04.02.2018 08:57

740. Sigrún AK 71. TFZQ.

Vélskipið Sigrún AK 71 var smíðuð í Strandby í Danmörku árið 1946 fyrir Sigurð Hallbjarnarson h/f á Akranesi. Eik. 65 brl. 240 ha. Tuxham vél. Ný vél (1957) 280 ha. MWM díesel vél. Seld 7 mars 1962, Keflavík h/f í Keflavík, hét Sigurbjörg KE 98. Seld 31 október 1971, Sigurði H Brynjólfssyni og Andrési Guðmundssyni í Keflavík, hét Sigurbjörg KE 14. Ný vél (1973) 370 ha. Gummins vél. 4 janúar 1977 var Sigurður Brynjólfsson einn eigandi bátsins. Seld 2 júní 1977, Heimi h/f og Högna Felixsyni í Keflavík, sama nafn og númer. Seld 22 október 1981, Svavari Péturssyni á Kópaskeri, hét Sigrún KE 14. Talin ónýt og tekin af skrá 4 nóvember árið 1986.
Sigrún AK var hætt komin í miklu óveðri sem gekk yfir landið í byrjun janúar árið 1952. Fékk skipið á sig marga brotsjói sem ollu miklu tjóni á skipinu, auk þess að einn skipverja tók út í einu brotinu en var bjargað naumlega af skipsfélögum sínum um borð aftur. Í þessu sama veðri fórst vélskipið Valur AK 25 frá Akranesi og með honum áhöfnin, 6 menn.


Sigrún AK 71 að landa síld á Siglufirði.                                                                (C) Bjarni Árnason.


                   M.b. Sigrún AK 71

Bætzt hefur nýr bátur við flotann, mb. Sigrún, ca. 66 tonn að stærð. Báturinn er eign dánarbús Sigurðar Hallbjarnarsonar. Hann var smíðaður í Strandby í Danmörku, og pantaður af Sigurði löngu áður en hann dó. Í bátunm er 240 hk. Tuxham vél. Skipstjóri á bátnum hingað var Árni Riis. Með bátinn verður Guðmundur Jónsson í Laufási, en vélamaður Hafliði Stefánsson. Báturinn reyndist vel og er hinn traustlegasti.

Akranes. 6 árg. 1 janúar 1947.


Sigurbjörg KE 98.                                                                                      (C) Hafsteinn Jóhannsson.


740. Sigrún AK 71. Líkan Gríms Karlssonar skipstjóra í Duus húsi.            (C) Þórhallur S Gjöveraa.

 
      Mesta stórviðri vetrarins gekk hér yfir í                               fyrrinótt og gærdag

Seint í gærkvöldi voru tveir Akranesbátar ókomnir að landi, en þeir fóru í fyrrakvöld í róður á svonefnd Akranesmið. Þetta eru vélskipin Sigrún, skipstjóri Guðmundur Jónsson og Valur, skipstjóri Sigurður Jónsson. Síðast bárust fregnir af bátunum um hádegisbilið.

Morgunblaðið. 6 janúar 1952

Mb. Sigrún lenti í miklum hrakningum í veðrinu

         Þrír brotsjóir riðu á bátinn, brutu hann og                                    skipverjar slösuðust
                          Stýrimanninn tók út

Akranesi, 7 Janúar. Um kl. 8 á sunnudagskvöld kom vélbáturinn Sigrún hingað til Akraness, í fylgd með varðskipinu Þór. Hafði báturinn lent í miklum hrakningum í fárviðrinu og laskazt mjög. Þrisvar riðu brotsjóir yfir bátinn, sem er 65 brúttólestir. Tveir skipverjar höfðu meiðzt. Einn hafði tekið út, en honum tókst að halda sér á sundi í stórsjó unz skipsfélögum hans tókst að bjarga honum. Í dag átti ég samtal við Guðmund Jónsson skipstjóra um þessa hrakninga hans og manna hans. Sigrún fór í róður frá Akranesi um miðnætti aðfaranótt laugardags. Var báturinn kominn á miðin eftir 3 k!st. siglingu og lína lögð. Var vindur þá af suðaustri og fór vaxandi eftir því, sem á nóttina leið. Um morguninn herti veðrið enn. Milli kl. 10 og 10,30 gekk vindur til suðvesturs með roki, Tók þó út yfir, er vindur gekk til vesturs með haugasjó og fádæma veðurofsa. Aðeins tvö bjóð tókst að draga en þá var lagt af stað til lands.


Sigrún AK 71 eftir hrakningana í janúar 1952.                                                 (C) Rafn Sigurðsson.

Um kl. 11,30, þegar þeir eru nýlagðir af stað heim, reið brotsór stjórnborðsmeginn á bátinn, aftan til og færði hann á kaf um stund. Braut ólagið mest allan öldustokkinn. Allir gluggar í stýishúsi brotnuðu og fyllti það af sjó. Guðmundur Jónsson skipstjóri var þar einn inni. Sjór fyllti einnig skipstjóraherbergið, en þar inni var talstöðin og varð hún óvirk eftir það. Fyrr um morguninn hafði ólag brotið léttbátinn og kabyssurörið. Á þilfari voru þeir Gunnar Jörundsson, I. vélstjóri og Trausti Jónsson, háseti. Báðir köstuðust þeir á togvindu bátsins og mörðust nokkuð. Eftir að stóra ólagið hafði riðið yfir, tók Guðmundur skipstjóri þann kostinn að snúa bátnum upp í veðrið og andæfa gegn því. Þannig héJt hann bát sínum upp í veðrið allan laugardaginn og aðfaranótt sunnudagsins, þar til klukkan 8 á sunnudagsmorgun.
Var hann þá kominn suður í Miðnessjó, suður á móts við Sandgerði. Þá slær skipstjóri bát sínum undan veðrinu og heldur djúpt fyrir Garðskaga. Um kl. 1 voru þeir í Garðsskagaröst. Stóð þá stýrimaður, Þórður Sigurðsson uppi á vélahúsinu, framan við stýrishúsið. Hann var að skyggnast til lands. Reið þá enn sjór yfir bátinn og braut þá það litla sem eftir var af bakborðsöldustokknum og skolaði stýrimanni fyrir borð. Þar sem hann stóð, hélt hann sér í handrið á stýrishúsinu, en svo þungur var sjórinn, að Þórður missti takið. Um leið og hann losnaði greip hann sundtökin. Kristján Friðreksen II. vélstjóri, sá, er Þórður fór fyrir borð. Kallaði hann þá til skipstjóra. Guðmundur skipstjóri setti þá undireins á fulla ferð, og snýr bátnum. Þórður hélt sér á sundi og tókst Guðmundi að leggja að manninum við fyrstu atrennu. Voru þá Kristján og Ásgeir Ásgeirsson matsveinn á þilfari með krókstjaka og tókst með snarræði að innbyrða Þórð, um leið og báturinn renndi að honum.


740. Sigrún AK 71. Líkan Gríms Karlssonar í Duus húsi.                         (C) Þórhallur S Gjöveraa.

Er nú ferðinni haldið inn fyrir Garðsskaga. Þá mæta þeir varðskipinu Þór, sem var að leita bátanna sem úti voru. Fylgdi hann bátnum alla leið til Akraness. Var komið hingað heim um kl. 5 á sunnudagskvöldið. Fagnaði mikill mannfjöldi skipverjum á bryggjunni. Allan tímann höfðu þeir ekki getað tekið upp eld vegna þess að rörið brotnaði. Voru þeir blautir orðnir og þrekaðir. Þórður stýrimaður átti þurr föt til að fara í, er honum hafði verið bjargað. Hresstist hann furðu fljótt. Guðmundur skipstjóri sleppti varla stýrinu allan þennan tíma í opnu stýrishúsinu. Leikur ekki á tveim tungum, að hann og skipshöfn hans hafa unnið hið mesta þrekvirki. Vélin stöðvaðist aldrei. Skipstjórinn bað mig að lokum að færa Eiríki Kristóferssyni skipherra og skipshöfninni á Þór, þakkir sínar og manna sinna, fyrir fylgdina heim til Akraness og fyrir örugga leiðsögn upp að hafnarinnsiglingunni.

Morgunblaðið. 8 janúar 1952.

Flettingar í dag: 377
Gestir í dag: 15
Flettingar í gær: 491
Gestir í gær: 29
Samtals flettingar: 1090792
Samtals gestir: 79489
Tölur uppfærðar: 13.1.2025 22:42:16