26.11.2017 11:22

B. v. Júpíter GK 161. LBQG / TFJD.

Botnvörpungurinn Júpíter GK 161 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1925 fyrir Fiskveiðihlutafélagið Belgaum í Hafnarfirði. 394 brl. 700 ha. 3 þennslu gufuvél. 44,90 x 7,66 x 4,21 m. Smíðanúmer 476. Togarinn var seldur í nóvember árið 1929, h/f Júpíter í Hafnarfirði, sama nafn og númer. Seldur í apríl 1948, h/f Júpíter í Reykjavík, hét Júpíter RE 61. Seldur í ágúst árið 1951, Togaraútgerð Dýrfirðinga h/f á Þingeyri, hét hjá þeim Guðmundur Júní ÍS 20. Seldur í júní 1955, Einari Sigurðssyni í Reykjavík, sama nafn og númer. Seldur vorið 1963, Magnúsi Kristinssyni í Njarðvík. 18 maí árið 1963 kom upp eldur í togaranum og eftir það var hann talinn ónýtur og tekinn af skipaskrá. Nú er flak togarans í uppfyllingu við höfnina á Ísafirði.


Júpíter GK 161 á leið til Englands með fullfermi.                                                Mynd úr safni mínu.


Júpíter GK 161 í slippnum í Reykjavík.                                                    (C) Óttar Guðmundsson.


Trollið tekið á Júpíter GK árið 1930.                                                        (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


Pokinn tekinn innfyrir á Júpíter GK árið 1930.                                          (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


Áhöfnin á Júpíter GK árið 1930.                                                               (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


Guðmundur júní ÍS 20.                                                                               (C) Samuel Arnoldsson.


Flakið af Guðmundi júní ÍS 20 hálf sokkið á Ísafirði.                             (C) Sæmundur Þórðarson.

 

               Júpíter GK 161

Hið nýja botnvörpuskip sem fyrri eigendur Belgaums hafa keypt, kom hingað í fyrradag. Skipstjóri er Þórarinn Olgeirsson. Skipið er 147 fet á lengd  og vandað að öllum frágangi.

Morgunblaðið. 8 desember 1925.
 

                 Togarakaup

Hlutafjelagið Júpíter hefur keypt botnvörpunginn Júpíter af Þórarni Olgeirssyni. Verður skipstjóri á honum Tryggvi Ófeigsson. Þórarinn er að láta smíða nýjan togara í Englandi.

Norðlingur. 29 nóvember 1929.
 

     35 ára gömlum togara breytt                        í flutningaskip?

Vestur á Grandagarði er nú verið að kanna möguleikana á því að breyta gömlum togara í flutningaskip. Er skrokkur skipsins sagður svo góður, að ófært sé að órannsökuðu máli, að láta skipið fara í brotajárn, en það virtist yfirvofandi. Hér er um að ræða togarann Guðmund Júní frá Flateyri. Hann er búinn að liggja bundinn vestur við Grandagarð langa lengi. Var talið að togarans biði ekki annað en að verða dreginn til útlanda og rifinn í brotajárn. Nú er búið að rífa keisinn og reykháfinn og taka gufuketilinn úr skipinu. Menn eru að vinna í skipinu við að breyta því. Það er Vélsmiðja Njarðvíkur, sem bræðurnir Hákon og Magnús Kristinssynir veita forstöðu, sem hér er að verki. Er hugmyndin að breyta Guðmundi Júní í flutningaskip.
Verður vélin tekin úr skipinu og yfirbygging þess færð aftast á skipið og sett í það díselvél. Var á smiðum að heyra, að ástæða væri til þess að ætla að þetta heppnaðist, því svo traustbyggður er þessi gamli togari, að ekkert mun þurfa að styrkja skrokk hans vegna þessarar breytingar. Gert er ráð fyrir að skipið geti þá lestað alls um 500 lestum af vörum. Það verður að heita má allt ein lest stafna á milli, líkt og litlu saltflutningaskipin dönsku eða hollenzku, sem hér hafa verið á ferðinni.
Togarinn Guðmundur Júní hét áður Júpiter. Hann var byggður í Bretlandi árið 1925.

Morgunblaðið. 2 júlí 1960.


 

Flettingar í dag: 940
Gestir í dag: 71
Flettingar í gær: 2218
Gestir í gær: 119
Samtals flettingar: 1193560
Samtals gestir: 83746
Tölur uppfærðar: 1.4.2025 21:09:15