04.11.2017 09:11

Frekjan BA 271. TFEL.

Frekjan BA 271 var smíðuð í Troense í Danmörku árið 1888. Eik. 32 brl. 70 ha. Gamma vél (1938). hét áður Anders Morse. Eigandi var Gísli Jónsson alþingismaður í Reykjavík frá júlímánuði árið 1940. Seld Oddi Helgasyni í Reykjavík, hét Þerney RE 271. Seld 1 janúar 1945, Jóni Sigurðssyni í Reykjavík. Báturinn var talinn ónýtur og tekinn af skrá árið 1951.


Frekjan BA 271 við Noregsstrendur.                                                                    Ljósmyndari óþekktur.


Áhöfn Frekjunnar. frá v: Gunnar Guðjónsson skipamiðlari, stýrimaður. Gísli Jónsson alþingism, vélstjóri. Björgvin Frederiksen vélvirkjameistari, 2 vélstjóri. Konráð Jónsson verslunarmaður, háseti. Theodór Skúlason læknir, háseti. Lárus Blöndal skipstjóri og Úlfar Þórðarson augnlæknir, matsveinn.

                  Frekjan BA 271

Um lágnættið Þann 12. ágúst árið 1940, þegar styrjöld Þjóðverja og breta var í algleymingi, renndi lítil, nær hálfrar aldar gömul skúta upp að gamla hafnarbakkanum hér í Reykjavík. Var hér á ferð  Frekjan undir stjórn Lárusar Blöndal skipstjóra að koma til  Íslands eftir 22 sólarhringa útivist frá Danmörku með sjö manna áhöfn, en Þeir voru :
Lárus Blöndal, skipstjóri, Gunnar Guðjónsson (skipamiðlari) stýrimaður, Gísli Jónsson (alþm.) 1. Vélstjóri,  Björgvin Frederiksen (frkvstj.) 2. vélstjóri, Úlfar Þórðarson (augnlæknir) matsveinn, Konráð Jónsson (verzlm.) háseti og Theodór Skúlason (læknir) háseti. Höfðu menn þessir lokazt inni í Danmörku af ófriðarástæðum, en fengið leyfi þýzkra hernaðarayfirvalda til skipakaupanna og Íslandsferðar. Gísli Jónsson keypti 32 lesta bát með 70 hestafla Gamma vél fyrir 8.500 danskar kr. Seljandi var hálfáttræður skipstjóri í Frederikshavn, Knudsen að nafni. Hét skútan eftir tengdaföður hans, Anders Morse. Mikla blessun kvað hann hafa fylgt skútunni þau 48 ár sem hann hefði stýrt henni á Ægisslóð, en það var ekki sízt að þakka tréklossa negldum í stýrishúsi, hvar hann var búinn að vera í 40 ár eftir að Knudsen hefði þegið hann í lífgjöf frá skipsbrotsmanni, sem hann hafði bjargað af rekaldi í Norðursjónum. Þrivegis hafði Knudsen unnið til verðlauna fyrir hraðsiglingu í Englandsferðum á Anders Morse.
Nokkuð var skútan illa útlítandi enda komin til ára sinna, smíðuð í Troense 1888 eða 52 ára gömul. Eftir að hafa dyttað að bátnum eftir föngum og gefið honum nafnið Frekjan, var haldið úr höfn með blessunaróskir Knudsens og Maríu konu hans. Lagt var upp frá Frederikshavn laugardaginn 20. júlí. Lá leiðin fyrst um tundurduflasvæði til Kristiansand í Noregi, þar sem legið var í 5 daga. Síðar var haldið innan skerja norður með ströndinni. Stanzað var á nokkrum stöðum, svo sem Lyngdalen, Langelandsvik, Stavanger, Haugasundi, Bergen og við Holmengraat var norska ströndin yfirgefin þann 4. ágúst og stefnan tekin á Færeyjar. Eftir rúmlega tveggja sólarhringa siglingu var komið til Þórshafnar. Frá Færeyjum var svo haldið þann 8. ágúst og snemma morguns sunnudaginn 11. ágúst renndi Frekjan fram hjá Heimakletti inn á Vestmannaeyjahöfn eftir 61 klukkustundar ferð frá Færeyjum. Hingað til Reykjavíkur kom svo skipið sem fyrr greinir 12, 13. ágúst eftir giftusama ferð um hættusvæði. Hér hlaut báturinn síðar nafnið Þerney RE 271 og var á skipaskrá fram til ársins 1950 og mun hafa dagað uppi inn við Elliðaárvog.
Aðalmál bátsins voru: Lengd: 17.05 m. Breidd: 4.90 m. Dýpt: 1.79 m.

Skip. Guðmundur Sæmundson.
Æskan. 1 apríl 1973.


Frekjan við bryggju í Reykjavík.                                                           Ljósmyndari óþekktur.

     Þeir komust heim með "Frekju"

  Fyrsta skipsferðin frá Danmörku var söguleg

            Gísli Jónsson vjelstjóri segir frá

Á sunnudagskvöld um miðnætti renndi fyrsta skipið hjer inn á höfnina, sem komið hefir frá Danmörku síðan Þjóðverjar hernámu landið. Það var 32 tonna fiskiskúta, er Gísli Jónsson vjelstjóri hafði keypt til heimferðarinnar, og er ekki verulega álitleg til úthafsferða, en heitir Frekja. Fyrir alllöngu hafði það frjest hingað heim, að von væri á þeim Gísla og Gunnari Guðjónssyni skipamiðlara frá Danmörku á einhvrejum farkosti, er þeir fengju þar. En margir lögðu ekki meira en svo trúnað á, að sú ferð myndi takast, leyfi fást, sem til þess þyrfti og allur útbúnaður til fararinnar. En þetta tókst allt vonum framar, eins og Gísli Jónsson skýrði blaðinu frá í gær, og voru erfiðleikarnir þó hvað mestir að komast af stað. Ferðin tók þrjár vikur, og gekk að heita mátti greiðlega.
Skipshöfnin var þessi:
Lárus Blöndal, skipstjóri.
Gísli Jónsson, 1. vjelstjóri.
Gunnar Guðjónsson skipamiðlari, 1. stýrimaður.
Björgvin Fredriksen, 2. vjelstjóri.
Úlfar Þórðarson, læknir. matsveinn.
Theódór Skúlason læknir, háseti.
Konráð Jónsson, verslunarmaður, háseti.
Tíðindamaður blaðsins hitti Gísla Jónsson að máli í gær á heimili hans, Bárugötu 2. Um ferðalag hans og þeirra fjelaga og undirbúning undir heimferðina komst hann að orði á þessa leið:
Jeg fór með Gullfossi út í marslok og ætlaði fljótlega heim aftur. Svo utanlandsferð mín varð æðimikið lengri en ráð var fyrir gert. Er Gullfoss teptist og skipagöngur yfirleitt frá Danmörku, ætlaði jeg að komast heim með Eddu yfir Genua og hafði fengið vegabrjef til þess. En þegar til kom hafði jeg ekki lokið erindrekstri mínum ytra, og hætti við þá ferð, enda var þá von á að Esja fengi að sækja fólk til Petsamo er vildi komast heim. En þegar það brást, tók jeg til að svipast eftir farkosti til að komast heim. En til þess að það mætti takast, varð skipið að vera alveg sjerstökum kostum búið. Í fyrsta lagi þurfti það að vera þannig, að Dönum væri ekki eftirsjá í því. Í öðru lagi þurfti það að vera þannig, að Þjóðverjar gætu ekki notað það til sinna þarfa. En þrátt fyrir þessa ófrávíkjanlegu "kosti" þurfti fleyt- áh í þriðja lagi að vera þannig, að farandi væri á henni yfir hafið. Og loks mátti hún ekki vera alltof dýr, því ekki kom til mála að hún fengist vátrygð í ferð þessa. Svo hepnir vorum við Gunnar Guðjónsson, en hann var með í ráðum öllum, að við hittum á 52 ára gamla Fredrikshavnsskútu, sem uppfyllti öll þessi skilyrði. Hún er úr eik, með nýlegum 70 hesta mótor. Og hún reyndist okkur alveg ágætlega, gekk sínar 7-8 mílur lengst af, þó veður væri ekki sem hagstæðast.
Er hjer var komið sögu sóttum við um leyfi til Þjóðverja að mega sigla til Íslands 5-7 manns á skipi þessu. Umsókn um þetta sendum við þann 13. júní og fengum svar þann 29. sama mánaðar, að við mættum sigla okkar sjó á skútunni. En í leyfisbrjefinu var okkur jafnframt bent á, að það væri óráð legt fyrir okkur að leggja á hafið á slíku skipi.


Gunnar Guðjónsson skipamiðlari og stýrimaður um borð í Frekjunni.   Ljósmyndari óþekktur.

Nú komu erfiðleikarnir gagnvart Dönum; fá að kaupa bátinn og útflutningsleyfi á honum  og olíu og annað, sem þurfti til fararinnar. Það tók 3 vikur. Og það var víst einhverntíma á því tímabili, sem Gunnari Guðjónssyni datt í hug að gefa bátnupm nafnið "Frekja" . Þegar þýska leyfið var fengið, þótti hart aðgöngu að gefast upp við ferðalagið. Með "Frekju" , komumst við líka klakklaust alla leið. Við fengum 3 1/2 tonn af olíu, og áttum nokkuð eftir, er hingað kom. Vistir höfðum við til fimm vikna, og svo föt og ferðafarangur eins og gengur. Annað var ekki í skipinu. Póst tókum við engan, nema stjórnarpóst, nokkra böggla,en hann var tekinn af okkur í Færeyjum og sendur til London til skoðunar.
Þ. 21. júlí kl. 3 að nóttu lögðum við af stað frá Frederikshavn, áleiðis til Christianssand í Noregi. Ferðaleyfi okkar frá þýsku stjórninni gilti í raun og veru ekki lengra en til Noregs. Þar skyldu þýsku hernaðaryfirvöldin "framlengja" það. Með leyfinu fylgdi lýsing á því, hvernig siglingaleiðin skyldi vera, til þess að við kæmumst hjá duflum. Ferðin gekk vel yfir Skagerak til Christianssand. Við fengum að vísu rysjuveður, svo öll var skipshöfnin sjóveik, að undanteknum skipstjóranum. Og undir Noreg vorum við komnir fyrir kvöldið, lágum utan við Christianssand um nóttina, og sigldum þar inn næsta morgun. Allmörg rekdufl sáum við á leiðinni yfir Skagerak.
Í Chritsianssand urðum við að bíða í 6 daga, og komumst þaðan 27. júlí. Þýsku hernaðaryfirvöldin tóku okkur vel þar, og ljek aldrei vafi á, að við gætum fengið að halda áfram, úr því að fararleyfi var fengið í Danmörku. En það leyndi sjer ekki, að ýmsum datt í hug, er þangað var komið, að hjer væri ekki allt með feldu. Við kynnum að vera í þjónustu Þjóðverja á einhvern hátt. Annars hefðum við ekki fengið fararleyfi, ekki fengið skipið og ekki olíuna. Svo miklir erfiðleikar töldu menn á að fá þetta allt saman fyrir óbreytta ferðalanga eins og okkur. Í Christianssand voru okkur fengin í hendur fyrirmæli um það, hvaða leið við skyldum fara meðfram norsku ströndinni, innanskerja, þar sem það var hægt, en annars sem allra næst landi. Við komum við í Stavangri, Haugasundi og Bergen, og var allstaðar vel tekið og greitt fyrir ferð okkar á alla lund. En í Bergen urðum við að bíða eftir því í 2 daga, að fá að leggja frá landi. Þar var okkur sagt, að það væri annmörkum bundið að fá slíkt ferðaleyfi. Því það þyrfti að tilkynna 150 varðstöðvum að för okkar skyldi ekki heft og við skyldum ekki reknir til lands, ef þýsk flugvjel, skip eða strandverðir yrðu okkar varir. Að þetta þurfti að gera mun koma til af því, að norskir menn hafa víst, alloft gert tilraun til þess að, flýja land í litlum fiskiskipum og þau verið stöðvuð og gerð afturræk, er til þeirra náðist.


Gísli Jónsson var enginn eftirbátur bróður síns, Guðmundar Kambans, þegar segja þarf sögu á skemmtilegan hátt, enda gerði hann það vel í þessari bók sem kom út árið 1941.

Þann 2. ágúst lögðum við af stað frá Bergen og þann 3. ágúst lögðum við frá landi á haf út og komun þann 5. ágúst til Færeyja. Þar mættum við í fyrstu sömu tortrygni og við áður höfðum fundið um það, að við kynnum að eiga annað erindi til Íslands, en upp var gefið. Fengum við Iítið samband að hafa við fólk þar. En þetta kom ekki að sök og á fimmtudaginn fengum við fararleyfi frá hernaðaryfirvöldunum þar. Eftir 60 klst. siglingu komum við til Vestmannaeyja á sunnudagsmorgun, og á sunnudagskvöld vorum við hjer.
Þjer sögðuð að Gunnar Guðjónsson hafi verið 1. stýrimaður. Kunni hann á kompás? Hann lærði það á leiðinni. Og honum gekk afbragðs vel að stýra, er hann hafði fengið nokkra æfingu. Yfirleitt var ferðin öll hin ánægjulegasta. Skútan fór vel í sjó, mátti ganga þurrfóta á sokkaleistunum um þilfarið mest af tímanum. En hún valt stundum talsvert. Ekkert óhapp kom fyrir okkur alla leiðina. Við fórum ekki úr fötum og vorum skeggjaðir og ótilhafðir eins og ferðalaginu sæmdi. Og þegar til Vestmannaeyja kom, þá voru "landkrabbarnir orðnir svo sjóaðir og sjómannslegir, að hafnarvörðurinn, sem við höfðum tal af, spurði þá að því, hvar þeir hefðu róið síðast.

Morgunblaðið. 13 ágúst 1940. 

Flettingar í dag: 441
Gestir í dag: 59
Flettingar í gær: 437
Gestir í gær: 35
Samtals flettingar: 1018547
Samtals gestir: 73258
Tölur uppfærðar: 18.10.2024 07:44:07