14.01.2018 07:57
B. v. Hallveig Fróðadóttir RE 203. TFUE.
Togarinn lá í Reykjavíkurhöfn til 15 febrúar árið 1974 er skipið hélt til Spánar, en þangað hafði það verið selt til niðurrifs.
80. Hallveig Fróðadóttir RE 203 að koma til löndunar í Reykjavík. Skipið er vel ísað frá hvalbak og aftur að stjórnpalli eftir barninginn til lands. Ljósmyndari óþekktur.
Reykvískar konur fagna Hallveigu Fróðadóttur
Konur voru í meirihluta þeirra gesta, sem borgarstjóri bauð
að taka á móti þriðja togara bæjarútgerðarinnar og 29. nýsköpunartogaranum, sem
til landsins kemur. Er þetta jafnframt fyrsti dieseltogari, sem smíðaður er
fyrir íslendinga og ber nafn fyrstu íslensku húsfreyjunnar, Hallveigar
Fróðadóttur. Er þetta hið fríðasta skip, búið öllum bestu siglingartækjum, en
um leið nýung í togaragerð, sem menn vænta sjer mikils af. Vegna þess hve
vjelar skipsins taka lítið rúm og eldsneytisbirgðir eru minni en hjá gufuknúnu
togurunum, ber "Hallveig Fróðadóttir" jafnmikið af fiski og stærstu
nýsköpunartogararnir, þó skipið sje 5 fetum styttra en nýju togararnir af minni
gerðinni. B.v. Hallveig Fróðadóttir lagðist við bryggju um 8 leytið í
gærkvöldi. Gunnar Thoroddsen borgarstjóri bauð skipið, skipstjóra og skipshöfn
velkomið í höfn. Borgarstjóri rakti í fáum orðum togarakaup Reykjavíkurborgar
og gat þess, að með þessu skipi væri gerð tilraun, sem menn vonuðust til að
gæfist vel. Tveimur fyrri togurum bæjarins hefði verið valin nöfn þeirra manna
sem hæst bæru í sögu höfuðstaðarins, Ingólfs Arnarsonar og Skúla Magnússonar og
færi vel á því, að þetta nýja skip bæri nafn
fyrstu landnámskonunnar.
B.v. Hallveig Fróðadóttir RE í reynslusiglingu. (C) Goole S.B. & Repg. Co Ltd.
Frú Arnheiður Jónsdóttir. varaformaður fjáröflunarnefndar Hallveigarstaða tók
næst til máls og fagnaði skipinu og skipshöfninni, þakkaði bæjarstjórn fyrir
nafnið og færði skipstjóra blómakörfu. Gísli Jónsson alþingismaður lýsti
skipinu, og þeim góðu tækjum, sem það er búið. Frú Guðrún Jónasson, formaður
Slysvarnadeildar kvenna í Reykjavík, tók næst til máls og afhenti skipstjóra
silfurskjöld frá deildinni. Á skjöldinn er letrað fagnaðarorð og skipi og
skipshöfn óskað gæfu og gengis. Bað frúin skipstjóra aft setja skjöld þennan í
skipið, þar sem hann kysi. Jón Axel
Pjetursson, framkvæmdarstjóri útgerðarinnar ræddi um þá merkilegu tilraun, sem
gerð væri með smíði þessa skips og sagði
að vel færi á, að höfuðstaður Íslands rjeðist í að gera þá tilraun. Þakkaði hann
sjerstaklega þann stuðning sem Gísli Jónsson alþingismaður og Erlingur
Þorkelsson, vjelfræðingur hefðu átt í smíði skipsins og mætti kalla Gísla
höfund skipsins, ef svo væri hægt að komast að orði. Skipstjórinn, Sigurður
Guðjónsson, þakkaði heimsókn gestanna og heillaóskirnar í garð skips og skipshafnar,
en að lokum mælti frú Steinunn Bjarnason nokkur orð, en hún er formaður framkvæmdanefndar
Hallveigarstaða og hefur staðið framarlega í þeim fjelagsskap frá byrjun. Að
ræðuhöldum loknum þáðu gestir veitingar í matsölum skipsins, sem eru rúmgóðir
og hinir vistlegustu, eins og skipið allt. Skipverjar ljetu vel yfir hve skipið
hefði reynst vel á heimleiðinni. Fjekk það að vísu gott veður og reyndi ekki á
það í slæmu veðri, en hinir þaulvönu sjómenn, sem þar eru í hverju rúmi finna
fljótt, hvernig skip fer í sjó. Á leiðinni heim var "kastað" til að reyna
veiðarfæri og þó einkum spilið og reyndist það vel í alla staði.
B.v. Hallveig Fróðadóttir RE 203 á leið í veiðiferð. (C) Ragnar Franzson.
Í lýsingu Gísla Jónssonar alþingismanns á skipinu kom það fram, að "Hallveig
Fróðadóttir' er merkileg nýung í togarasmíði og þótt dieseltogarar hafi verið
reyndir með öðrum þjóðum eru svo margar nýungar í þessu skipi, að um fullkomna
nýung er að ræða. Vjel skipsins, sem framleiðir 1.200 hestöfl, knýr bæði skrúfu
skipsins og togvindu. Togvindan er þannig gerð, að verði þunginn of mikill,
vegna festu, eða af öðrum ástæðum, stöðvast hún sjálfkrafa og veitir það aukið
öryggi og ætti að koma í veg fyrir að veiðarfæri rifni. Skipið er byggt
samkvæmt ströngustu kröfum Lloyds. Það er 170 feta langt, 29,5 fet á breidd og
15,5 fet á dýpt. Það er 621 lest brúttó og 202 smálestir nettó. Skipinu er
skipt í fjölda vatnsþjett hólf, en plötur í byrðing eru allar rafsoðnar.
Nokkrar af lestum skipsins eru klæddar aluminium, sem er nýung og kælivjelar
halda æskilegu kuldastigi í fiskilestum.
Hallveig ber 360 smálestir af fiski eða 60 smálestum meira en
nýsköpunartogararnir af minni gerðinni, en jafnmikið og togarar okkar af stærri
gerð. Í skipinu eru tveir dýptarmælar og ratsjártæki, rafmagnshraðamælir og
önnur siglingartæki af nýjustu gerð. Ganghraði er 13 mílur og í reynsluför gekk
skipið 13,3 sjómílur.
Morgunblaðið. 1 mars 1949.
B.v. Hallveig Fróðadóttir RE 203 í Reykjavíkurhöfn. (C) Úr safni Tryggva Sigurðssonar.
Hallveig
Fróðadóttir RE 203
Fyrsti
dieseltogari Íslendinga
Hinn 28. febrúar síðastliðinn lagðist hér að bryggju fyrsti
dieseltogarinn, sem íslendingar eignast. Er það þriðji togari bæjarútgerðar
Reykjavíkur, en tuttugasti og níundi nýsköpunartogarinn, sem til landsins
kemur. Skipinu var fagnað með mikilli viðhöfn, eins og vonlegt var, þar eð hér
var um merkilegan atburð að ræða í íslenzkri útgerðarsögu. Einkum sýndu konur
þessum nýja "landnámstogara", er heitir eftir fyrstu húsfreyju
Reykjavíkur, mikinn og margvíslegan sóma. Gunnar Thoroddsen borgarstjóri bauð
skip og skipshöfn velkomna með ræðu og árnaði þeim allra heilla. Þá talaði
Arnheiður Jónsdóttir, varaformaður fjáröflunarnefndar Hallveigarstaða. Næstur
talaði Gísli Jónsson, alþingismaður, en hann hefur, ásamt Erlingi Þorsteinssyni
vélfræðingi, haft umsjón með smíði skipsins. Lýsti hann ýtarlega gerð skipsins
og kostum þess. Frú Guðrún Jónasson færði skipinu að gjöf silfurskjöld með
áletruðum heillaóskum frá Kvennadeild Slysavarnafélagsins og árnaði því heilla
og blessunar. Jón Axel Pétursson, framkvæmdastjóri, talaði næstur og þá frú
Steinunn Bjarnason, formaður framkvæmdanefndar Hallveigarstaða. Vitnaði hún í
orð Þorkels mána og fól skipið þeim er sólina hefur skapað. Að lokum talaði
skipstjórinn, Sigurður Guðjónsson, og þakkaði f. h. skipverja árnaðaróskir.
B.v. Hallveig Fróðadóttir RE 203. Glæsilegt þetta líkan af skipinu. (C) Þórhallur S Gjöveraa.
Hallveig Fróðadóttir er smíðuð í Goollskipasmíðastöðinni í Hull. Lengd skipsins
er 170 fet, breidd 29,5, dýpt 15,5. Brúttó rúmlestir 621, en undir þilfari 479.
Það er 202 nettólestir. Rúmtak fisklesta er 18 þús. teningsfet.
Eldsneytisgeymar rúma 150 tonn, vatnsgeymar 52 tonn, lýsisgeymar 33 tonn.
Aðalvél er fimm cylindra og hefur 1.200 hestöfl. Hún er útbúin vökvatengi ásamt
niðurfærslu og skiptigírum, mesti snúningshraði er 435 á mín. Aðalvélin drífur
einnig 220 kw. rafal er gefur togvindunni afl. Togvindan hefur 270 hestöfl og
er útbúin tveim hraðrofum svo hægt er að stöðva hana fyrirvaralaust. Í
vélarrúmi er auk aðalvélar 20 kw. vélasamstæða og ein 15 kw. Þá eru einnig
sjódælur, austursdælur, brennsluolíudælur, neyzluvatnsdælur, smurolíudælur,
skilvindur og olíuhreinsari. Þá er olíukynntur eimketill fyrir lifrarbræðslu,
en bræðslutækin eru smíðuð í Héðni hér heima. Afturlest skipsins er klædd innan
með aluminíum, er það gert til reynslu. Báðar lestir eru útbúnar kælitækjum.
íbúðir skipverja eru mjög með svipuðu sniði og í öðrum nýsköpunartogurum, með
setustofu, baði, skápum og geymsluklefa. Í stafni eru íbúðir fyrir 24 menn, en
alls eru í skipinu vistarverur fyrir 38 manns.
Fyrirkomulagsteikning af Hallveigu Fróðadóttur RE 203. Mynd úr safni mínu.
Í matsal geta 15 matazt í einu.
Þá er einnig sjúkraklefi í skipinu. Tveir dýptarmælar eru í því, ennfremur
radartæki. Skipið fór á flot 4. september og var afhent 11. Febrúar. Það gekk
rúmar 13 sjómílur í reynsluför. Skipstjóri er Sigurður Guðjónsson, 1.
stýrimaður Jón Júlíusson og 1. vélstjóri Óskar Valdimarsson. Hallveig
Fróðadóttir mun vera fullkomnasti dieseltogari, sem smíðaður hefur verið, enda
hefur skipið vakið mikla athygli erlendis. Sjómanna- og fiskimannamálgögn í
Bretlandi og víðar hafa birt um það greinar og allnákvæmar lýsingar. Verður
fróðlegt og lærdómsríkt að fylgjast með því, hvernig þetta nýja skip reynist.
Allar góðar óskir fylgja því, hvar sem það fer um höfin.
Sjómannablaðið Víkingur. 1 apríl 1949.
Landað úr Hallveigu í Reykjavík. Ljósmyndari óþekktur.
Sex
fórust, átta á sjúkrahúsi
Talið
að sprenging hafi orðið við vistarverur frammi í
Hallveigu Fróðadóttur
"Við trúum þessu ekki ennþá," var það eina, sem
Guðbjörn Jensson, skipstjóri, gat sagt við fréttamann Morgunblaðsins, þegar
Hallveig Fróðadóttir lagðist að í Keflavík í gær með lík sex skipverja um borð.
Skipverjarnir sex köfnuðu, þegar eldur og reykur komust í vistarverur þeirra
frammi í skipinu um fjögurleytið í fyrrinótt en þá var togarinn staddur 9-10
sjómílur SV af Malarrifi á siglingu til veiða. Þeir, sem fórust, voru
hásetarnir:
Pétur Jónsson, Njálsgötu 20, 41 árs, sem lætur eftir sig konu og 7 börn á
aldrinum 12-19 ára.
Eggert Kristjánsson, Höfðaborg 3, 38 ára, sem lætur eftir sig unnustu og föður.
Dórland Jósepsson, Flókagötu 64, 32 ára Vestur-íslendingur, sem lætur eftir sig
föður búsettan í Winnepeg.
Kjartan Sölvi Agústsson, Ljósheimum 10, fertugur að aldri og einhleypur.
Sigurður Ingimundarsson, Nönnustíg 10, Hafnarfirði, 38 ára og lætur eftir sig
móður.
Óskar Sigurbjarni Ketilsson, Gestshúsum Álftanesi, 48 ára, einhleypur en lætur
eftir sig móður.
Lík skipverjanna 6 borin á land í Keflavík. Ljósmyndari óþekktur.
Níu skipverjar af Hallveigu Fróðadóttur voru fluttir í Slysavarðstofuna í
Reykjavík, þar sem þeir höfðu allir orðið fyrir kolsýringseitrun. Einn þeirra
fékk að fara heim af Slysavarðstofunni en átta voru lagðir inn í
lyflækningadeild Borgarsjúkrahússins. Í gærkvöldi var líðan þeirra eftir atvikum
góð og þeir á batavegi. Þessir átta skipverjar voru allir frammi í, þegar
eldurinn kom upp.
Hallveig Fróðadóttir RE-203 lét úr Reykjavíkurhöfn um miðnætti í fyrrinótt á
veiðar. Um kl. 4 þegar skipið var statt 9-10 sjómílur suðvestur af Malarrifi,
virðist skyndilega hafa orðið sprenging frammi í skipinu, og mikinn reyk lagði
upp um lúkarsdyrnar stjórnborðsmegin. Njáll Gíslason, háseti, var á stýrisvakt,
þegar þetta gerðist, og sagði hann Morgunblaðinu svo frá: "Ég heyrði enga
sprengingu, en skyndilega sá ég reykjarsúlu rísa upp frammi á skipinu, og svo
bjarmaði fyrir eldi." Talið er, að sprenging hafi orðið við lúkar frammi
í. Þar sem rannsókn á upptökum eldsins er enn ólokið er ekki ljóst, hvort
sprengingin stafaði af kynditæki, sem er í eldtraustum klefa aftan við neðri
lúkarinn, eða einhverju öðru.
Eldurinn kom upp í íbúðum skipverja undir hvalbak skipsins. (C) Þórhallur S Gjöveraa.
Fjórtán menn voru í íbúð skipverja frammi í þegar þetta gerðist, sex í efri
lúkar og 8 í þeim neðri. Nokkrir þeirra voru í fasta svefni, en aðrir vakandi
og vöktu þeir félaga sína. Sex mönnum tókst ekki að komast út, því reykkófið
var svo mikið og hættulegt, sagði bandaríski sjúkraliðinn, sem fór um borð í
togarann, þriggja til fjögurra mínútna dvöl í slíku reykkófi banvæna.
Skipverjar hófu þegar slökkvistarf og dældu sjó á eldinn. Skömmu seinna kom
Höfrungur II AK, á vettvang og síðar björgunarskipið Elding og Skírnir AK og
aðstoðuðu þau við slökkvistarfið. Skipverjar á Skírni settu slöngur um borð í
Hallveigu, og skipverjar á Eldingunni fóru um borð í froskmannsbúningum, og
tókst með þeim hætti að vaða reykinn og komast betur að eldinum. Þá hafði
slökkviliðið í Reykjavík samband við togarann og leiðbeinti um slökkvistarfið,
sem var mjög hættulegt, þar sem um olíueld var að ræða. Hafsteinn Jóhannsson á
Eldingu tjáði Mbl. að hann hefði komið að Hallveigu laust eftir kl 5. "Mjög mikill reykur var þá frammi í
sikipinu, en lítiíl eldur að því er virtist og var hann einkum í efri
lúkarnum". Klukkan 8.45 kom varðskipið Þór á vettvang. Logaði þá aðeins í
einangrun undir hvalbaknum. Tveir varðskipsmenn fóru um borð í Hallveigu með
slökkvidælu og skömmu síðar tókst að ráða niðurlögum eldsins. Slysavarnarfélagi
Íslands barst tilkynning um eldinn í togaranum um sex leytið í gærmorgun. Að
sögm Hannesar Hafstein, fulltrúa hjá SVFÍ, var þá þegar haft samband við
slökkviliðið og varnarliðið á Keflavíkurflugvelli til að kanna, hvort ekki væri
hægt að koma slökkviliðsmönnum og sjúkraliða með einhverjum hætti um borð í
Hallveigu Fróðadóttur. Varnarliðið ljáði fúslega herþyrlu til þessarar ferðar,
og voru tveir íslenzkir slökkviliðsmenn og sjúkraliði frá Varnarliðinu fenignir
til að fara með þyrlunni.
B.v. Hallveig Fróðadóttir RE 203 á siglingu. (C) Ringi. (Róbert Ingi Guðmundsson).
"Við fórum með þyrlunni um átta leytið frá Keflavíkurflugvelli og vorum komnir
yfir varðskipið, sem statt var hjá togaranum um níu leytið", tjáði
Ástvaldur Eiríksson, annar slökkviliðsmannanna, Mbl. í gær. "Frá varðskipinu
vorum við fluttir yfir í togarann í gúmbát. Við höfðum meðferðis
reykköfunarbúninga og okkur tókst að komast niður í lúkarinn og ná mönnunum
sex. Bandaríski sjúkraliðinn tók á móti þessum mönnum um leið og við komum með þá
upp, og gerði hann þegar á þeim lífgunartilraunir, en án árangurs". Þessu
næst fóru íslenzku slökkviliðsmennirnir aftur um borð í Þór, en bandaríski
sjúkraliðinn varð eftir um borð í Hallveigu Fróðadóttur. Varðskipsmaður var
einnig eftir í togaranum með slökkvidælu. Um kl. 11 héldu Þór og Hallveig
Fróðadóttir áleiðis til Keflavíkur, og komu þangað um þrjú leytið. Setti
varðskipið slökkviliðsmennina þar í land, og hélt að því búnu til Reykjavíkur.
Hallveig Fróðadóttir lagðist að bryggju skömmu eftir að varðskipið fór. Þar
fóru í land skipverjarnir níu, sem fluttir voru í Slysavarðstofuna í Reykjavík
og tekin voru í land lík skipverjanna sex, sem fórust í eldinum. Að því loknu
hélt togarinn einnig til Reykjavíkur. Tjónið um borð í Hallveigu Fróðadóttur varð
talsvert, en þó minna en álitið var í fyrstu.
Hallveig Fróðadóttir RE-203 er systurskip Jóns Þorlákssonar RE, og eru þau
fyrstu nýsköpunartogararnir, sem búnir voru dísilvélum. Á mánudag kom Hallveig
Fróðadóttir úr söluferð til Þýzkalands, þar sem hún seldi fyrir tæplega 150
þúsund mörk. Sjópróf vegna slyssins eru haldin í Reykjavík í dag.
Morgunblaðið. 7 mars 1969.