17.02.2018 07:55

Eldur í B.v Neptúnusi RE 361 28 ágúst 1964.

Eldur kom upp í togaranum Neptúnusi RE 361 þegar hann var að veiðum um 20 sjómílur norðvestur af Garðskaga um kvöldmatarleitið hinn 28 ágúst árið 1964. Mun eldurinn hafa komið upp undir katli skipsins og skipverjar ekki við neitt ráðið og fyrirskipaði skipstjórinn, Valdimar Guðmundsson að skipið yrði yfirgefið, þar sem mikil hætta var á að sprenging yrði í skipinu vegna gashylkja sem staðsett voru nærri eldsupptökum. Þessar einstæðu myndir hér að neðan sendi Atli Michelsen mér, sem á þessum tíma var skipverji á Úranusi RE 343, en fór þessa eftirminnilegu veiðiferð á Neptúnusi þegar eldurinn kom upp í katli skipsins. Þessar myndir sýna þegar skipverjar yfirgefa togarann, og eru þetta sannarlega gullmolar og merkar heimildir um sögu Nýsköpunartogaranna. Atli býr í Malmö í Svíþjóð og var svo síðar lengi hjá Ríkisskipum. Hann sendi mér einnig frásögn um þennan atburð og kemur hún hér að neðan orðrétt;

"Við áhöfnin af Úranusi vorum færðir yfir á Neptunus, þar sem Neptunus var á þessum tímapunkti afskveraður eftir 16 ára flokkunaraðgerð og fyrir lá að Úranus skyldi fá sömu afskveringu.Það stóð mikið til með Neptunus með þessa fyrstu ferð eftir flokkunarviðgerðina, sem sjá má að sjálfur Bjarni Ingimarsson tók sér far með Neptunusi þessa ferð, sem fiskilóðs (skipstjóri), en annars var Valdimar Guðmundsson (Valdi vettlingur) skráður fyrir stöðunni. 
Það átti að gera stór túr og met sölu erlendis.Var farið út frá Reykjavík og tekið eitt hol vestur af Garðskaganum. Þegar híft var upp kom í ljós að aðeins var smá skaufi í pokanum, svo ákveðið var að kippa lengra vestur. Stuttu eftir að sett var á ferð kom upp umræddur eldur í vélarúminu. Var þegar hafist handa með að byrgja alla ventla og op til að hefta súrefni til vélarrúmsins í von um að kæfa eldinn. Það sem olli mestum áhyggjum var að talsvert magn af gas og súrflöskum var staðsett í vélarrúminu og var óttast að þær gætu sprungið, sem var orsökin til að skipið var yfirgefið. 
Þessi stór túr sem gera átti endaði allt öðruvísi en áætlað var og árangurinn einn lítill skaufi fisks.Því miður er ég mikið gleyminn á nöfn og andlit svo að nöfn þeirra manna sem eru á myndunum eru ekki með, en einhver nöfn man ég og reyni ég síðar að gauka þeim til þín."

Atla þakka ég kærlega fyrir myndirnar og afnot þeirra. Þær eru alls 19 talsins og það þarf engan texta við þær, þær tala sínu máli.








































             Eldur í Neptúnusi út af Garðskaga

                       Mannbjörg varð

Um kl. 18.30 í gærkvöldi kom upp eldur í togaranum Neptúnusi, er hann var staddur 21 sjómílu norðvestur af Garðskaga. Skipshöfnin, 32 menn , snerist þegar gegn eldinum, sem kom upp undir katli skipsins, en fékk ekki við neitt ráðið. Á tíunda tímanum gaf skipstjórinn, Valdimar Guðmundsson , skipshöfninni fyrirmæli um að yfirgefa skipið, en þá var varðskipið Albert komið á staðinn til hjálpar. Áhöfn togarans fór á tveimur bátum yfir í varðskipið, og sakaði engan . K l. 23.15 í gærkvöldi höfðu sjö menn af áhöfn b.v. Neptúnusar farið aftur um borð í skipið, þeirra á meðal skipstjórinn. B.v. Júpíter var þá kominn á staðinn, og kl. 0.50 hafði taug og dráttarvírar verið festir milli skipanna . Lagði bv Júpiter þá af stað til Reykjavíkur með bv. Neptúnus í drætti. 25 menn af áhöfn Neptúnusar voru þá um borð í Albert og væntanlegir til Reykjavíkur milli kl. 3 og 4 í morgun . Hinir sjö voru í b.v. Júpiter, en hann var væntanlegur til Reykjavíkur ásamt Neptúnusi kl. 6-7 í morgun . Búizt var við í nótt, að hafnsögubáturinn Magni kæmi á móti skipunum með aflmiklar slökkvidælur. Sem fyrr segir, bar slökkvistarf áhafnarinnar á Neptúnusi ekki árangur. Eldurinn náði fljótlega útbreiðslu í vélarúminu.
Þar niðri voru gas- og súrefnistæki, sem juku á sprengingarhættu í skipinu. Sagði Tryggvi Ófeigsson, útgerðarmaður, í stuttu símtali við Morgunblaðið í gærkvöldi, að það hafi fyrst og fremst verið með tilliti til þessarar hættu, að skipið var yfirgefið. Útgerðarfélögin Júpíter og Marz gera tvo fyrrnefnda togara út Tryggvi sagði og, að áður en skipið var yfirgefið, hafi öllum hurðum og gluggum verið lokað í þeirrr von að á þann hátt mætti kæfa eldinn. Þegar Mbl. vissi síðast til í nótt, var of snemmt að fullyrða nokkuð um hugsanlega björgun skipsins, en mikill eldur var í því, þegar það var yfirgefið. Skipið er vátryggt hjá Vátryggingamiðstöðinni hf. Liklegt var talið, að kviknað hefði í út frá einangrun á katli. Togarinn Neptúnus, sem er eign h.f." Júpíters hér í Reykjavík, fór á veiðar héðan aðfaranótt föstudags. Togarinn hefur undanfarið verið í 16 ára flokkunarviðgerð í Reykjavik. Slík flokkunarviðgerð mun kosta um 2,5 millj. kr. Bjarni Ingimarsson, hinn þjóðkunni skipstjóri, fór með sínu gamla skipi í þessa fyrstu ferð eftir flokkunarviðgerðina, en hann hefur undanfarið verið með bv. Júpíter.
Botnvörpungurinn Neptúnus er smíðaður í Aberdeen árið 1947, 684 brúttólestir að stærð. Þegar hann var fimmtán mánaða gamall, kom upp eldur í honum, er hann var staddur í Grimsby. Urðu þá svo miklar skemmdir á skipinu, að það kostaði um 3/4 af kaupverði skipsins að endurbæta hann. Alla tíð hefur Neptúnus verið meðal aflahæstu togara íslenzka fiskiskipaflotans. Árið 1948 setti hann sölumet (í sölu ísvarins fisks) í Bretlandi. Var það heimsmet, sem stóð óhnekkt í þrettán ár.

Morgunblaðið. 29 ágúst 1964.




 


Flettingar í dag: 1257
Gestir í dag: 115
Flettingar í gær: 421
Gestir í gær: 22
Samtals flettingar: 1191659
Samtals gestir: 83671
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:18:30