefa
lýsingu á Jörundi og birta myndir af skipinu. Timaritið getur skipsins
vitanlega fyrst og fremst vegna þess, að aluminium var notað í mjög ríkum mæli
við smíði skipsins, m. a. í lestum, en annars segir það, að Jörundur sé stærsta
og vandaðasta skip, sem byggt hafi verið í skipasmíðastöð í Austur-Anglíu. Eitt
atriði, sem tímaritið getur, mun vera heldur orðum aukið, en það er að
Guðmundur Jörundsson sé að láta smíða alls 28 samskonar skip fyrir sig í
Bretlandi.
Vísir. 3 desember 1949.
B.v. Þorsteinn þorskabítur SH 200. (C) Hafsteinn Jóhannsson.
Togarinn
Þorsteinn þorskabítur
kom til Stykkishólms í fyrrinótt
Var vel
fagnað af heimamönnum
fer á veiðar þegar í dag
Um klukkan 2 síðastliðna nótt kom togarinn Þorsteinn
þorskabítur, áður Jörundur frá Akureyri, hingað til Stykkishólms og lagðist að
bryggju. Þrátt fyrir kalsaveður, vakti margt fólk eftir togaranum og beið hans
á bryggjunni. Kristinn B. Gíslason, oddviti, bauð skip og skipshöfn velkomin
til Stykkishólms með stuttu ávarpi og árnaði þeim allra heilla. Í dag sat
skipshöfn og fleiri gestir hádegisverðarboð hreppsnefndar Stykkishólms og
fluttu þar ræður Ólafur Guðmundsson sveitarstjóri, Kristinn B Gíslason oddviti,
Jóhann Rafnsson formaður útgerðarfélagsins, Pétur Pétursson alþingismaður,
Sigurður Ágústsson alþingismaður, Kristinn Hallsson kaupfélagsstjóri og loks
Einar Sigurjónsson skipstjóri. Þorsteinn þorskabítur fer á veiðar þegar á
morgun og veiðir í ís. Skipverjar eru 8-9 frá Stykkishólmi, 9 Færeyingar, en
aðrir komu að norðan með skipinu.
Aðilar að útgerðarfélaginu, sem kallast Þórólfur Mostrarskegg, eru
Stykkishólmshreppur, Kaupfélag Stykkishólms, Sigurður Ágústsson, Beinamjölsverksmiðjan
Hamar og Hafnarsjóður Stykkishólms.
Stjórn félagsins skipa Jóhann Rafnsson, Sigurður Ágústsson, Lárus
Guðmundsson og Sigurður Skúlason.
Tíminn. 24 janúar 1958.
Þorsteinn þorskabítur SH 200 í síldarflutningum á Siglufirði árið 1965. Ljósmyndari óþekktur.
Þorsteinn
þorskabítur í síldarflutningum
Togarinn Þorsteinn þorskabítur hefur verið útbúinn til að
flytja söltunarsíld af miðunum eystra til söltunarstöðva á Norðurlandi. Enn
liggur togarinn við bryggju í Reykjavík, en kemst væntanlega, af stað næstu
daga. Beðið hefur verið eftir hlut í vél skipsins, en hann var væntanlegur með
flugvél frá Þýzkalandi í gærkvöld.
Þjóðviljinn 30 júlí 1965.
Jón Kjartansson SU 111 á leið inn Eskifjörð. (C) Vilberg Guðnason.
Jón
Kjartansson sökk út af Vattarnesi
Skipið
nýkomið úr viðgerð í Noregi
Eitt mesta aflaskip flotans, Jón Kjartansson SU-111 frá
Eskifirði, sökk eina og hálfa sjómilu Úti af Vattarnesi í fyrrakvöld. Snemma á
sunnudagsmorgun fékk skipið slagsíðu á bakborða er það var að leggja af stað
til lands með fullfermi af loðnu, stuttu síðar lagðist skipið yfir í sjórnborða
og yfirgáfu þá allir skipverjar, nema þrír, skipið. Þegar þetta kom fyrir var
skipið statt við Hvalbak. Fór skipið í fylgd tveggja báta til Eskifjarðar, en
sökk á móts við Vattarnes og átti skipið þá eftir einn þriðja hluta leiðarinnar
til Eskifjarðar. Hannes Hafstein, fulltrúi Slysavarnarfélags Íslands sagði í
gær, að það hefði verið á ellefta tímanum á sunnudagsmorgun, sem
Slysavarnarfélagið hefði fengið að vita gegnum Nesradió, að Dagfari ÞH 70,
ásamt tveimur öðrum bátum, væru í fylgd með Jóni Kjartanssyni, sem þá skömmu
áður hafði fengið skyndilegan og mikinn halla á bakborða. Jón Kjartansson var
þá á leið frá loðnumiðunum við Hvalbak til Austfjarðahafna.
Á þessum slóðum var
þá kaldi og dálitill sjór. Klukkutíma seinna lagðist Jón Kjartansson yfir í
stjórnborða, og þá fóru allir nema þrir menn frá borði, og fóru þeir um borð í
Dagfara. Um klukkan hálf fimm voru skipin stutt frá Skrúð og ástandið var þá
orðið mjög alvarlegt, þar sem hallinn hafði aukizt, en ferðin gekk
stórslysalaust . Rétt fyrir klukkan sjö áttu skipin eftir tvær sjómílur í
Vattarnes og ástandið var þá orðið mjög alvarlegt, en menn vonuðu það bezta,
þar sem skipin voru að komast inn á Reyðarfjörð í kyrran sjó, en þá var einnig
bátur frá Eskifirði lagður af stað með dælur, til að dæla sjó úr skipinu.
Ástandið hélt áfram að versna og klukkan 19:45 þurftu mennirnir að yfirgefa
skipið, og fóru allir yfir í Dagfara. Jón Kjartansson hélt áfram að síga er hér
var komið og klukkan 20.30 hvarf skipið sjónum manna.
Jón Kjartansson var smíðaður í Englandi árið 1949, og hét fyrst Jörundur.
Núverandi eigendur voru Hraðfrystihús Eskifjarðar og hinn kunni aflamaður
Þorsteinn Gíslason skipstjóri. Jón Kjartansson var 491 lest að stærð. Sjópróf í
málinu áttu að fara fram á Eskifirði í gær, en af þeim gat þó ekki orðið fyrr
en í dag. Jón Kjartansson var nýkominn úr viðgerð og yfirferð frá Noregi, þegar
þetta óhapp kom fyrir. Í fyrra til dæmis fékk skipið einnig mikla slagsíðu og
fór það þá inn á Stöðvarfjörð, þar sem það var létt, áður en það fór til
Eskifjarðar. Ekki er enn vitað hvað það var, sem var þess valdandi, að skipið
fékk slagsíðuna en allar lúgur skipsins voru vel skálkaðar.
Tíminn. 30 janúar 1973.