11.02.2018 10:36
355. Bragi SI 44. TFPM.
Tveir nýir
bátar
Tveir nýir bátar hafa bæst í fiskiflotann, eru það
hvorutveggja mjög myndarlegir og góðir bátar. Annar þeirra er "Bragi", sem
er eign þeirra Haraldar Oddssonar og Valdimars Björnssonar. Valdimar fór til
Ameríku til að sjá um smíði Braga og er hann nýlega kominn með hann heilu og
höldnu til landsins. Báturinn er 85 tonn að stærð og virðist allur vera hinn
besti. Hinn báturinn er eign Alberts Bjarnasonar og heitir hann "Bjarni
Ólafsson" GK 200. Hann er smíðaður í skipasmíðastöð Marsiliusar Bernharðssonar
á Ísafirði, og er 35 tonn að stærð og allur hinn vandaðasti og sjóskip gott
.Okkur er vissulega mikill fengur að þessum bátum og þeim sje heiður og þökk,
sem leggja fjármuni sína og atorku fram til þess að skapa aukin atvinnuskilyrði
og afkomumöguleikana í bygðarlaginu. Alltof margir bátar hafa verið seldir burt
úr Keflavík undanfarið, en það bætir skaðann að nokkru ef nýir og betri bátar
koma í skarðið.
Vélbáturinn
Bragi G. K. 415
Fyrir skömmu kom hingað til lands nýtt fiskiskip, er smíðað
hefur verið fyrir íslendinga vestur í Ameríku. Skip þetta heitir Bragi og hefur
einkennisstafina G. K. 415. Eigendur þess eru Valdimar Björnsson í Keflavík og
Hallgrímur Oddsson í Reykjavík. Bragi er smíðaður í Brooklyn, New York, eftir
íslenzkum teikningum. Hann er 90 rúmlestir samkvæmt íslenzkum mælingum. Í honum
er fjórgengisvél, Atlas Imperial, 250 hestöfl, og fer hún 350 snúninga á
mínútu. Ljósavél er 16 ha. Lister. Dekkvinda er knúin með rafmagni, og
"trawl" búnaður allur er mjög vandaður og fullkominn. Í skipinu er ágæt
miðunarstöð, bergmálsdýptarmælir og talstöð. Tveir björgunarbátar fylgja
skipinu, og er annar þeirra með vél. Íslendingar munu ekki fyrr hafa látið
smíða fiskiskip í Ameríku, og sennilega hefur jafnlitlu skipi aldrei verið
siglt milli Ameríku og Íslands á þessum tíma árs. Ferðin frá Halifax til
Reykjavíkur tók 13 1/2 sólarhring. Á skipinu voru þessir menn: Magnús
Höskuldsson skipstjóri, Valdimar Björnsson, Markús Sigurjónsson stýrim.,
Tomasson 1. vélstj. (norskur), Guðmundur Gíslason 2. vélstjóri, Halldór Laxdal
loftskeytamaður, Eyjólfur Eiríksson matsveinn og Haraldur Ársælsson háseti.
Ægir. 1 nóvember 1944.
Hlutafélagið
Bragi á Breiðdalsvík
Hlutafélagið Bragi var stofnað 1961. Hóf það útgerð með mb.
Braga SU 210. Báturinn var seldur 1964 og starfaði fyrirtækið lítið næstu árin.
En 1966-1967, lét það byggja mb. Hafdísi SU 24. Kom báturinn til heimahafnar á
miðju ári 1967. Hefur rekstur bátsins gengið vel og hefur afli hans ávalt verið
verkaður af eigendum. Nú á því herrans ári 1971, á fyrirtækið Bragi hf. Mb.
Hafdísi, fiskverkunarhús 680 m2, er í því fullkomin aðstaða til síldarsöltunar,
fiskþurrkunarhús 240 m2 venbúð 150 m2 og síldar- og fiskimjölsverksmiðju.
Fiskur hefur verið þurrkaður í allt sumar hjá fyrirtækinu og verður linnulaust
fram að áramótum.
Áætlað magn af þurrfiski er um 140 tonn. Afköst hússins eru um 35 tonn af
þurrfiski á mánuði. Húsið tók til starfa 1970 og hefur starfsemin gengið
sæmilega. Þá hefur fiskimjölsverksmiðjan unnið það litla hráefni, sem til hefur
fallið af heimabátunum og er mjölmagnið nú um 230 tonn. Það skal tekið fram, að
engir sérráðnir menn vinna í verksmiðjunni, heldur vinna starfsmenn
fyrirtækisins þar jöfnum höndum og annars staðar. Hjá fyrirtækinu vinna að
jafnaði um 20 manns og eru þá sjómenn ekki meðtaldir. Að lokum má geta þess, að
útflutningsvermæti fyrirtækisins nam á sl. ári 28 millj. kr. Framkvæmdastjóri
og aðaleigandi Braga hf. er Svanur Sigurðsson.
Austurland. 26 nóvember 1971.