09.12.2017 07:59

503. Gunnhildur ÍS 246. TFDW.

Gunnhildur ÍS 246 var smíðuð hjá Marselíusi Bernharðssyni á Ísafirði árið 1957 fyrir Magna h/f á Ísafirði. Eik. 59 brl. 280 ha. MWM díesel vél. Seldur 30 nóvember 1969, Baldri Jónssyni, Ásgeiri Sölvasyni og Helga G Þórðarsyni í Hafnarfirði, hét Gunnhildur GK 246. Ný vél (1973) 370 ha. Cummins díesel vél. Var endurmældur sama ár, mældist þá 56 brl. Seldur 8 nóvember 1979, Magnúsi Geir Þórarinssyni í Keflavík, hét Bergþór GK 5. Báturinn fórst í róðri um 8 sjómílur norðvestur af Garðskaga 8 janúar árið 1988. Tveir menn fórust, en þrír björguðust í gúmmíbjörgunarbát. Stuttu síðar bjargaði áhöfnin á Akurey KE 121 frá Keflavík mönnunum til lands heilum á húfi.
Mennirnir sem fórust með Bergþóri hétu Magnús Geir Þórarinsson skipstjóri og eigandi bátsins og Elfar Þór Jónsson háseti.


Gunnhildur ÍS 246 á siglingu.                                                                          Ljósmyndari óþekktur.

              Nýr glæsilegur bátur

Nýlega er lokið í Skipasmíðastöð Marselíusar Bernharðssonar smíði nýs báts, sem hlotið hefur nafnið Gunnhildur ÍS 246. Bátur þessi er allur hinn vandaðasti og búinn öllum nýtízku tækjum. Hann er 60 smálestir með 280 ha. M.W.M. vél. Eigandi bátsins er Magni h.f. nýtt útgerðarfélag, sem stofnað var s.l. ár. Skipstjóri er Hörður Guðbjartsson, 1. vélstjóri Ólafur Gunnarsson og stýrimaður Ólafur Guðjónsson. Skutull óskar eigendum og skipshöfn til hamingju með þessa glæsilegu viðbót við ísfirzka vélbátaflotann.

Skutull. 7 desember 1957.


Bergþór KE 5.                                                                              (C) Vigfús Markússon. Brimbarinn.

  Bergþór KE 5 sökk 8 sjómílur NV af Garðsskaga

    Þrír menn björguðust en tveggja er saknað

Þrír menn björguðust en tveggja er saknað eftir að fiskibáturinn Bergþór KE 5 sökk um 8 sjómílur NV af Garðsskaga á Reykjanesi. Bergþór, sem er 56 tonna trébátur smíðaður 1957, fékk á sig brotsjó þegar hann var við línuveiðar laust eftir kl. 16.30 í gær. Lagðist báturinn á stjórnborðshlið og sökk nær samstundis. Þrír úr áhöfninni komust í björgunarbát og var bjargað um borð í Akurey KE 121 um kl. 18. Leit að hinum tveimur úr áhöfn bátsins bar engan árangur í gærkvöldi en leitinni var hætt kl. 22.00.
Akurey tilkynnti kl. 17.22 í gær á neyðarbylgju skipa, að sést hefði til neyðarblyss suðvestur frá skipinu séð. Slysavarnafélag íslands lét Landhelgisgæsluna strax vita. Vont veður var á þessu svæði, vestsuðvestan 7 til 8 vindstig og éljagangur. Fimm skip höfðu gefið Tilkynningaskyldu íslenskra skipa upp staðarákvörðun þarna nálægt. Slysavarnaféiagið kallaði skipin upp og héldu þau strax í þá átt sem blysið sást úr. Kl. 17.55 tilkynnti Akurey að sést hefði annað neyðarblys og kl. 18.00 kom hún að gúmbjörgunarbáti með þremur mönnum innanborðs. Búið var að ná mönnunum um borð í Akurey kl. 18.09 og töldu þeir þá að þeir hefðu verið í björgunarbátnum í um eina og hálfa klukkustund. Árni Vikarsson skipstjóri á Akurey sagði í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi að mjög vont hefði verið í sjóinn en samt hefði gengið mjög vel að ná mönnunum úr björgunarbátnum. Þeir hefðu verið sæmilega á sig komnir. Tveir þeirra hefðu að vísu verið nokkuð kaldir en náð sér fijótt. Árni hafði það eftir mönnunum að Bergþór hefði sokkið 2-3 mínútum eftir að hann fékk á sig brotið. Tveir þeirra sem björguðust voru á þilfari og náðu að losa björgunarbátinn með handleysibúnaði. Sá þriðji var niðri í káetu en honum tókst að brjótast upp gegnum glugga á brúnni áður en báturinn sökk og komast í björgunarbátinn. Annar mannanna sem saknað er var í brú skipsins en hinn var niðri í lúkarnum. Akurey hóf strax leit á svæðinu auk fleiri skipa sem komu þarna að.
Landhelgisgæslan kallaði út áhafnir þyrlunnar TF-Sif og flugvélarinnar TF-Syn, og fór þyrlan af stað til leitar kl. 18.14 en hún er búin innrauðum hitaleitartækjum. Þyrlan var komin á slysstaðinn kl. 18.27 og heyrði þá í neyðarsendi bátsins en til hans hafði ekki heyrst úr skipum á svæðinu. Leit var haldið áfram fram eftir kvöldi og tóku þátt í henni, auk TF-Sif, Skógarfoss, Stafnes KE 130, Happasæll KE 94, Hafberg GK 377, Vonin KE 2, Víðir II GK. 275, Sigurjón Arnlaugsson HF 210 og Viðey RE 6. Einnig var danska varðskipið Hvidebjörn komið á svæðið um kl. 20.30. TF-Sif snéri aftur til lands og lenti um kl. 21.30 en TF-Syn lagði af stað á leitarsvæðið kl. 21.25. Talsvert af hlutum hafði þá fundist úr skipinu, þar á meðal þrír bjarghringir, en leit að mönnunum tveimur bar engan árangur. Leit verður hafin aftur í birtingu í dag og mun TF-Syn fara á leitarsvæðið auk báta. Akurey kom til Keflavíkur um kl. 22 í gærkvöldi með skipverjana þrjá af Bergþóri. Þrír menn eru í áhöfn Akureyjar auk skipstjóra og vildi Árni Vikarsson þakka áhöfn sinni það hve vel tókst til með björgunina.

Morgunblaðið. 9 janúar 1988.

             Brot lagði bátinn á hliðina  

Sjópróf vegna Bergþórs KE 5 sem sökk 8 sjómílur NV af Garðskaga á föstudaginn fóru fram hjá Bæjarfógetaembættinu í Keflavík í gær. Skipverjarnir þrír af Bergþóri sem björguðust komu fyrir dóminn ásamt skipstjóranum á Akurey KE 121 sem ásamt áhöfn sinni bjargaði mönnunum. Dómformaður sjódómsins var Sigurður Hallur Stefánsson héraðsdómslögmaður og meðdómendur voru Ingólfur Falsson og Jóhann Pétursson fyrrverandi skipstjórar.
Við sjóprófin kom fram að verið var að draga síðustu bjóðin þegar brot kom á bátinn aftanverðan og lagði hann á hliðina. Sjór flæddi niður í lestina sem var að mestu opin, skipstjórinn reyndi að keyra bátinn upp, en það tókst ekki og sökk hann á hliðina á nokkrum mínútum. Skipstjóra og stýrimanni tókst að skjóta gúmbát úr gálga með handfangi úr brú, en líflínan sem var fest með lás í gálgan slitnaði. Skipverjarnir sögðust hafa lent í erfiðleikum við að blása bátinn upp og töldu þeir að ýmislegt hefði mátt fara betur í búnaði hans. Þeir nefndu að á gúmbátnum hefði aðeins verið eitt op og það snúið áveðurs vegna þess að rekankeri var fest þeim megin. Þeim hefði gengið erfiðlega að ausa af þessum sökum. Töldu þeir að opin hefðu átt að vera tvö. Ennfremur kom fram að rekankerið slitnaði frá bátnum og töldu skipverjar að línan hefði mátt vera traustari. Fram kom að álpokar sem voru í gúmbátnum rifnuðu þegar skipverjar ætluðu í þá, en þeir töldu samt að þeir hefðu komið að gagni. Tveir neyðarflugeldar voru í gúmbátnum og töldu þremenningarnir að þeir hefðu mátt vera fleiri. Einnig kom fram að gerðar höfðu verið breytingar á Bergþóri fyrir nokkrum árum og þá meðal annars skipt um brú á bátnum. Ein hurð var á nýju brúnni, var hún stjórnborðsmegin, en neyðarútgangur var bakborðsmegin. Þá hafði hvalbakur sem var opinn verið lengdur. Ennfremur kom fram að Bergþór KE 5 hafði fyrir tveimur árum lagst á hliðina og á möstur eftir að brot kom á hann á siglingu frá Sandgerði til Keflavfkur, en þá tókst að keyra bátinn upp.

Morgunblaðið. 13 janúar 1988.

Flettingar í dag: 1257
Gestir í dag: 115
Flettingar í gær: 421
Gestir í gær: 22
Samtals flettingar: 1191659
Samtals gestir: 83671
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:18:30