10.02.2018 07:45

981. Hrísey SF 41. TFFA.

Vélskipið Hrísey SF 41 var smíðuð hjá Marstad Træskibsværft í Marstad í Danmörku árið 1965 fyrir Fiskiver h/f á Akranesi, hét þá Sigurfari AK 95. Eik. 111 brl. 495 ha. Lister díesel vél. Sama ár var Sigurfari s/f á Akranesi skráður eigandi skipsins. Selt 1 nóvember 1971, Skipanausti h/f í Grindavík, hét Reykjaröst GK 17. Var endurmælt sama ár, mældist þá 104 brl. Selt 1 desember 1976, Sigurði s/f í Stykkishólmi, hét Sigurður Sveinsson SH 36. Selt 10 febrúar 1978, Vogi h/f á Djúpavogi, hét þá Illugi SU 275. Selt 18 apríl 1980, Guðna Sturlaugssyni í Þorlákshöfn, hét Sturlaugur ll ÁR 7. Selt 20 janúar 1983, Heinabergi h/f á Höfn í Hornafirði, hét Heinaberg SF 41. Ný vél (1987) 519 Kw. Caterpillar díesel vél. Talið ónýtt og tekið af skrá 20 ágúst árið 1991.


Hrísey SF 41 við bæjarbryggjuna í Neskaupstað. 226. Beitir NK 123 liggur að utanverðu.
(C) Sigurður Arnfinnsson.

       Talstöðin dró stutt vegna ísingar  

Akranesi, 3 marz. Hávaða norðan rok var hér í gær og svo mikið ónæði á miðunum, að 6-7 bátar, sem á sjó voru, gátu ekki dregið nema nokkrar af trossunum og urðu frá að hverfa. Aflinn var 42 tonn alls. Sigurfari, AK. 95, skipstjóri Jóhannes Guðjónsson, nýr 120 tonna bátur með 500 ha. Lister-diesel vél, eign Fiskivers h.f. á leið hingað til lands í norðan rokinu, var í gær beðinn af útvarpinu að hafa samband við Vestmannaeyjaradíó. Jóhannes skipstjóri talaði í morgun við konu sína, Fjólu Guðbjartsdóttur, Skólabraut 28. Sagði Jóhannes að þeir hefðu náð í veðrinu undir Mýrdalssand og lægju þar við akkeri. Þegar útvarpið kallaði, dró sendistöð þeirra örstutt vegna ísingar á stögum og stöng, en þeir náðu sambandi við nærstaddan bát, er talaði fyrir þá og komu boðum í land. Bergur, bróðir Jóhannesar var með honum að sigla bátnum til landsins.

Morgunblaðið. 4 mars 1965.


Sigurfari AK 95 á veiðum.                                                                         (C) Hafsteinn Jóhannsson.

                   Sigurfari AK 95

Nýlega kom nýr bátur til Akraness, er það ms. Sigurfari AK 95, eign Fiskivers h/f. Bátur þessi er byggður úr eik, hjá Marstad Træskibsværft í Danmörku. Mesta lengd bátsins er 94 fet eða sama lengd og er á 170 RL stálskipi, aðalvél skipsins er 495 hestafla Blackstone Lister dieselvél og með Liaanen vökvaskrúfuútbúnaði. Í bátnum eru öll nýjustu fiskileitartæki, Kelvin Huges radar ásamt Arkas sjálfstýringu. Vistarverur eru hitaðar upp með rafmagni. Yfirbygging úr alúminium, möstur og annað járn ofanþilfars málmhúðað. Ganghraði skipsins er rúmlega 12 sjómílur. Teikningar af skipinu gerði Ágúst G. Sigurðsson, skipatæknifræðingur.

Tíminn. 25 mars 1965.


Flettingar í dag: 1257
Gestir í dag: 115
Flettingar í gær: 421
Gestir í gær: 22
Samtals flettingar: 1191659
Samtals gestir: 83671
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:18:30