25.11.2017 10:49
Faxi RE 219. LBJS.
Ný skip
Frá útlöndum eru nýkomin 4 mótorskip, eign hérlendra manna,
eru þau öll nýsmíðuð í Danmörku, og heita þau:
»Faxi«, eign kaupmanns Sigurjóns Péturssonar o. fl.
»Skaftfellingur«, eign Skaftfellinga, vöruflutningaskip.
»Bifröst«, eign kaupmanns Jóns Björnssonar í Borgarnesi og
»Björgvin«, eign Einars Sveinbjarnarsonar í Sandgerði o. fl.
»Faxi hefir fengið útbúnað til botnvörpuveiða og hefir stundað þá veiðiaðferð
síðan síðustu daga í maí og hepnast vel.
Ægir. 1 júní 1918.
Faxi RE 219
á togveiðum
Faxi, mótorskip þeirra Sigurjóns Péturssonar o. fl., fer nú
til fiskiveiða. Hefir nú verið settur á skipið útbúnaður til þess það geti
veitt með botnvörpum, að minsta kosti ef dýpi er ekki mjög mikið, og í bærilegu
veðri. Annað mótorskip, Sigurður I., sem nú fer póstferðirnar héðan til
Borgarnes, hefir slíkan botnvörpuútbúnað, og hefir reynst sæmilega. Skipstjóri
á Faxa verður Gísli Magnús Oddsson frá Ísafirði.
Frón. 20 tbl. 1 júní 1918.
Vjelbáturinn Faxi VE
Tvo vjelbáta rak upp af höfninni í Vestmannaeyjum í ofviðrinu
fyrir helgina, sem áður er sagt. Hefir tekist að ná öðrum þeirra út, þeim
minni. En stærri bátnum, Faxa, eign Gísla Magnússonar, hefir ekki tekist að ná
út. Bátur þessi var festur utan á skipið Örn, er lá við bryggju, en er Örn
losnaði og rak í bátaþvöguna á höfninni, losnaði Faxi frá Erni, og rak síðan
upp í hafnargarðinn. Um stórstraumsflóð var reynt að ná Faxa út. Var enskur
togari fenginn til þess að reyna að draga hann á flot, en það mistókst.
Báturinn er talsvert brotinn. Talið er tilgangslaust að reyna að ná honum út,
úr því ekki tókst í síðasta stórstreymi, fyrri en þá um næsta stórstraum, ef
báturinn verður þá ekki laskaður, meira en hann er nú, en hætt er við að svo
verði ef óveður halda áfram.
Morgunblaðið. 18 janúar 1933.