18.12.2017 06:41

Brúarfoss l. LCKM / TFUA.

Brúarfoss var smíðaður hjá Kjöbenhavns Flydedock & Skibsverft í Kaupmannahöfn í Danmörku árið 1927 fyrir h/f Eimskipafélag Íslands. 1.579 brl. 1.000 ha. B & W gufuvél. Smíðanúmer
181. Eimskipafélag Íslands lét smíða frystiskip hjá Kjöbenhavns Flydedok & Skibsværft í Kaupmannahöfn árið 1927 og hlaut það nafnið Brúarfoss og var fyrsta Íslenska sérsmíðaða frystiskipið og olli smíði hans kaflaskiptum í útflutningi á landbúnaðarvörum. Áhöfnin á Brúarfossi bjargaði á stríðsárunum skipbrotsmönnum á tveimur skipum sem hafði verið sökkt. Þann 22 maí 1941 bjargaði hún 34 skipbrotsmönnum af breska flutningaskipinu Rothermere þar sem þeir voru að hrekjast um í björgunarbát undan suðurodda Grænlands. Ári síðar, 4 nóvember 1942, bjargaði hún svo 44 skipbrotsmönnum af breska flutningaskipinu Daleby sem sökkt var af Þýskum kafbát. 11 apríl 1948 strandaði Brúarfoss í Húnaflóa og fór viðgerð á skipinu fram í Leith í Skotlandi. Var vélum skipsins þá breytt frá kolakyndingu í olíukyndingu. Brúarfoss var seldur 10 júní 1957, Freezer Shipping Line Inc í Líberíu, hét Freezer Queen. Skipið var selt Jose A Naveira í Líberíu, hét Reina Del Frio. Árið 1960 var skipið skráð í Argentínu, sami eigandi. Árið 1964 skemmdist skipið af eldi er það var statt á Rosario fljótinu í Argentínu og var því lagt þar. Eftir brunann lá það í níu ár og var loks rifið árið 1973. Brúarfoss var síðasta olíukynta gufuskipið í eigu Eimskipafélags Íslands.


Brúarfoss á siglingu.                                                                           Málverk eftir R. Matthias 1956.


Brúarfoss við komuna til landsins 20 mars árið 1927.                                       Ljósmyndari óþekktur.


Brúarfoss í Skipasmíðakvínni 1 desember 1926.                                         (C) Eimskipafélag Íslands.


Brúarfoss. Glæsilegt skip.                                                               (C) Eimskipafélag Íslands.


                       "Brúarfoss"                                    hið nýja skip Eimskipafélagsins.

Klukkan 11 árdegis 21. mars kom "Brúarfoss" upp að Hafnarbakka. Múgur og margmenni hafði þyrpst niður að höfn og beið þar komu skipsins. Veður var kyrrt. Var skipið mjög fánum skreytt. Atvinnumálaráðherra og stjórn Eimskipafélags Íslans fóru út í skipið um morguninn, á meðan það lá úti á ytri höfn. Er bundnar voru landfestar tók atvinnumálaráðherra til máls. Hann stóð uppi á stjórnpalli. Heyrðist ræða hans allvel út yfir mannssöfnuðinn. Í upphafi óskaði hann hinn nýja "Foss" Eimskipafélagsins velkominn að landi, og árnaði félaginu allra heilla með þetta skip. Mintist hann síðan á framtak og framsýni þeirra manna, er gengust fyrir stofnun Eimskipafélagsins fyrir 14 árum, og breyttu með því gersamlega afstöðu vorri til nágrannaþjóðanna á meginlandinu. Um margra alda skeið urðum við að biðja aðrar þjóðir um farkost fyrir okkur og afurðir okkar til útlanda og eins láta okkur nægja það sem þeim þóknaðist að flytja hingað. Hann gat þess ennfremur, að ríkissjóður hafi látið 350 þúsund krónur til skips þessa, með því skilyrði að það yrði fullkomið kæliskip. Nauðsyn þess, að koma afurðum okkar til útlanda, kjöti og fiski, án þess að salta þær, er með ári hverju að verða augljósari. Nú t. d. liggur nokkur hluti saltkjötsins frá í haust óseldur í Noregi og lítt seljanlegur. Þetta skip sem komið er hér á að verða til þess að slíkt komi síður fyrir aftur. Að lokum endurtók hann árnaðaróskir sínar, þakkaði stjórn og framkvæmdastjórn Eimskipafélagsins og bað áheyrendur að taka undir með sjer í húrrahrópi. Ferfalt húrra gall við frá mannsöfnuðinum og því næst var ræða atvinnumálaráðherra þökkuð með dynjandi lófaklappi.
Tvær frystivélar eru í skipinu er geta kælt lestirnar, þó tómar séu, niður í -7%° frosts. En hægt er að kæla hvert lestarrúm fyrir sig, ef skipið hefir aðrar vörur en kælivörur, ellegar ef eigi er þörf á kælingu nema í sumum lestarrúmunum. Lítið kælirúm er eitt í einni lestinni, ef menn vilja senda smásendingar af kælivörum með skipinu. Alls tekur skipið 1577 smálestir; er það nokkru meira en Gullfoss; en þess er að gæta, að tróðið utan um lestarrúmin tekur allmikið rúm. Annars myndi flutningsrúm skipsins vera mun meira, þar eð öll herbergi eru ofan þilja. Vél skipsins er ákaflega vönduð. í vélarrúmi eru kælivélarnar. Þar er hægt að lesa á mæla hvaða hitastig sé í hverju lestarrúmi skipsins. Þar eru tvær rafmagnsvélar fyrir kastljós skipsins, loftskeytatæki o. fl. Farþegarúm skipsins eru mjög vönduð. Er rúm fyrir 26 farþega á 1. farrými og fyrir 20 á 2. farrými. Þægindi á 2. farrými eru meiri en þekst hafa, er sérstakt pláss á þilfari fyrir farþega þar. Vélbátur er á þilfari, til að nota við uppskipun, draga báta á höfnum, þar sem á því þarf að halda. Hefir það eigi þekst hér áður að hafa slíka uppskipunarbáta á skipum. Á 1. farrými eru klefar eigi sérlega stórir, en þægilegir og tilhugun öll hin hagkvæmasta. Nýungar á skipinu eru margar, m. a. eru áhöld til að geta notað loftskeytavita og rafmagnsáhöld til að nota við mælingar á dýpi. Sérstök lyftitæki eru á fremri þiljum til að lyfta þungum hlutum, ef á þarf að halda við uppskipun. Lyfta þau 12 smálestum að þyngd. Brúarfoss er hraðskreiðasta skip flotans, fer 13 mílur á vöku. Eftir þeirri reynslu sem fengin er, fer skipið með afbrigðum vel í sjó. Skipstjóri á "Brúarfossi" er hr. Júlíus Júliniusson. Var hann síðast á "Lagarfossi", en við skipstjórn á honum hefir nú tekið hr. Pétur Björnsson.   

Ægir. 1 apríl 1927.

Flettingar í dag: 1257
Gestir í dag: 115
Flettingar í gær: 421
Gestir í gær: 22
Samtals flettingar: 1191659
Samtals gestir: 83671
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:18:30