29.10.2017 11:01
1292. Sigurður Baldvin KE 22. TFWI.
1292. Sigurður Baldvin KE 22 í prufusiglingu á sundunum í Reykjavík. Ljósmyndari óþekktur.
Víðtæk leit
gerð að tveimur sjómönnum á Ísafjarðardjúpi
Bátur þeirra
fannst mannlaus hringsóli tvær sjómílur út af Krossavík í Stigahlíð
Um kvöldmatarleytið í gærkvöldi var hafin umfangsmikil leit
í Ísafjarðardjúpi að tveimur mönnum af rúmlega 20 tonna trébáti frá
Bolungarvík. Komið var að bátnum, um tvær sjómílur út af Krossavík í Stigahlíð,
þar sem hann hringsólaði mannlaus. Tókst að koma manni um borð í bátinn og varð
þá ljóst að sjór hafði gengið yfir hann og er talið að mennina hafi tekið út
við það. Þegar báturinn fannst var veður slæmt, norðaustan sjö til átta
vindstig, snjókoma og frost.
Fjöldi nærstaddra skipa og báta hóf þegar leit og bátar héldu til leitar frá
Bolungarvík. Leitarflokkar frá Björgunarsveitinni Erni frá Bolungarvík gengu
fjörur. Auk þess var eftirgrennslan hafin frá Galtavita. Danska eftirlitsskipið
Vædderen, var statt fyrir vestan og kom fljótlega á slysstað til aðstoðar.
Varðskip var á leiðinni á slysstað í gærkvöldi og var von á því vestur upp úr
miðnætti. Veður var heldur að ganga niður og að sögn leitarmanna eru aðstæður
til leitar ágætar. Þegar Morgunblaðið fór í prentun í gærkvöldi var jafnvel
talið að slysið hafi orðið um það leyti sem báturinn var að halda til lands,
eftir að hafa dregið línur þær sem hann var með í sjó. Ef það reynist rétt er
líklegt að slysið hafi orðið um kl. 16 í gær. Ekki er hægt að svo stöddu að
birta nöfn mannanna tveggja sem saknað er né heldur nafn bátsins sem þeir voru
á.
Morgunblaðið. 19 desember 1990.
Þeir sem
fórust af Hauki ÍS
Mennirnir tveir sem leitað hefur verið að frá því bátur
þeirra, Haukur ÍS 195, fannst mannlaus í ísafjarðardjúpi 18. desember sl. eru
taldir af og skipulagðri leit verið hætt. Félagar úr Björgunarsveitinni Erni
leita þó með ströndum og á fjörum eftir því sem veður leyfir næstu daga.
Mennirnir sem fórust voru:
Vagn Margeir Hrólfsson, skipstjóri, til heimilis á Þjóðólfsvegi 5 í
Bolungarvík. Hann var 52 ára gamall, fæddur 25. apríl 1938, og lætur eftir sig
eiginkonu, Birnu Hjaltalín Pálsdóttur, og sjö uppkomin börn. Gunnar Örn
Svavarsson, háseti, Traðarlandi 19 í Bolungarvík. Hann var 29 ára, fæddur 3.
janúar 1961, og lætur eftir sig eiginkonu, Margréti Vagnsdóttur. Gunnar Örn var
tengdasonur Vagns og Birnu.
Morgunblaðið. 29 desember 1990.
Skemmti og hvalaskoðunarskipið Haukur ÞH í Húsavíkurhöfn. (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.
Skonnortan Haukur ÞH á siglingu. (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.
Norðursigling
á Húsavík
Eitt helsta
markmið Norðursiglingar er varðveisla íslenskra eikarbáta. Með smíði eikarbáta
náðu íslenskir iðnaðarmenn einstaklega langt í því handverki svo að nánast er
um listgrein að ræða. Smiðareglurnar voru strangari hér á landi bæði hvað
varðar styrkleika og val á efni. Norðursigling hefur haft eikarbáta í siglingu
með farþega á Skjálfanda síðan 1995. Sú reynsla hefur sýnt að eikarbátar eru
einstaklega þægilegir, hljóðlátir og hafa rólegar hreyfingar og henta
eikarbátar Norðursiglingar því einkar vel til hvala og náttúruskoðunar.
Tveir af bátum Norðursiglingar hafa verið endurbyggðir sem tveggja mastra
seglskip og svipar þeim mjög til fiskiskonnorta þeirra sem algengar voru við
Norðurland á seinni hluta 19. aldar. Með þessu vill Norðursigling viðhalda
kunnáttu sem nærri var gleymd og sjá til þessi að gömul gildi gleymist ekki.
Skúturnar tvær, Haukur og Hildur, eru báðar notaðar
í almennar ferðir Norðursiglingar og eru einnig til taks í sérhæfðari verkefni.
Heimasíða
Norðursiglingar á Húsavík.