20.02.2018 18:24
497. Gullver NS 12. TFKC.
Hjálparbeiðni
frá Gullver
Við Norðurenda Hjaltlandseyja heyrðu skipverjar á togskipinu
Margréti SI 4 frá Siglufirði,
hjálparbeiðni frá vélbátnum Gullver NS 12, en það er nýr 70 lesta bátur
smíðaður í Danmörku, er var á leið til Seyðisfjarðar frá Danmörku. Brotnað
hafði tannhjól í olíudælu bátsins og rak hann fyrir sjó og vindi. Jökulfell var
nærstatt, en tókst ekki, þrátt fyrir nákvæma staðarákvörðun Gullvers, að finna
hann. Brá Margrét þá til hjálpar, en hún er búin mjög fulkomnum miðunartækjum,
enda fann hún bátinn innan skamms. Setti hún vír yfir í Gullver og hugðist
reyna að draga hann til hafnar í Færeyjum en fljótlega slitnaði hann aftan úr,
enda ekki nægilega góð dráttartaug til um borð í Margréti. Varð það því úr að
Margrét aðstoðaði Jökulfellið við að finna bátinn, en síðan dró Jökulfellið
hann til hafnar í Klakksvík í Færeyjum.
Þjóðviljinn. 19 febrúar 1959.
Nýr bátur
til Seyðisfjarðar
Síðastliðinn sunnudag kom nýr bátur til Seyðisfjarðar.
Nefnist hann Gullver og er eigandi hans Ólafur Ólafsson. Gullver hafði hreppt
storma á leið til landsins og orðið fyrir vélarbilun og var dreginn til Færeyja
þar sem viðgerð fór fram.
Gullver var smíðaður í Danmörku. Hann er 70 lestir að stærð með 360 ha.
Blackstone díselvél og 17 ha. hjálparvél og búinn þeim siglinga og
öryggistækjum sem nú tíðkast. Skipstjóri á bátnum verður Jón Pálsson,
Seyðisfirði, en Sigurður Þorsteinsson sigldi bátnum til landsins. Gullver hefur
verið leigður til Keflavíkur og verður gerður út þaðan í vetur.
Austurland óskar eigandanum og Seyðfirðingum öllum til hamingju með bátinn.
Austurland. 27 febrúar 1959.
497. Ver VE 200 í innsiglingunni til Vestmannaeyja. Ljósmyndari óþekktur.
Fjórir
sjómenn fórust við Eyjar
Tveir komust
af er Ver VE 200 fórst í gærkvöldi
Fjórir sjómenn fórust með mótorbátnum Ver VE 200 skammt
austur af Vestmannaeyjum á áttunda tímanum í gærkvöldi, en tveir skipverjar
komust af. Bakkavíkin ÁR 100, sem er gerð út frá Eyjum, sigldi af tilviljun
fram á gúmmíbjörgunarbát úr Ver stuttri stundu eftir að slysið varð. Náði
Bakkavíkin mönnunum tveimur og fann lík eins skipverjans á floti innan um brak
úr bátnum. Milli 20 og 30 Eyjabátar fóru þegar á slysstaðinn og leituðu þeir í
gærkvöldi og nótt. Þeir sem komust af voru skipstjórinn, sem er heimamaður og
aðkomumaður í hópi skipverja. Bakkavíkin leitaði á slysstaðnum þar til aðrir
bátar komu á vettvang.
Ver átti eftir um tvær mílur ófarnar að Bjarnarey þegar báturinn fékk á sig
hnút sem lagði hann á hliðina. Skipstjórinn reyndi fyrst að keyra bátinn upp,
en þegar hann rétti sig ekki reyndu skipverjar að komast í gúmmíbjörgunarbátana.
Allir skipverjar komust á þilfar, en flestir voru fáklæddir, því slysið bar svo
skjótt að. Tókst skipverjum ekki að ná nema öðrum gúmmíbjörgunarbátnum en
bátarnir voru báðir staðsettir á stýrishúsinu. Aðeins tveir skipverjanna komust
í gúmmíbjörgunarbátinn, en ekki hafði tekizt að senda út neyðarkall áður en
báturinn var yfirgefinn.
Að öllum líkindum hafa ekki liðið margar mínútur þar til Bakkavíkin kom á
vettvang en þá þegar voru skipverjarnir í björgunarbátnum orðnir þrekaðir af
kulda. Að sögn skipverja á Bakkavík voru þeir á lensi á landleið að ljúka við
aðgerð þegar skipstjórinn, Þórður Markússon, sá Ijós framundan Bakkavíkinni,
lítið eitt á stjórnborða. Bað hann skipverja að gæta að, því að hann hélt að
þarna væri trillubátur á útleið, en þegar að var gætt sáu þeir að ljósið var á
þaki gúmmíbjörgunarbáts og var talsvert brak stíufjala og annars á floti í
kringum bátinn. Var svo skammt liðið frá því að gúmmíbjörgunarbáturinn blés upp
að ennþá heyrðist í honum blístur þar sem umframloft blés út um ventil.
Bakkavíkin náði mönnunum strax úr björgunarbátnun og tilkynnti um slysið. Héldu
nokkrir tugir Eyjabáta þá þegar úr höfn, sumir hættu löndun og ræst var út á
aðra. Var síðan leitað allt frá hafnarmynninu, Faxaskeri og austur fyrir
Bjarnarey og Elliðaey, en eyjarnar eru við bæjardyr Heimaeyjar. Austsuðaustan
7-8 vindstig voru á Stórhöfða þegar slysið varð, en Ver var um 80 tonn að
stærð. Skipbrotsmennirnir voru fluttir í sjúkrahús Vestmannaeyja og var líðan
þeirra eftir atvikum góð. Þrír úr hópi þeirra sem fórust voru heimamenn og einn
aðkomumaður, allt ungir fjölskyldumenn.
Morgunblaðið. 2 mars 1979.
Náðum
björgunarbátshylkinu eftir 30-45 mínútur í sjónum
Rætt við Árna
Magnússon, skipstjóra á Ver VE 200
"Brotið reið yfir bátinn og ég náði að slá af, en báturinn
rétti sig ekki við og í sömu andrá fyllti stýrishúsið af sjó og ég komst ekki
aftur að stjórntækjunum eða í talstöðina," sagði Árni Magnússon skipstjóri
á Ver í samtali við Mbl. í gærkvöldi. "Báturinn lagðist á stjórnborðshlið, en
ég flaut að dyrunum bakborðsmegin og náði að opna þær og komast upp á
stýrishúsið. Þá voru allir strákarnir komnir upp og á meðan báturinn var ekki
sokkinn voru þeir bæði á síðu bátsins og í mastri. Annar gúmmíbjörgunarbáturinn
hentist fyrir borð í kassanum þegar brotið reið yfir, en hinn sáum við aldrei.
Við
vorum allir fáklæddir og kuldinn hafði fljótt sín áhrif, enda haugasjór. Þegar
báturinn var að sökkva fórum við allir í sjóinn og reyndum að ná til
gúmmíbátshylkisins. Þá reið annar sjór yfir og mig ásamt Benedikt bar frá
bátnum. Við tveir náðum síðar taki á trékassanum utan af gúmmíbjörgunarbátnum
og bjarghring og hangandi dauðahaldi í þetta flot vorum við í liðlega hálfa
klukkustund í brimrótinu þarna að reyna að nálgast gúmmíbátshylkið. Það hafði
slitnað frá þegar brotið reið yfir og í volkinu hafði línan í bátinn orðið
óklár og flækst um hylkið. Loks þegar við komumst að gúmmíbátnum tókst okkur á
óskiljanlegan hátt að láta bátinn blása upp, en við vorum þá orðnir svo dofnir
af kulda að tilfinningin var engin í höndum og á fótum þegar við vorum að bauka
við bátinn og nokkrum mínútum síðar kom Bakkavíkin á vettvang. Rétt áður höfðum
við náð vasaljósinu úr gúmmíbátnum og gátum við veifað því þegar við sáum
skipið nálgast. Ég veit ekki hvað hefði orðið um okkur tvo sem komumst í bátinn
ef Bakkavíkin hefði ekki komið þarna því það var 4 stiga frost og sjórinn um 6
gráður.
Þeir sýndu mikið öryggi strákarnir við að bjarga okkur, en þetta er hörmuleg
lífsreynsla að sjá á eftir skipsfélögum sínum, allt strákar á bezta aldri, mjög
góðir og vanir sjómenn. Bakkavíkin leitaði síðan á svæðinu þarna innan um brak
úr Ver og skömmu eftir að þeir fundu einn skipfélaga okkar á floti héldu þeir
til hafnar og hófu strax lífgunartilraunir en án árangurs. Þá höfðu þeir kallað
út skipaflota til leitar á svæðinu."
Sjómennirnir sem fórust með Ver hétu:
Birgir Bernódusson stýrimaður, Áshamri 75, kvæntur og tveggja barna faðir;
Reynir Sigurlásson, Faxastíg 80, lætur eftir sig unnustu;
Eiríkur Gunnarsson, Aðalstræti 16, Reykjavík, og
Grétar Skaftason, Vestmannabraut 67, Vestmannaeyjum, lætur eftir sig son.
Morgunblaðið. 3 mars 1979.