24.02.2018 06:43

226. Beitir NK 123. TFSD.

Beitir NK 123 var smíðaður hjá A.G. Weser Werk Seebeck í Bremerhaven í Þýskalandi árið 1958 fyrir Bæjarútgerð Reykjavíkur h/f, hét Þormóður goði RE 209. 849 brl. 2.640 ha. Wartsila díesel vél (1978). Skipið var selt 27 nóvember 1978, Ólafi Óskarssyni útgerðarmanni í Reykjavík, hét Óli Óskars RE 175. Skipinu var breytt í nótaveiðiskip í Kotka í Finnlandi árið 1978. Selt 14 apríl 1981, Síldarvinnslunni h/f í Neskaupstað. Var skipið fyrst og fremst keypt til að tryggja Loðnubræðslu Síldarvinnslunnar h/f hráefni. En vegna loðnuveiðibanns og lélegrar útkomu kolmunnaveiða var ákveðið að breyta skipinu þannig að það hentaði einnig til togveiða. Vorið 1982 hélt Beitir til Akureyrar þar sem sett var skutrenna á skipið og aðrar nauðsynlegar breytingar gerðar. Einnig var komið fyrir tækjum til saltfiskverkunar um borð. Verkið annaðist Slippstöðin h/f á Akureyri. Þegar Beitir hóf veiðar að nýju í september sama ár, var hann 4 skuttogarinn í flota Síldarvinnslunnar h/f í Neskaupstað.


226. Beitir NK 123 á siglingu á Norðfirði.                                                   (C) S.V.N Neskaupstað.

       Síldarvinnslan h/f í Neskaupstað                             kaupir Óla Óskars

Síldarvinnslan í Neskaupstað og Ólafur Óskarsson útgerðarmaður í Reykjavik hafa nú undirritað samning um kaup Síldarvinnslunnar á nótaskipinu Óla Óskars RE 175, en þó með fyrirvara þar sem enn á eftir að ganga frá nokkrum formsatriðum. Að sögn Ólafs Gunnarssonar, framkvæmdastjóra Síldarvinnslunnar er tilgangurinn með skipakaupunum að tryggja aukið hráefni til loðnubræðslu Síldarvinnslunnar og auka atvinnu í Neskaupstað. Hann sagði ennfremur að búizt væri við, að ef vel gengi með rekstur skipsins, myndi það laga rekstrargrundvöll fyrirtækisins eftir nokkur ár og væri þess talsverð þörf. Ólafur vildi ekki gefa upp kaupverð skipsins, vegna þess að enn væru nokkur atriði ófrágengin.

Morgunblaðið. 15 apríl 1981.


Beitir NK 123 á siglingu á sundunum við Reykjavík í maí 1981.                     (C) Snorri Snorrason.

                    Beitir NK 123

Nótaskipið Óli Óskars, sem Síldarvinnslan hf. í Neskaupstað hefur fest kaup á, hefur nú fengið nýtt nafn og númer, Beitir NK 123. Samkvæmt mannanafnabók Hermanns Pálssonar merkir það siglingamaður. Beitir er enn í Reykjavík þar sem hann verður málaður og gert fleira til góða áður en hann kemur austur. Ekki er gert ráð fyrir að hann hefji veiðar fyrr en um mánaðamótin júní-júlí að hann mun fara til kolmunnaveiða.

Austurland. 7 maí 1981.

      Beitir kominn til Neskaupstaðar

Neskaupstað 27 maí. Beitir NK 123 sígldi í höfn í fyrsta sinn hér í dag. Beitir hét áður Óli óskars RE 175 og er nú eign Sildarvinnslunnar hf. Skipið var sýnt bæjarbúum í dag og mun hann halda á kolmunnaveiðar að tveimur dögum liðnum. Togarinn kom úr heildarskoðun og endurnýjun úr slipp í Reykjavík.

Morgunblaðið. 30 maí 1981.



Beitir NK 123 á siglingu á Norðfirði.                                                             (C) S.V.N Neskaupstað.

  Slippstöðin breytir Beiti í saltfisktogara

Beitir NK, annað loðnuskip Síldarvinnslunnar hf. í Neskaupstað, er nú kominn til Akureyrar, þar sem skipinu verður breytt í saltfisktogara hjá Slippstöðinni hf. Aætlað er að breytingum á Beiti ljúki fyrir miðjan júlí næstkomandi. Meðal annars verður sett skutrenna og skutrennuloki og ýmsar aðrar breytingar verða gerðar, þannig að skipið henti sem best til togveiða

Morgunblaðið. 7 apríl 1982.


Beitir NK í breytingunum á Akureyri árið 1982.                          (C) Úr safni Gunnars Þorsteinssonar.


Beitir NK í breytingunum á Akureyri árið 1982.                  (C) Úr safni Gunnars Þorsteinssonar.

      Beitir NK 123 - alhliða fiskiskip

Í maí 1981 bottist nýtt skip í flota Norðfirðinga. Var það nótaskipið Beitir sem Síldarvinnslan hf. hafði fest kaup á. Þegar skipið var keypt höfðu menn í hyggju að það legði fyrst og fremst stund á loðnu og kolmunnaveiðar. En ýmislegt hefur breyst síðan Beitir komst í eigu Norðfirðinga og er þá helst að nefna loðnuveiðibann. Vegna nýrra aðstoðna ákvað stjórn Síldarvinnslunnar að láta gera ýmsar breytingar á Beiti, þannig að skipið hentaði til togveiða og hægt yrði að salta aflann um borð. Þann 17. mars sl. hélt Beitir til Akureyrar, en í Slippstöðinni þar voru breytingarnar framkvomdar. Og þann 13. ágúst sl. kom skipið til heimahafnar allmikið breytt. Tíðindamaður Austurlands hitti að máli þá Jóhann K. Sigurðsson framkvomdastjóra útgerðar Síldarvinnslunnar og Björgvin Jónsson, sem haft hefur eftirlit með framkvæmdum við skipið, og fékk ýmsar upplýsingar hjá þeim.
Sögðu þeir að breytingarnar á skipinu væru umfangsmiklar og myndi kostnaður við þær nema um 10 milljónum króna. Á skipið var sett skutrenna og skutrennuloki, útbúin aðstaða til aðgerðar á millidekki stjórnborðsmegin og þar komið fyrir hausingavél og flatningsvél. Einnig var komið fyrir 10 tonna krana til að tæma úr poka og til annnarra verka á efra þilfari. Þá var komið fyrir sjálfvirkri togvindu og grandaraspilum og ýmsum nýjum tækjum. Hér heima er síðan unnið að því að rétta lestargólfið og setja svartolíukerfi í skipið. Eftir þessar breytingar getur Beitir lagt stund á nótaveiðar, veiðar með flotvörpu og botnvörpuveiðar og því má með sanni segja að Norðfirðingar hafi eignast alhliða fiskiskip.
Búið er að ráða áhöfn á skipið og gekk það vel, en gert er ráð fyrir að Beitir haldi á togveiðar síðar í þessum mánuði. Aðspurðir kváðust þeir Jóhann og Björgvin vera ánægðir með breytingarnar á skipinu og töldu að afar vel hefði heppnast að koma fyrir þeim tækjum sem nauðsynleg væru, m. a. vélum á vinnuþilfari. Eins og fyrr greinir er ráðgert að salta aflann um borð þegar skipið er á togveiðum. Ætlunin er að aflanum verði síðan skipað á land í heimahöfn og saltfiskverkun Síldarvinnslunnar annist pökkun fisksins.
Skipstjóri á Beiti verður eftir sem áður Sigurjón Valdimarsson.

Austurland. 20 ágúst 1982.


226. Beitir NK 123 á togveiðum.                                             (C) Brimbarinn. Vigfús Markússon.

  Beitir hefur landað 80 lestum af saltfiski

Togskipið Beitir frá Neskaupstað hefur að undanförnu verið að veiðum út af Austfjörðum eftir gagngerar breytingar á skipinu. Þorskaflinn er verkaður í salt um borð og eftir tvær veiðiferðir hefur skipið landað 80 lestum af saltfiski og 24 lestum af öðrum bolfiski og hafa veiðarnar gengið þokkalega.
Beitir var upphaflega síðutogari, sem síðan var breytt í nótaskip. Skipið var síðan keypt til Neskaupstaðar, en er ljóst var að loðnuveiði myndi bregðast, var skipinu breytt þannig, að það getur nú stundað tog-, nóta- og flotvörpuveiðar.
Breytingarnar voru unnar í Slippstöðinni á Akureyri og hefur skutrennuloki verið settur í skipið, fiskilúga og vélasamstæða til saltfiskverkunar. Einnig hefur grandaraspil verið sett í skipið og bætt við fiskleitartækjum. Þá hefur vélum skipsins verið breytt til svartolíunotkunar og aðstaða áhafnar endurbætt. Áætlaður kostnaður við breytingarnar er 11 til 12 milljónir. 18 manna áhöfn er á skipinu og skipstjóri er Sigurjón Valdimarsson, vélstjóri er Jón Már Jónsson og fyrsti stýrimaður Helgi Valdimarsson. Skipið er í eigu Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, sem auk þess á togarana Barða, Birting og Bjart og nótaskipið Börk.

Morgunblaðið. 29 september 1982.


Beitir NK 123 á leið til löndunar í Neskaupstað.                      (C) Úr safni Gunnars Þorsteinssonar.

     Fyrsta loðnan til Neskaupstaðar

Beitir NK kom með fyrstu loðnuna til Neskaupstaðar á þriðjudaginn en þá kom skipið með um 1.400 tonn af miðunum djúpt norður af landinu. Gera má ráð fyrir að fljótlega hefjist loðnubræðsla á Austfjörðum af fullum krafti og eru fleiri bátar nú að búa sig út til loðnuveiða, svo sem Börkur NK, sem mun verða tilbúinn til loðnuveiða fljótlega.

Austurland. 11 september 1986.










Flettingar í dag: 430
Gestir í dag: 54
Flettingar í gær: 2218
Gestir í gær: 119
Samtals flettingar: 1193050
Samtals gestir: 83729
Tölur uppfærðar: 1.4.2025 12:04:43