07.02.2018 18:16

334. Björg SU 9. TFON.

Vélbáturinn Björg SU 9 var smíðuð í Svíþjóð árið 1940. Eik. 55 brl. 150 ha. Saffle vél. Eigandi var Björg h/f á Eskifirði frá 20 október 1945. Ný vél (1957) 240 ha. GM díesel vél. Báturinn var endurbyggður í Neskaupstað árið 1960. Seldur 2 júní 1970, Ver h/f í Stykkishólmi, hét Ingibjörg KE 114. Ný vél (1973) 340 ha. GM díesel vél. 4 maí 1976 hét báturinn Ingibjörg SH 142. 21 ágúst 1977 kom upp mikill eldur í bátnum þegar hann var um 10 sjómílur út af Öndverðarnesi á Snæfellsnesi. Áhöfnin bjargaðist í gúmmíbjörgunarbát og var bjargað þaðan um borð í vélskipin Gunnar Bjarnason SH 25 frá Ólafsvík og Þorlák ÁR 5 frá Þorlákshöfn. Báturinn var talinn ónýtur eftir brunann og tekinn af skrá 15 ágúst árið 1979.

Björg SU 9 á leið inn til Vestmannaeyja.                                            (C) Ljósmyndasafn Eskifjarðar.


      Ingibjörg SH stórskemmdist í eldi

 M/b Ingibjörg SH 142 stórskemmdist í eldi á sunnudag, er báturinn var á leið á togveiðar. Ekki verður annað séð en allar innréttingar í stýrishúsi og siglingatæki séu ónýt og einnig eru miklar skemmdir niður um bátinn. M/b Ingibjörg er 50 lestir að stærð og bar lengi það landskunna nafn Björg SU. Eldurinn kom upp um klukkan átta á sunnudag, er báturinn var staddur 8-10 mílur úti af Öndverðarnesi. Eldurinn mun hafa komið upp í vélarrúmi eða káetu og breiddist hann mjög ört upp um stýrishúsið að sögn skipstjórans, Jakobs Daníelssonar.
Jakob var einn staddur aftur á, en aðrir skipverjar þrír talsins, sváfu frammi í. Jakob rétt náði að kalla út eftir aðstoð, en síðan vakti hann mennina og fór áhöfnin í gúmbjörgunarbát, þar sem ekki var vært um borð fyrir hita og vegna sprengihættu. Þorlákur ÁR og Gunnar Bjarnason SH komu fljótt til aðstoðar og Iögðu að Ingibjörgu. Tókst skipverjum að kæfa eldinn og tók Þorlákur Ingibjörgu í tog til lands. Á leiðinni gaus eldurinn aftur upp, en var slökktur. Engin slys urðu á mönnum.

Morgunblaðið. 23 ágúst 1977.



Flettingar í dag: 221
Gestir í dag: 30
Flettingar í gær: 2446
Gestir í gær: 98
Samtals flettingar: 1074599
Samtals gestir: 77505
Tölur uppfærðar: 26.12.2024 17:21:51