08.01.2018 06:43
B. v. Elliðaey VE 10. TFGC.
6. Elliðaey VE 10 við komuna til Vestmannaeyja hinn 8 september 1947. Ljósmyndari óþekktur.
B.v. Elliðaey VE 10 á siglingu við Vestmannaeyjar. Málverk eftir George Wiseman.
B.v. Elliðaey VE 10
8. september. Um kl. 6 að morgni hafði skipið lagst fyrir
akkeri á Víkinni. Þykkt loft en hægur andvari og yndislegt veður. Þegar á
morguninn líður er þjóðfáninn dreginn á stengur víða um bæinn og það birtir og
kemur glaðasólskin. Laust fyrir kl. 10 sést fjöldi af prúðbúnu fólki á götunum
og allir stefna í sömu átt, niður til hafnarinnar. Svo er Básaskersbryggjan
orðin þéttskipuð fólki og þegar bryggjan þrýtur er farið um borð í skip og
báta. Skipið á að leggjast austan að bryggjunni og þar hefur verið strengd
girðing. Ljósmyndarar taka sér stöðu þar sem bezt sér yfir, reiðubúnir til að
láta ekkert fara fram hjá auga myndavélarinnar. Hér glampar á hvítar húfur
Karlakórsins og Lúðrasveitarinnar. Og þarna úti á Víkinni er skipið, og nú fer
það að hreyfast, tekur hring og stefnir síðan inn á höfnina. Enn fjölgar á
bryggjunni, fleiri bílar og fólk tildrar upp á þá. Allir vilja sjá. Búðum og
skrifstofum hefur verið lokað og verkamenn, iðnaðarmenn, sjómenn og húsfreyjur
hafa tekið sér frí frá störfum til að vera viðstödd þegar þetta skip leggst að
bryggju. Og gleymum þá ekki börnunum. Skipið líður inn höfnina, hægt og hægt.
Ljósmyndararnir miða og hleypa af. Lúðrasveitin leikur. Nær færist skipið.
Maður sér einkennisstafna VE 10. og V í reykháf. Þegar skipið á nokkra faðma að
bryggju sést fyrsti stýrimaður Árni Finnbogason frammi í stafni með línu í
hendi, sem hann sveiflar upp á bryggjuna. Lúðrasveitin leikur Íslands
hrafnystumenn. Og eftir fáein augnablik eru landfestar bundnar. Fyrsti togari
Vestmannaeyjabæjar er í höfn.
Fyrirkomulagsteikning af B.v. Elliðaey VE 10. Úr safni mínu.
Atvinnu og sjávarútvegsmálaráðherra Jóhann Þ. Jósepsson stígur um borð og eftir
litla stund sér maður þá á brúarvængnum, ráðherrann, skipstjórann Ásmund
Friðriksson, forseta bæjarstjórnar Árna Guðmundsson og Ólaf Kristjánsson
bæjarstjóra. Ráðherrann flytur ræðu, afhendir skipið til eignar og yfirráða
Bæjarútgerðar Vestmannaeyja og árnar því fiskisældar og fararheilla. Árni
Guðmundsson flytur þakkir skipverjum svo og öllum þeim er stuðlað hafa að
hingaðkomu skipsins og færir því árnaðaróskir. Síðan þakkar skipstjóri
árnaðaróskirnar sér og skipverjum til handa. Þá er tilkynnt að skipið verði til
sýnis síðari hluta dags öllum þeim er vilja. Nú stígur Karlakórinn á skipsfjöl,
syngur nokkur lög og endar á þjóðsöngnum. Þegar þessu er lokið dreifist
mannfjöldinn og margir ganga brott. en æskulýðurinn hirðir hvorki um boð sé
bann, heldur stormar skipið og fyrr en varir er það krökt af forvitnum sálum.
Elliðaey er smíðuð í skipasmíðastöð Alexanders Hall í Aberdeen, og er stærst
þeirra nýbyggingartogara, sem enn hafa komið hingað til lands og hefur mestan
ganghraða. Stærð 649 smálestir og 177 fet á lengd, eða tveimur fetum lengra en
ráð var fyrir gert. Í reynzluför var hraðinn 14,13 sjómílur en vélin mældist
1.560 hestöfl og er það einnig meira en ráð var fyrir gert. Vistarverur allar
eru með myndarbrag, skip og tæki öll af því vandaðasta sem þekkist.
Útlitsteikning af B.v. Elliðaey VE 10. Mynd úr safni mínu.
Klukkan tvö
um daginn hafði útgerðarstjórn boð inni fyrir skipverja ásamt fleiri gestum.
Páll Þorbjarnarson útgerðarstjóri lýsti þar skipinu og kvað svo á, að Elliðaey
væri sennilega glæsilegasta fiskiskip, sem hlaupið hefði af stokkunum. Þá
talaði Jóhann Þ. Jósepsson, en varð síðan að yfirgefa samsætið því hann var á
förum til Reykjavíkur. Árni Guðmundsson , sagði frá því að árla þennan morgunn,
hefði hann mætt Ársæli Sveinssyni og hefði hann þá látið svo um mælt að þetta
væri fegursti morgunn ársins og tók Árni undir það, og bætti við að Ársæll
hefði sennilega sagt hið sama þótt rok og rigning hefði verið. Guðjón Scheving
talaði um störf þeirra manna, sem hér höfðu rutt brautina með því að hefja
mótorbátaútveg og taldi okkur menn að meiri, ef við fetuðum í fótspor þeirra að dugnaði og ráðdeild, er við nú hæfum þennan
nýja áfanga. Reis þá Ársæll á fætur og árétti það sem Árni hafði eftir honum
haft og kvað þó þann morgunn myndi fegurri verða er næsti togari Vestmannaeyja
sigldi í höfn. Allir ræðumenn létu árnaðaróskir dynja á skipi og skipverjum, en
Sigurður Stefánsson þakkaði fyrir þeirra hönd, en hann er einn hásetanna. Þegar
klukkan nálgaðist fjórða tímann fóru skipsmenn að tygja sig því nú átti
almenningur að fá að skoða skipið.
B.v. Elliðaey VE 10 á leið inn í Vestmannaeyjahöfn. Ljósmyndari óþekktur.
Bæjarbúar létu ekki á sér standa að grandskoða eign sína. Fólkið streymdi um
borð, inn í hvern krók og kima. Hvað er hér, hvernig er þar. Skipsmenn voru
hinir liprustu og opnuðu allar gáttir og hleyptu fólkinu inn. Þeir sem komu í
það allra helgasta, klefa skipstjóra fengu staup af víni ef vildu og var ekki
örgrannt að sumir kæmu góðglaðir upp úr skipinu, en meiri var vissulega sú
gleðin að yfirlíta sitt eigið skip, sem er þá svona glæsilegt. Gaman hefði
verið að vita hvað margir hafa stigið um borð þennan tíma frá 4-7 en það hefur
áreiðanlega verið meirihluti bæjarbúa. Um kvöldið var efnt til skemmtunar í
Samkomuhúsi Vestmannaeyja, var þar flutt stutt lýsing á skipinu og Lúðrasveitin
og Karlakórinn skemmtu. Síðan var stiginn dans til kl. 3 um nóttina. Fjöldi
fólks sótti þessar skemmtanir enda voru þær ókeypis. Bæjarbúar sýndu við þetta
tækifæri mikinn áhuga fyrir þessu fyrsta skipi sem er þeirra sameign. Var að
finna sem fólkið treysti því, að hin sameiginlega eign og rekstur væri hið
rétta fyrirkomulag slíks atvinnutækis. Ekki er að efa að við þetta skip eru bundnar
þær fögru vonir, að það megi verða lyftistöng undir bættan efnahag bæjarbúa og
þá um leið aukna menningu. Daginn eftir hingaðkomu skipsins hélt það til
Reykjavíkur og verða bræðslutæki sett í skipið þar, en síðan mun það halda á
haf út til veiða. Elliðaey, fylgi þér gæfa og gengi.
Eyjablaðið. 8 árg. 14 tbl. 19 september 1947.