31.12.2017 06:45

1903. Helga ll RE 373. TFSR.

Helga ll RE 373 var smíðuð hjá Ulstein / Hatlö A/S í Ulsteinvik í Noregi árið 1988 fyrir Ingimund h/f, fiskverkun í Reykjavík. 794 brl. 3.000 ha. Bergen Diesel vél. 2.207 Kw. Skipið var selt 27 september 1995, Samherja h/f á Akureyri, hét Þorsteinn EA 810. Skipið var lengt árið 2001, mældist þá 1.086 brl.  Árið 2004 heitir skipið Þorsteinn ÞH 360. Selt árið 2005, Hraðfrystistöð Þórshafnar h/f á Þórshöfn, sama nafn og númer. Selt 2008, Ísfélagi Vestmannaeyja. Skipið var selt 4 júlí 2014, Royal Greenland í Nuuk í Grænlandi. Skipið heitir í dag Tuneq GR 6-40 og er gert út frá Nuuk.


1903. Helga ll RE 373.                                                                                   (C) Snorri Snorrason.

     Helga II RE 373 komin til heimahafnar
    Nýtum loðnukvóta tveggja skipa og þorskkvóta þriggja
           segir Ármann Ármannsson, framkvæmdastjóri  

Hið nýja nóta og togskip Helga II RE 373 kom til landsins í vikunni. Skipið er í eigu Ingimundar hf og kemur í stað eldra skips með sama nafni. Skipið er búið til loðnuveiða og rokju- og bolfiskveiða og vinnslu. Frystigeta er um 30 tonn á sólarhring. Skipið er 793 tonn að stærð, ber um 1.000 tonn af loðnu og um 150 tonn af frystum afurðum. Helga II er byggð af Ulsteinskipasmíðastöðinni í Noregi og hönnuð af Skipsteknisk a/s í Álasundi. Hún er 51,70 metrar að lengd og mesta breidd er 12,50 metrar. Á vinnsludekki eru flökunarlínur, pökkun og vigtun fyrir þorsk, karfa og grálúðu og rækjuvinnslulína og frystitæki. íbúðir eru í skipinu fyrir 23 manns, þarf af 5 í eins manns klefum. Helga II er búin öllum nýjustu og fullkomnustu fiskileitar- og siglingatækjum. Helga II fer um helgina til loðnuveiða, en hún heldur loðnuveiðileyfi eldra skipsins og mun jafnframt veiða í vetur kvóta Helgu III RE, sem er í eigu Ingimundar hf.
Miðað við sömu úthlutun og á síðasta ári gæti því heildarkvóti skipsins orðið um 36.000 til 38.000 tonn. Auk þess hefur skipið leyfi til rækju- og bolfiskveiða. Ármann Ármannsson er framkvæmdastjóri Ingimundar hf: "Mér líst mjög vel á skipið," segir hann. "Það kostar nettó 330 til 340 milljónir og á að geta fiskað nóg til að standa undir sér. Það gerir tvöfaldur loðnukvóti meðal annars og þorskvóti allra skipanna, það er Helgu, Helgu II og Helgu lll, sem er um 1.300 tonn. Um leið verður saltfisksvinnslu hætt í landi og hin tvö skipin verða eingöngu á rækju. Síðan er möguleiki að fara með nýja skipið á Dorhn-bankann, þar sem rækjuveiði er fyrir utan kvóta. Skipstjóri er Geir Garðarsson, en hann sagði í samtali við Morgunblaðið, að skipið hefði reynst vel á heimleiðinni og væri hið bezta í alla staði og mikill munur frá gömlu Helgunni. Yfirvélstjóri er Kristján Bergsson. Bjarni Hilmir Sigurðsson, fyrsti vélstjóri, hafði umsjón og eftirlit með byggingu skipsins í Noregi. Gamla Helgan, sem víkur fyrir þeirri nýju fór utan sem greiðsla upp í nýja skipið. Hún var upphaflega byggð í Noregi 1967 og hafði því náð tvítugsaldrinum. Hún var lengd 1974 og yfirbyggð 1977 og var 281 brúttótonn að stærð. Hún bar um 550 tonn af loðnu.

Morgunblaðið. 21 október 1988.


1903. Þorsteinn EA 810 á loðnuveiðum.                                                (C) Þórarinn Guðni Sveinsson.


1903. Þorsteinn ÞH 360.                                                                                   Ljósmyndari óþekktur.

    Grænlenskt fiskiskip í Akraneshöfn

Stórt og fallegt fiskiskip liggur nú í Akraneshöfn og vekur athygli margra, ekki síst vegna þess að það er skráð í Nuuk, höfuðstað Grænlands. Það heitir Tuneq. Glöggir skipaáhugamenn þekkja þó að hér er komið aflaskip sem hefur þjónað ákaflega vel og dyggilega í íslenska fiskiskipaflotanum um áratugaskeið. Það hét fyrst Helga II RE þegar það kom nýtt til landsins árið 1988, síðan Þorsteinn EA og loks Þorsteinn ÞH. Ísfélag Vestmannaeyja átti skipið þar til í ár að fyrirtækið flaggaði því út til Grænlands. Þar stendur til að gera það út hjá grænlenskri útgerð sem Ísfélagið á hlutdeild í. Undanfarið hefur skipið verið í slipp í Reykjavík þar sem viðhaldi hefur verið sinnt og skipið málað. Ætlunin er að það stundi markrílveiðar í grænlenskri lögsögu nú í sumar.
Ástæðan fyrir því að Tuneq hið grænlenska er komið til Akraness er að þar munu fyrirtækin Þorgeir & Ellert og Skaginn vinna að lagfæringum og niðursetningu á nýjum vinnslubúnaði fyrir makríl. "Það er verið að yfirfara og gangsetja að nýju frystibúnað skipsins. Skaginn setti vinnslulínu fyrir uppsjávarfisk um borð í það fyrir mörgum árum. Það var þá hugsað fyrir frystingu á síld og loðnu. Þessi lína og frystitækin hafa ekkert verið notuð í ein sex eða sjö ár. Nú ætlum við að fá þetta til að snúast og virka eins það á að gera," segir Einar Brandsson tæknistjóri Skagans í samtali við Skessuhorn. Auk þessa verður bætt við nýjum búnaði á milliþilfari skipsins fyrir makrílvinnslu. Einar segir að settir verði niður tveir hausarar fyrir makríl. "Skaginn smíðar búnað við þá. Svo verður komið fyrir nýjum stærðarflokkara fyrir uppsjávarfisk um borð í skipinu. Hann er íslensk framleiðsla af svokallaðri Stylegerð. Með þessu öllu ætti Tuneq að verða vel útbúið til að stunda veiðar á makríl og frysta aflann um borð. Við reiknum með að skipið verði á Akranesi í um mánuð á meðan unnið er í því."

Skessuhorn. 19 tbl. 7 maí 2014.



Tuneq GR 6-40 á leið í slippinn í Reykjavík.                         (C) Þórhallur S Gjöveraa. 18 apríl 2016.


Tuneq GR 6-40 í slippnum í Reykjavík.                                    (C) Þórhallur S Gjöveraa. 5 maí 2016.


Tuneq GR 6-40 nýmálaður við Ægisgarð.                                 (C) Þórhallur S Gjöveraa. 6 júlí 2016.


Fyrirkomulagsteikning af Helgu ll RE 373.                               Mynd úr Ægi frá nóvember 1988.

               Helga ll RE 373.

Nýtt nóta og togveiðiskip, m/s Helga II RE 373, bættist við fiskiskipastólinn 18. október s.l., en þann dag kom skipið í fyrsta sinn til heimahafnar sinnar, Reykjavíkur. Skipið er smíðað hjá Ulstein Hatlö A/S í Ulsteinvik, Noregi, en er hannað hjá Skipsteknisk A/S, Noregi. Helga II RE er þriðja nóta og togveiðiskipið, sem umrædd stöð afhendir íslenskum útgerðaraðilum á rúmu ári, hin fyrri eru Pétur Jónsson RE 69 og Hákon ÞH 250. Fyrrnefnd tvö skip voru smíðuð eftir sömu skrokkteikningu, en Helga II er stytt útgáfa af umræddum skipum, mesta lengd er um 6 metrum minni, sem einkum stafar af breyttri lögun á skut og stefni, auk um þriggja bandabila styttingu í smíðalengd.
Auk þess er Helga II smíðuð með perustefni. Megin fyrirkomulag er hliðstætt í skipum þessum, svo og véla- og vindubúnaður. Helga II er búin vinnslu- og frystibúnaði með aðaláherslu á bolfiskflakavinnslu og heilfrystingu á karfa og grálúðu, en fyrrnefnd skip eru sérstaklega búin til rækjuvinnslu. Hið nýja skip kemur í stað eldra skips með sama nafni, sem selt hefur verið úr landi. Helga II RE er í eigu Ingimundar hf. í Reykjavík. Skipstjóri á skipinu er Geir Garðarsson og yfirvélstjóri Kristján Bergsson. Framkvæmdastjóri útgerðar er Ármann Ármannsson.

Ægir. 11 tbl. 1 nóvember 1988.

Flettingar í dag: 1257
Gestir í dag: 115
Flettingar í gær: 421
Gestir í gær: 22
Samtals flettingar: 1191659
Samtals gestir: 83671
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:18:30