27.12.2017 20:03
B. v. Neptúnus GK 361 kemur til Hafnarfjarðar.
B.v. Neptúnus RE 361 á veiðislóð. (C) Ásgrímur Ágústsson. Birt með hans leyfi.
Neptúnus GK
361 er 183 fet á lengd
Klukkan 8 á sunnudagsmorgun kom stærsti togari sem
íslendingar hafa eignast til þessa, til Hafnarfjarðar. Þetta er
nýsköpunartogarinn Neptúnus, eign h.f. Júpiter í Hafnarfirði. Eins og skýrt
hefir verið frá hjer í blaðinu er Neptúnus talsvert mikið frábrugðinn hinum
fyrri nýsköpunartogurum, hvað innrjettingu og stærð viðvíkur. Hann er 183 1/2
fet á lengd á móti 175 fetum, sem lengd hinna nýsköpunartogaranna er, breiddin
hin sama og á öðrum nýsköpunartogurum. Brúttólestir er hann 717. Til Hafnarfjarðar
var Neptúnus siglt á 3 1/2 sólarhring. Hreppti skipið vont veður mestan hluta
leiðarinnar. Skipverjar láta vel yfir skipinu sem góðu sjóskipi. Þeir Þórarinn
Olgeirsson og Tryggvi Ófeigsson sáu um smíði skipsins og ákváðu allar
breytingar sem gerðar hafa verið. Neptúnus fór á veiðar í nótt er leið.
Morgunblaðið. 30 desember 1947.
B.v. Neptúnus RE 361 heldur til hafs. Úr safni Tryggva Sigurðssonar.
Nýsköpunartogarinn
Neptúnus seldi afla sinn í gær fyrir hálfa milljón kr
"Skýjaborgirnar" selja vel þessa dagana en
"skýjaborgir" nefndu andstæðingar nýsköpunar atvinnulífsins
nýsköpunartogarana þegar sósíalistar fluttu það mál í fyrstu. Skýjaborgin
Neptúnus, annar stærsti nýsköpunartogari landsmanna setti nýtt met í gær þegar
hann seldi afla sinn í Englandi fyrir hálfa milljón króna. Aflinn sem togarinn
seldi var 5709 kits; þar af voru 4293 kits þorskur, 898 kits ýsa, 358 kits ufsi
og lítilsháttar af öðrum fisktegundum, samtals 5709 kits fyrir 19.069
steriingspund eða hálfa miljón króna. Þetta var
fimmta söluferð togarans en í tveimur öðrum ferðum hafði hann einnig sett
afla og sölumet. Í fyrradag setti nýsköpunartogarinn Akurey nýtt sölumet fyrir
minni gerð nýsköpunartogaranna, seldi hann fyrir 14 903 sterlingspund.
Þjóðviljinn. 8 maí 1948.
Neptúnus RE 361 kemur til hafnar með fullfermi. Ljósmyndari óþekktur.
Neptúnus
tefst í Englandi vegna brunaskemda
Togarinn Neptúnus hefir orðið fyrir töfum í Englandi vegna
bruna í kyndistöð skipsins. Menn sakaði ekki. Rjett áður en skipið átti að
sigla frá Grimsby til Reykjavíkur var það að ljúka við að taka olíuforða.
Kviknaði þá eins og áður segir, í kyndistöð skipsins. Um tíma leit svo út, að
eldurinn mundi ná útbreiðslu og ef til vill komast í olíugeyma skipsins. Gat þá
orðið um sprengingu að ræða, sem hefði ónýtt skipið.
Slökkviliðinu í Grímsby, sem var komið á vettvang innan fárra mínútna, tókst að
ráða niðurlögum eldsins. Skemmdir urðu nokkrar í kyndistöð, einangrun á
eimkatli og loftskeytaklofa. Viðgerð á skipinu mun taka nokkurn tíma. Neptúnus
er tæplega ársgamall og er eigandi hans hlutafjelagið Júpíter í Reykjavík. Hann
hefur farið 13 söluferðir á árinu og er söluhæstur allra togara á árinu 1948.
Hefur selt fyrir 172 þúsund
sterlingspund, og setti heimsmet í sölu í maí s. I. Hann er systurskip
við togarann Mars, en samkvæmt teikningu af þeim í öllum aðalatriðum hefur
ríkisstjórnin samið um byggingu 10 nýrra togara í Bretlandi.
Skipstjóri á Neptúnus er hinn þjóðkunni aflamaður Bjarni Ingimarsson, en hann
sigldi ekki með skipið til Englands þessa söluferð.
Morgunblaðið. 17 desember 1948.
Neptúnus RE 361 leggst að bryggju í Hull. Ljósmyndari óþekktur.
Eldur í
Neptúnusi út af Garðskaga
Mannbjörg varð
Um kl. 18.30 í gærkvöldi kom upp eldur í togaranum
Neptúnusi, er hann var staddur 21 sjómílu norðvestur af Garðskaga. Skipshöfnin,
32 menn , snerist þegar gegn eldinum, sem kom upp undir katli skipsins, en fékk
ekki við neitt ráðið. Á tíunda tímanum gaf skipstjórinn, Valdimar Guðmundsson ,
skipshöfninni fyrirmæli um að yfirgefa skipið, en þá var varðskipið Albert
komið á staðinn til hjálpar. Áhöfn togarans fór á tveimur bátum yfir í
varðskipið, og sakaði engan . K l. 23.15 í gærkvöldi höfðu sjö menn af áhöfn
b.v. Neptúnusar farið aftur um borð í skipið, þeirra á meðal skipstjórinn. B.v.
Júpíter var þá kominn á staðinn, og kl. 0.50 hafði taug og dráttarvírar verið
festir milli skipanna . Lagði bv Júpiter þá af stað til Reykjavíkur með bv.
Neptúnus í drætti. 25 menn af áhöfn Neptúnusar voru þá um borð í Albert og
væntanlegir til Reykjavíkur milli kl. 3 og 4 í morgun . Hinir sjö voru í b.v.
Júpiter, en hann var væntanlegur til Reykjavíkur ásamt Neptúnusi kl. 6-7 í
morgun .
Búizt var við í nótt, að hafnsögubáturinn Magni kæmi á móti skipunum
með aflmiklar slökkvidælur. Sem fyrr segir, bar slökkvistarf áhafnarinnar á
Neptúnusi ekki árangur. Eldurinn náði fljótlega útbreiðslu í vélarúminu. Þar
niðri voru gas- og súrefnistæki, sem juku á sprengingarhættu í skipinu. Sagði
Tryggvi Ófeigsson, útgerðarmaður, í stuttu símtali við Morgunblaðið í
gærkvöldi, að það hafi fyrst og fremst verið með tilliti til þessarar hættu, að
skipið var yfirgefið. Útgerðarfélögin Júpíter og Marz gera tvo fyrrnefnda
togara út Tryggvi sagði og, að áður en skipið var yfirgefið, hafi öllum hurðum
og gluggum verið lokað í þeirrr von að á þann hátt mætti kæfa eldinn. Þegar
Mbl. vissi síðast til í nótt, var of snemmt að fullyrða nokkuð um hugsanlega
björgun skipsins, en mikill eldur var í því, þegar það var yfirgefið. Skipið er
vátryggt hjá Vátryggingamiðstöðinni hf.
Liklegt var talið, að kviknað hefði í
út frá einangrun á katli. Togarinn Neptúnus, sem er eign h.f." Júpíters
hér í Reykjavík, fór á veiðar héðan aðfaranótt föstudags. Togarinn hefur undanfarið
verið í 16 ára flokkunarviðgerð í Reykjavik. Slík flokkunarviðgerð mun kosta um
2,5 millj. kr. Bjarni Ingimarsson, hinn þjóðkunni skipstjóri, fór með sínu
gamla skipi í þessa fyrstu ferð eftir flokkunarviðgerðina, en hann hefur
undanfarið verið með bv. Júpíter. Botnvörpungurinn Neptúnus er smíðaður í
Aberdeen árið 1947, 684 brúttólestir að stærð. Þegar hann var fimmtán mánaða
gamall, kom upp eldur í honum, er hann var staddur í Grimsby. Urðu þá svo
miklar skemmdir á skipinu, að það kostaði um 3/4 af kaupverði skipsins að
endurbæta hann.
Alla tíð hefur Neptúnus verið meðal aflahæstu togara íslenzka
fiskiskipaflotans. Árið 1948 setti hann sölumet (í sölu ísvarins fisks) í
Bretlandi. Var það heimsmet, sem stóð óhnekkt í þrettán ár.
Morgunblaðið. 29 ágúst 1964.
B.v. Neptúnus á toginu. (C) Sigurgeir B Halldórsson.
Neptúnus
kveður
B.v. Neptúnus RE 361, einn frægasti togari íslendinga fyrr
og síðar, sigldi í gær áleiðis til Spánar í brotajárn. Hann hefur legið á þrjú
ár við Ægisgarð. Eigandi Neptúnus var h/f Júpiter. Togarinn var smíðaður 1947 í
skipasmiðju John Lewis & Sons í Aberdeen. Smíði Neptúnusar var að öllu
leyti lokið á aðfangadagskvöld jóla 1947, er skipið hélt áleiðis til Íslands.
Skipstjóri var Bjarni Ingimarsson. Neptúnus kom til Hafnarfjarðar á 3. í jólum
og fór á veiðar tafarlaust, eftir að Páll Halldórsson, skólastjóri
Stýrimannaskólans, hafði lokið mælingu skipsins. Neptúnusi gekk afburða vel
strax. Setti heimsmet í sölu í Grimsby þann 7. mai 1948, landaði 5.709 kits,
sem jafngildir 363 tonnum. Sala í sterlingspundum var 19.069.
Neptúnus átti heimsmetið í alls þrettán ár, lengst allra togara fyrr og síðar.
Á karfaárunum eftir 1950 kom Neptúnus til Reykjavíkur með einn mesta karfaafla,
sem nokkur togari hefur fengið. Neptúnus var systurskip Marz, en þau voru
smíðuð samtímis. Tryggvi Ófeigsson sá um smíði beggja togaranna, kom með þeim
heim og tók við þeim báðum. Marz kom til Reykjavíkur á sumarmálum 1948.
Skipstjóri á honum var Þorsteinn Eyjólfsson. Meðan á smíði skipanna stóð
dvaldist Tryggvi Ófeigsson að mestu í Aberdeen og fékk eftirfarandi breytingum
framgengt á smíðasamningi nýsköpunarstjórnarinnar: 1) Skipin voru lengd um 8,5
fet. 2) Skjólborð hækkað, sem var talin hin ágætasta breyting, þegar skipverjar
unnu á framdekki. 3) Lestarhlerar gerðir úr stáli, svo aldrei þurfti eftirlits
á dekki í ofviðrum. 4) "Mónó"-lifrardælur settar í bæði skipin, þannig að
lifrarburður var úr sögunni, sem var afleit vinna og hættuleg í vondum veðrum.
Neptúnus og Marz voru fyrstu skipin með þessum breytingum.
Stækkun skipanna jók burðarþol mjög og skipin urðu gangmeiri, svo um munaði í
mótvindi. Margar fleiri breytingar voru gerðar, þótt ekki séu þær taldar hér.
Miklir aflamenn hafa verið skipstjórar á Neptúnusi. Lengst var Bjarni
Ingimarsson, alls þrettán ár, og Jóhann Sveinsson, sem var í átta ár. Neptúnus
hefur borið að landi geysilegan afla fyrir íslenzku þjóðina, verið mikið
happaskip og greitt alla tíð hæstu opinber gjöld allra íslenzkra togara.
Neptúnus kveður Ísland skuldlaus.
Morgunblaðið. 7 október 1976.