03.02.2018 09:53
Sæfell SH 210. TFBY.
Nýr bátur
til Ólafsvíkur
Ólafsvík, 16. Janúar. Ellefti báturinn, sem hóf róðra héðan
á þessari vertíð, var nýr bátur, Sæfell SH 210. Hann er byggður í Travemunde í
Vestur Þýzkalandi og kom til landsins upp úr áramótunum. Eigendur bátsins eru
Guðmundur Jensson skipstjóri og Kaupfélagið Dagsbrún í Ólafsvík. Báturinn er 75
tonn að stærð, búinn 380 ha. vél og öllum fullkomnustu siglinga og
fiskileitartækjum og hinn vandaðasti að öllum frágangi. Gunnar Valgeirsson
skipstjóri sigldi bátnum til landsins og reyndist báturinn í þeirri ferð hið
bezta skip. Guðmundur Jensson verður skipstjóri á Sæfelli. Hann er 48 ára að
aldri. Hann hóf sjómennsku á unga aldri, varð fyrst formaður á 10 tonna báti,
Hrönn, sem hann átti í félagi með stjúpa sínum, Jóhanni Kristjánssyni. Hann
hefur ávallt síðan verið formaður og útgerðarmaður, skipt um farkost og fylgi
þeirri þróun, sem orðið hefur í útvegsmálum Ólafsvíkur. Hann hefur í alla staði
verið hinn farsælasti maður í sínu starfi.
Ólafsvíkurbúar fagna hinu nýja skipi og óska eigendum þess, skipstjóra og áhöfn
til hamingju með það.
Alþýðublaðið. 22 janúar 1960.
Leitað var
að Sæfelli í allan gærdag
Vélbáturinn Sæfell SH 210 er týndur. Ekkert hefur spurzt til
bátsins síðan á miðnætti á laugardag, þegar hann var staddur austur af
Hornbjargi á leið frá Akureyri til Flateyrar, þar sem hann er gerður út. Á
bátnum eru 3 menn. Mjög víðtæk leit er hafin úr lofti, á sjó og landi, en hún
hafði ekki borið árangur seint í kvöld. Leitarskilyrði úr lofti voru afleit í
dag, en bátar frá Ísafirði og varðskip hafa leitað á Húnaflóa og út af
Hornströndum. Leitarveður hefur verið slæmt og bátarnir orðið að halda sig
langt frá landi. Verið er að athuga um möguleika á að leita fjörur á Ströndum,
en það er erfitt vegna þess að Strandir eru að mestu í eyði. Vitavörðurinn á
Hornbjargi, Jóhann Hjálmarsson verður fenginn til að leita fjörur frá Horni
suður á Barðsvík, en fólk á Dröngum, sem er bær norðan Ófeigsfjarðar, fengið
til- að leita þaðan í Geirhólm í Reykjafjörð nyrðri, en 6 manna leitarflokkur
fari frá Ísafirði og verði kominn um Skorarheiði í Furufjörð á Ströndum á
morgun. Þar mun flokkurinn skipta sér í tvennt og annar hópurinn leita norður
að Barðsvík og hinn í suður að Geirhólmi. Talið er að birtan nægi til að
flokkarnir komist yfir þetta svæði. Eins og fyrr er sagt var leitarveður í
lofti og á sjó slæmt í dag, en leitinni verður að sjálfsögðu haldið áfram á morgun.
Verði gott skyggni, mun flugvél "kemba" ströndina alls staðar þar sem
mögulegt er að bátinn hefði borið að landi.
Sæfell er 74 tonna bátur, smíðaður í Travemunde í Þýzkalandi árið 1959. Hann
var fyrst eign kaupfélagsins Dagsbrúnar á Ólafsvík, en var seldur til Flateyrar
vorið 1963. Verið var að setja hvalbak á bátinn á Akureyri, en hann áætlaði að
vera kominn til Flateyrar í gærmorgun.
Alþýðublaðið. 13 október 1964.
Sæfellið
talið af
Fullvíst er nú talið að vélbáturinn Sæfell SH 210, hafi
farizt og með honum þrír menn. Eins og frá hefur verið skýrt í blaðinu hefur
ekkert spurzt til skipsins síðan á miðnætti aðfaranótt sunnudagsins, en þá var
það statt um 20-30 mílur austur af Horni á leið frá Akureyri til Flateyrar, en
þangað var skipið keypt fyrir stuttu. Umfangsmikilli leit hefur verið haldið
uppi á landi og sjó og úr lofti, en ekkert hefur fundizt er gefið gæti til
kynna, hver afdrif skipsins hafa orðið.
Síðast í dag leituðu varðskipsmenn það strandsvæði vestan Horns, sem leitað var
úr lofti. en árangurslaust. Með Sæfelli voru þrír menn. Þeir voru:
Haraldur Olgeirsson, skipstjóri, Flateyri, lætur eftir sig konu og þrjú börn.
Sævar Sigurjónsson, ættaður frá Hellissandi en nýfluttur til Flateyrar. Lætur
eftir sig konu og eitt barn. Ólafur Sturluson, Breiðdal í Önundarfirði,
ókvæntur.
Tíminn. 16 október 1964.