25.02.2018 07:58

B. v. Fylkir RE 161. TFCD.

Nýsköpunartogarinn Fylkir RE 161 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1948 fyrir útgerðarfélagið Fylki h/f í Reykjavík. 677 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. Skipinu var hleypt af stokkunum 13 október árið 1947 og var síðan fleytt niður til Hull þar sem vélum og katli var komið fyrir og skipið klárað. Fylkir var afhentur eigendum sínum hinn 13 febrúar árið 1948, eða fyrir rétt rúmum 70 árum. Togarinn sökk í Þverálnum um 33 sjómílur norður af Straumnesi 14 nóvember árið 1956. Tundurdufl kom í veiðarfæri skipsins og sprakk við síðu þess með fyrrgreindum afleiðingum. Áhöfnin, 32 menn, komst við illan leik í annan björgunarbátinn. Þeim var síðan fljótlega bjargað um borð í togarann Hafliða SI 2 frá Siglufirði sem hélt með skipbrotsmennina til hafnar á Ísafirði. Nokkrir skipverjar meiddust við sprenginguna en enginn lífshættulega, en 2 skipverjar voru lagðir inn á sjúkrahúsið á Ísafirði. Það má teljast kraftaverki líkast að ekki fór verr og manntjón orðið.
Ein af betri frásögnum sem ég hef lesið um þetta slys er rituð af Sveini Sæmundssyni og birtist hún í tímaritinu Vikunni í desember árið 1972. Heimildarmaður Sveins var að mestu Auðunn skipstjóri. Læt ég hana fylgja með hér að neðan.


B.v. Fylkir RE 161 að veiðum.                                                      (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

        10 nýsköpunartogarinn kominn
                      til Reykjavíkur

Tíundi nýsköpunartogarinn, sem gerður verður út hjeðan frá Reykjavík, kom hingað á sunnudaginn. Er þetta togarinn Fylkir RE 161, eign samnefnds hlutafjelags hjer í bænum, sem einnig á togarann Belgaum. Aðalsteinn Pálsson er skipstjóri á Fylki og fyrsti stýrimaður Ragnar Guðmundsson og fyrsti vjelstjóri Viggó Gíslason. Hjer í Reykjavík verða sett bræðslutæki í Fylki og er gert ráð fyrir að það taki allt að vikutíma, en síðan fer togarinn á veiðar.
Aðalsteinn Pálsson var áður skipstjóri á Belgaum, en nú tekur þar við skipstjórn Páll Sigfússon.

Morgunblaðið. 24 febrúar 1948.


Fylki RE 161 gefið nafn þegar  honum var hleypt af stokkunum í Beverley 13 október 1947. Það má t.d. þekkja einn í hópnum, en það er maðurinn sem er fjórði frá hægri, Þórarinn Olgeirsson ræðismaður og fyrrverandi skipstjóri.               (C) Hjálmar R Bárðarson.


Fylkir RE í smíðum. Úr vélarúminu.                                                          (C) Hjálmar R Bárðarson.


B.v. Fylki RE 161 hleypt af stokkunum.                                                      (C) Hjálmar R Bárðarson.


Togaranum hleypt af stokkunum.                                                     (C) Hjálmar R Bárðarson.

    Togarinn "Gylfi" dreginn brennandi upp
              að Snæfellsnesi í gærkveldi

Togarinn "Fylkir" tók meirihluta áhafnarinnar   um borð og dró skipið í landvar hjá Bervík

Eldur kom upp í Patreksfjarðartogaranum "Gylfa" djúpt út af Öndverðarnesi síðdegís í gær, og magnaðist hann svo að skipið varð að biðja um hjálp. Kom togarinn "Fylkir", sem var á veiðum á sömu slóðum, á vettvang; tók 18 skipsmenn af 30 um borð og dró ,,Gylfa" upp að Snæfellsnesi í landvar hjá Bervík. Voru togararnir komnir þangað á ellefta tímanum í gærkveldi, og hafði þá loksins tekizt að kæfa eldinn í "Gylfa". Ekkert tjón hafði orðið á mönnum, að því er haft var eftir skipstjóranum, Ingvari Guðmundssyni, seint í gærkveldi.
"Gylfi" var að veiðum í svonefndum Kolluál út af Öndverðarnesi, er eldsins varð vart í netjageymslunni, sem er undir brúnni. Var eldurinn þá orðinn það magnaður, að skipverjum tókst ekki að slökkva hann. Togarinn Fylkir frá Reykjavik, er var að veiða á sömu slóðum, kom strax á vettvang, er Gylfi baðst aðstoðar. Þrátt fyrir storm og þungan sjó tókst að koma áhöfn Gylfa um borð í Fylkir, nema 12 mönnum, er eftir urðu í skipinu til að stjórna því, er Fylkir dró það í landvar. Um ellefuleytið í gærkvöldi sagði skipstjórinn á Gylfa í talstöð skipsins, að enn væri eldur í netjageymslunni, en væri í rénun, þar sem skipverjum hafði tekizt að byrgja netjageymsluna. Talsverðar skemmdir hafa orðið á skipinu. Allmikið hafði brunnið í kringum olíutanka skipsins, en óttast var um tíma að eldurina myndi valda sprengingu í þeim og mun það hafa verið ástæðan fyrir því, að röskur helmingur skipshafnarinnar var fluttur um borð í Fylki. Ljósavél skipsins bilaði svo til strax. Síðast er fréttist, var togarinn "Þorkell Máni" á leið til aðstoðar, en hann hefur öflugri sjódælur en Fylkir. Skipstjóri á Fylki er Auðunn Auðunsson.
Gylfi, sem er nýjasti togari flotans, kom til landsins í vetur. Búizt er við því að skipið sé meira skemmt en í fljótu bragði virðist og mun viðgerð á því taka alllangan tíma.

Alþýðublaðið. 7 maí 1952.


Fylkir RE 161 á leið til veiða úr Reykjavíkurhöfn.                                            Ljósmyndari óþekktur.

      Með tundurdufl í vörpunni

  Þeir sáu allt í einu svarta þúst neðst í belgnum, alveg við pokann.            Jóhann og Ólafur kölluðu báðir í einu, að það væri dufl í vörpunni.   Valdemar stöðvaði spilið og kallaði upp til Gunnars, hvort þeir ættu að      stanza. En það skipti engum togum. Fylkir tók langa veitu yfir til                bakborðs og um leið varð ógurleg sprenging við skipssíðuna. Um leið      slokknuðu ljósin.....

Það var heldur ófriðlegt um að litast í heiminum, haustið 1956. Dag eftir dag sögðu blöðin og útvarpið frá uppreisn í Ungverjalandi. Þar reyndi ungverska þjóðin að hrista af sér erlenda hersetu og áþján, en hlaut að lokum að lúta í lægra haldi fyrir ofureflinu. Stríðið við Súezskurð, þar sem Bretar og Frakkar komu við sögu auk Ísraelsmanna og Egypta, hlaut einnig drjúgan hlut í fjölmiðlum, en hér á landi hafði vinstri stjórn sezt að völdum eftir kosningar sumarsins, og að vanda voru blöðin ósammála um flest, er til umræðu var á vettvangi stjórnmálanna. Eftir góðviðri sumarsins voru hausthretin gengin í garð. Togararnir voru flestir á heimamiðum, en frátafir voru tíðar vegna storma og erfitt að stunda veiðarnar. Togarinn Fylkir RE 161 frá Reykjavik hafði látið úr höfn 5. nóvember og haldið vestur fyrir land. Þeir lentu í brælu, en þegar veðrið dúraði var allgott fiskirí. Þeir fengu góðan afla í Þverálnum, voru komnir með 130-140 lestir og afturlestin var orðin full. Veðri var hinsvegar þannig háttað, að Auðunn Auðunsson skipstjóri áleit að veiðiferðin yrði heldur í lengra lagi. Togarinn Fylkir var einn nýsköpunartogaranna, 677 lestir að stærð. Hann var smíðaður í Beverley í Bretlandi, einn af stærri skipunum sem sagt var, vegna þess að Fylkir og nokkur fleiri skip sem voru í smíðum um svipað leyti voru lengri en þeir togarar sem áður voru smíðaðir fyrir Íslendinga.


Teikning Halldórs Péturssonar þegar duflið sprakk við síðu Fylkis. 

Aðalsteinn Pálsson skipstjóri hafði haft forgöngu um kaup skipsins fyrir hlutafélagið Fylki og verið skipstjóri á því fyrstu árin. Þótt Fylkir þætti krankur er hann hóf veiðar, var fljótlega ráðin bót á því með meiri kjölfestu, og þetta varð strax mikið aflaskip. Aðalsteinn Pálsson lét af skipstjórn árið 1950 og þá tók Auðunn Auðunsson, annar kunnur aflaskipstjóri, við skipinu. Auðunn fiskaði ekki síður vel á Fylki en fyrirrennari hans. Þeir voru með hæstu skipum eftir hvert úthald. Fljótlega eftir að Fylkir kom til landsins, komu í ljós gallar. Skipið þótti svagt um miðsiðuna og þegar keyrt var á móti í vondu veðri og miklum sjó, mynduðust sprungur á síðunum við skammdekkið. Skipið var þá styrkt með stálplötum. Árið 1952 settu Bretar löndunarbann á fisk úr íslenzkum skipum í Bretlandi.
Þetta var svar þeirra við útfærslu íslenzku landhelginnar úr þrem í fjórar mílur. Að sjálfsögðu hafði þetta nokkra erfiðleika í för með sér fyrir togaraflotann, þar sem sölur á ísuðum fiski í erlendum höfnum voru drjúgur þáttur í afsetningu aflans. Um tíma fóru því engir togarar í söluferðir til Englands, unz brezkur fjáraflamaður, George Dawson, efndi til fiskkaupa af íslendingum og siglingar með ísfisk hófust á ný. Það var í einni slíkri söluferð, að þeir á Fylki fengu vonzkuveður í hafi. Þegar kom í Pentlandsfjörð, þetta hlið inn í Norðursjóinn, var hann eins og stórfljót til að sjá. Straumur veður oft mjög striður í Pentlinum, og þegar stórviðri stendur á móti straumi, verður sjór þarna mjög krappur og hættulegur. Þar sem lítill tími var til stefnu, áttu þeir Fylkismenn að ná til Grimsby á tilsettum tíma. Ákvað Auðunn skipstjóri að leggja í Pentilinn, enda þótt útlitið væri ekki sem bezt. Þetta var mikill darraðardans.


Líkan af Fylki RE á Sjóminjasafninu Víkinni.                                               (C) Þórhallur S Gjöveraa. 

Um tíma var skipið á þrem bárum í einu og öllum háum, Þeir fengu á sig ólag, sem braut miðjan vant í formastri og fundu nú að viðgerð, sem farið hafði fram til þess að styrkja skipið um miðsíðuna, var hvergi nærri fullnægjandi. Skipið gaf sýnilega eftir þegar verst lét. En þeir náðu til hafnar í Grimsby á réttum tima og komust inn á flóðinu eins og fyrirhugað var. Nokkru síðar var framkvæmd viðgerð á Fylki. Byrðingur skipsins var styrktur verulega og síðar kom í Ijós, að sú viðgerð var mikið heillaspor. Margt sögulegt gerðist á þessum tímum. Árið 1952 hafði Fylkir undir stjórn Auðuns Auðunssonar bjargað skipshöfn af brennandi skipi og komið því sjálfu til hafnar illa förnu. Þetta var Patreksfjarðartogarinn Gylfi.
Þar hafði sannarlega ekki munað miklu að slys yrði. Það var undan Snæfellsjökli, sem Fylkir kom Gylfa til aðstoðar. Skipið var tekið í tog og dregið til Reykjavíkur. Norðan hvassviðri var á, er þetta gerðist. Auðunn skipstjóri á Fylki vildi ekki hætta á að draga skipið á mikilli ferð. Þeir voru rúmlega ellefu tíma frá Jökli, og allan tímann logaði upp úr brú Gylfa. Loks þegar kom inn á milli Eyja dvínaði bálið skyndilega. Þá var allt brunnið, sem brunnið gat í brúnni, en oliugeymirinn, sem eldhafið stafaði frá orðinn tómur. Þrátt fyrir þetta urðu minni skemmdir á vélabúnaði skipsins, en álitið var í fyrstu. Vélarúmið slapp t.d. að mestu við skaða. Hinir tíðu eldsvoðar á togaraflotanum ollu mönnum áhyggjum, unz uppvist varð um smiðagalla, sem var orsök þessara óhappa.


Fylkir RE 161. Líkan.                                                                           (C) Þórhallur S Gjöveraa.
  
Þegar hér var komið sögu, haustið 1956, höfðu Bretar, sem alltaf eru til í að gera verkföll og sem telja það til sáluhjálparatriða að mótmæla hverri útfærslu Íslenzku landhelginnar, sætt sig við fjórar mílurnar, og í öndverðum nóvembermánuði 1956 voru viðræður í gangi milli íslenzkra og brezkra embættismanna um afnám löndunarbannsins frá 1952. Þessar viðræður fóru fram í Paris. Brezka heimsveldið hafði um þessar mundir hlotið, verulegt áfall vegna afskipta af deilunni við Súez, og fallið mjög í áliti meðal þjóða heims. Bretar ásamt Frökkum og ísraelsmönnum höfðu verið stimplaðir sem árásaraðilar, og öryggisráðið hafði fyrirskipað að árásinni á Egyptaland skyldi hætt. Sir Anthony Eden, sem verið hafði "efnilegastur" brezkra stjórnmálamanna nokkra áratugi, ,og var nú forsætisráðherra Bretlands, varð að segja af sér og draga sig úr stjórnmálum. Og meðan svo stórsögulegir atburðir gerðust við Súez og í Whitehall sátu íslenzkir og brezkir í Paris, og hinn 13. nóvember þótti sýnt að löndunarbanninu, sem verið hafði í gildi í fjögur ár, myndi aflétt. Þennan sama dag hafði togarinn Fylkir verið viku á veiðum fyrir Vesturlandi. Síðdegis hvessti upp. Hann skall á með hvassri vestanátt og um klukkan sex síðdegis var veiðum hætt. Þá voru 10-11 vindstig á miðunum og hafrót.Þeir höfðu rifið trollið í siðasta halinu, og nú lét Auðunn skipstjóri síga upp um á hægri ferð, meðan gert var við netin.
Þótt Auðunn væri ekki hjátrúafullur og tæki lítt mark á draumum, gat hann ekki með öllu bægt frá sér draumi, sem hann hafði dreymt, meðan hann var í fríi í landi næsta túr á undan. Sæmundur bróðir hans, sem um þessar mundir var forstjóri Fylkis-útgerðarinnar, var þá með skipið. Þessi draumur, sem Auðunni stóð einhvernveginn ekki á sama um, var á þá leið, að honum fannst þeir á Fylki vera á veiðum.


Fylkir RE 161. Líkan.                                                                                 (C) Þórhallur S Gjöveraa.

Hann veit þá ekki fyrri til en stórt skip er komið þversum á bátaþilfar togarans, og er svo þungt og fyrirferðamikið, að í draumnum þykist Auðunn viss um að það muni færa Fylki í kaf. Það skiptir engum togum, að þetta ókunna skip steypist út af bátaþilfarinu og stingst á framendann í djúpið. Honum finnst síðan Fylkir sigla áfram og sér að allur mannskapurinn er um borð. Mikinn óhug setti að Auðunni í draumnum. Hann vaknaði við, og hugsaði um drauminn. Bjóst jafnvel við að eitthvað hefði orðið að um borð. En Fylkir kom úr veiðiferðinni án þess að nokkuð sögulegt kæmi fyrir og þessi veiðiferð var hálfnuð, án þess að nokkuð gerðist, sem í frásögur væri færandi. Um miðnætti, aðfaranótt 14. nóvember, var enn stórviðri af vestri. Veðurstofan spáði lygnandi, og um leið og Auðunn skipstjóri fór í koju, sagði hann Gunnari Hjálmarssyni 1. stýrimanni að kasta á sömu slóðum og þeir voru á kvöldið áður, ef hann lygndi. Það fór eins og spáð hafði verið. Undir morgunn fór að draga úr veðrinu og á sjötta tímanum var trollinu kastað. Fylkir var þá einskipa í Þverálnum, en nokkur skip fimm til sex mílur fyrir ofan þá. Nokkru eftir að tekið var í blökkina og togið hófst fór bátsmannsvaktin í koju, en stýrimannsvaktin kom á dekk. Í vélarrúminu gekk allt sinn vanagang. Þórður Hannesson 3. vélstjóri var á vaktinni ásamt kyndaranum. Hann hafði leyst Guðmund I. Bjarnason 2. vélstjóra af, en Viggó Gislason 1. vélstjóri myndi svo taka við af honum klukkan átta um morguninn.
Viggó Gislason var einn þeirra sem höfðu verið á Fylki frá öndverðu. Hann hafði farið til Englands ásamt Aðalsteini Pálssyni meðan skipið var enn í smiðum í Beverley og haft umsjón með niðursetningu véla og tækja. Fylkir hafði nú togað í rúman klukkutima og Þórður 3. vélstjóri gerði ráð fyrir að brátt yrði híft upp. Hann leit á gufuþrýstimælinn, sem stóð á 220 pundum. Gufuvélin snerist sína 86 snúninga eins og alltaf á toginu, og það var gott að hlusta á þessi jöfnu slög stimplanna. Þessi 1.200 hestafla gufuvél var hljóðlát, vann sitt verk án hávaða. Það var annað með ljósavélina, sem stóð á palli hátt uppi í siðunni.


Fylkir RE 161. Líkan.                                                                          (C) Þórhallur S Gjöveraa.

 Frá henni stafaði mestallur hávaðinn í vélarrúminu. Þær voru reyndar tvær, og nú var sú aftari í gangi. Brátt var hringt á stanz, slegið úr blökkinni og byrjað að hífa. Þeir höfðu híft stjórnborðstrollið upp, skverað og hlerarnir voru komnir í gálga. Ennþá var haugasjór og skipið tók þungar veltur, þar sem það lá ferðlaust. Þeir voru byrjaðir að snörla inn belginn. Gunnar Hjálmarsson 1. stýrimaður stóð við opinn brúargluggann. Valdemar Einarsson 2. stýrimaður var við spilið og stóð á grindinni stjórnborðsmegin. Gilsmaðurinn, Kristmundur A. Þorsteinsson dró af spilinu. Aftur í ganginum voru þeir að setja rópinn í ferliðuna á keisnum. Jóhann H. Jónsson stóð í svelgnum og var að hala stertinn inn. Ólafur Halldórsson og Gunnar Eiríksson fyrir framan hann. Ólafur var á forleisinu.
Gunnar Hjálmarsson stýrimaður leit á klukkuna. Hún var rúmlega sjö. Fylkir valt í stjórnborða og belgurinn og pokinn, sem nú flutu við síðuna sáust vel í vinnuljósunum á þilfarinu. Þeir sáu allt í einu svarta þúst neðst í belgnum, alveg við pokann. Jóhann og Ólafur kölluðu báðir í einu, að það væri dufl í vörpunni. Valdemar stöðvaði spilið og kallaði upp til Gunnars, hvort þeir ættu að stanza. En það skipti engum togum. Fylkir tók langa veltu yfir til bakborða og um leið varð ógurleg sprenging við skipssíðuna. Um leið slökknuðu ljósin. Því sem gerðist á næstu augnablikum er erfitt að lýsa. Skipið kastaðist lengra yfir til bakborðs undan heljarafli sprengingarinnar, en um leið þeyttist sjórinn við stjórnborðshliðina hátt í loft upp. Botnvarpan, netið og bobbingarnir, sem enn voru út af skipinu hófust á loft og köstuðust ásamt sjóstróknum, um leið og grófst undan því og það valt yfir til stjórnborðs.


Tundurdufl í fjöru, svipað því og grandaði Fylki.                                                   Mynd af Vísir.is  

Valdemar 2. stýrimaður sá grænan blossa, en kastaðist undan ógnarkrafti sprengjunnar og rotaðist. Kristmundur kastaðist á þilfarið, en Ólafur þeyttist þvert yfir skipið út í lunningu bakborðsmegin. Höfuðlínan kom inn á mitt skip og forvængur vörpunnar, en bobbingarnir lentu niður á milli mannanna, sem grófust undir netinu, á kafi í sjó. Auðunn skipstjóri hrökk upp við sprenginguna og stökk fram úr og upp í brú. Hávaðinn var svo yfirþyrmandi, að honum kom í fyrstu ekki annað til hugar en að orðið hefði ketilsprenging, og hann mundi ekki komast upp. Um leið og hann kom í brúna heyrði hann sársaukastunur neðan af þilfarinu.
Skipið var almyrkvað, og hann sagði Gunnari Hjálmarssyni stýrimanni að setja út bátana og hafa þá á síðunni ef illa færi. Jörundur Sveinsson loftskeytamaður hrökk upp við sprenginguna. Auðunn kallaði til hans og fyrirskipaði að senda út neyðarkall. Ólafur Halldórsson komst til meðvitundar þar sem hann lá við bakborðslunninguna. Hann var mikið meiddur. Hafði lent á spilinu þegar hann kastaðist yfir skipið og annar handleggurinn var máttlaus. Mennirnir sem urðu undir netinu voru hætt komnir. Aftur í ganginum tókst þeim að komast undan án mikilla erfiðleika. Frammi á þilfarinu höfðu Gunnar Eiriksson og Jóhann H. Jónsson orðið undir belgnum. Jóhanni tókst að ná í hníf, sem hann var með í vasanum og skera netið fyrir ofan sig. Gunnar hafði lent á bakið og fengið mikið högg. Þórður Hannesson 3. vélstjóri var við stjórntæki vélarinnar þegar tundurduflið sprakk. Ljósavélin stöðvaðist um leið, og það varð kolamyrkur í vélarrúminu.


B.v. Fylkir RE 161.                                                                                 (C) Þórhallur S Gjöveraa.  

Hann var með vasaljós, og nú bjargaði það miklu. Hann vissi að öryggisútbúnaður í oliuverki ljósavélarinnar myndi hafa slegið út. Hann hraðaði sér upp á pallinn og gangsetti vélina. Það var í sama mund og ljósin kviknuðu á ný, að Viggó Gíslason 1. vélstjóri kom niður í vélarrúmið. Hann hafði eins og aðrir hrokkið upp við sprenginguna, og fannst í svefnrofunum, að atómsprengja hefði falli yfir skipið. Hann komst upp stigann, upp í ganginn og heyrði að hrópað var að menn ættu að hraða sér til bátanna. Hann fór með Þórði 3. vélstjóra fram í kyndistöðina, og þeir urðu þess áskynja að síðutankur sem verið hafði tómur, var orðinn fullur af sjó. Bátsmannsvaktin var farin fram í og þeir voru rétt komnir í kojurnar þegar tundurduflið sprakk við siðuna.
Þeir voru níu frammi í lúkarnum og sumir köstuðust framúr, en aðrir uppundir næstu koju. Rafn Kristjánsson kastaðist upp í næstu koju, en síðan út og lenti á kojustokknum fyrir neðan. Hann fékk mikið högg á bakið, en komst á fætur og upp í lúkarskappann. Skipið lá á stjórnborðshlið og hann hélt fyrst að strokkur í togvindunni hefði sprungið, vegna þess hve mikil gufa og reykur var á þilfarinu. Hann renndi sér niður, fór í utanyfirföt og fór siðan aftur upp. Það fyrsta sem hann sá, var hvar Gunnar Eirfksson lá í sjónum undir netinu og reyndi að komast undan því. Rafn og annar háseti, sem einnig hafði komið upp í þessu, gripu hnífa og skáru á netið og náðu manninum upp. Hann var þá orðinn aðframkominn og búinn að drekka mikinn sjó. Valdemar 2. stýrimaður kom til sjálfs síns aftur í bakborðsganginum. Hann fór upp á bátadekkið, þar sem nokkrir skipsmenn voru þá þegar, og reyndu nú að sjósetja bakborðslífbátinn.


Fylkir RE 161.                                                                                       (C) Þórhallur S Gjöveraa.  

Bátauglurnar voru af þeirri gerð, sem þurfti að snúa út með sveifum. Skrúfgangurinn var stirður og þeim gekk ekkert að koma bátnum úr. Mennirnir reyndu þessu næst við stjórnborðsbátinn, og það var sömu sögu að segja. Bátauglurnar voru stirðar og næstum ekki hreyfanlegar. Björgunarflekinn, sem var undir bakborðsbátnum virtist nú eina vonin, en hann var fastur undir bátnum. Þeir tóku það til bragðs að setja gils á flekann og hífa hann undan bátnum og komu honum síðan í sjóinn bakborðsmegin. Auðunn skipstjóri var í brúnni. Hann skaut upp svifblysum, hverju af öðru til þess að vekja athygli skipverja á hinum togurunum á, að Fylkir væri í nauðum staddur. Jörundur Sveinsson loftskeytamaður hafði þegar hér var komið sent út neyðarskeyti, en við sprenginguna höfðu loftskeytatækin eyðilagst að mestu. Loftnetin fallið niður með masturstoppunum, sem brotnuðu, og viðtækin í stöðinni voru óvirk. Jörundur blindsendi SOS, án þess þó að vita hvort nokkur heyrði neyðarkallið. Hann sendi neyðarkallið í sífellu. Hann fór þá fram í brúna og aftur á bátaþilfarið. Þeir kölluðu til Auðuns skipstjóra af bátaþilfarinu, að ómögulegt væri að koma bátunum úr.
Auðunn kallaði á móti; ,,út með bátana! " Sú von glæddist nú með honum, að fyrst skipið ekki sökk hraðar, væri það minna laskað en í fyrstu var áætlað, og myndi haldast á floti. Hann fór niður í vélarrúm og fram í kyndistöð. Vonin um að skipinu yrði bjargað dvínaði þegar niður kom. Skipið var sýnilega mikið lekt og töluverður sjór kominn í vélarrúmið. Fullvíst var einnig, að mestu skemmdirnar væru í afturlestinni, sem var full af fiski. Líklegt að aflinn tefði aðeins fyrir því að sjórinn fossaði inn. Auðunn fór aftur upp í brú. Skipið hafði nú lagzt, komið með mikla stjórnborðsslagsíðu og lunninginn var í kafi. Vegna hallans var vonlaust að koma bakborðslífbátnum úr, og mennirnir einbeittu sér að stjórnborðsbátnum. Þeim tókst eftir mikla erfiðleika að slá honum svo langt út, að hægt var að láta hann síga, með því að skipið hallaðist mikið. Enn var haugasjór. Einn háseti stökk út í bátinn, sem komst heill í sjóinn.


Fylkir RE 161.                                                                                      (C) Þórhallur S Gjöveraa.
  
Þeir fóru nú í bátinn hver af öðrum, en það gekk illa að finna neglurnar í myrkrinu og talsverður sjór komst í bátinn. Þrír menn renndu sér niður á björgunarflekann hinum megin. Það skipti engum togum, að um Ieið og lífbáturinn kom í sjó tók Fylkir að sökkva hraðar. Það var eins og mótstaðan, sem fiskurinn í afturlestinni hafði veitt, brysti skyndilega. Auðunn skipstjóri sá, að skipið var nú komið að því að sökkva. Það var því ekki lengur eftir neinu að bíða, og hann kallaði á Jörund loftskeytamann að yfirgefa skipið. Þeir fóru síðastir úr brúnni og á leiðinni aftur á bátaþilfar kom Auðunn að Gunnari Eiríkssyni, sem var mjög miður sín eftir að hafa lent í sjónum. Auðunn tók hann með um borð í lífbátinn. Þeir voru um það bil að leggja frá, en sáu að einn manninn vantaði. Þórður 3. vélstjóri hafði komið upp úr vélarrúminu í vinnubuxum og aðeins einum skyrtubol að ofanverðu. Hann fór niður, tók jakka og frakka, sem hengu saman á herðatré óg fór í þessi föt. Þótt þetta tæki ekki langa stund var báturinn kominn frá er hann kom aftur upp enda þótt fangalínan væri enn óleyst. Það var ekki um annað að gera en að fara um borð í lifbátinn á fangalínunni, en síðan var skorið á hana og lagt frá.
Ef ketilsprenging yrði í skipinu var ekki álitlegt að vera alveg við síðuna. Það var mjög þröngt í bátnum, en þeir lögðu út tvær ára og réru frá. Mennirnir tóku það sem hendi var næst til þess að ausa bátinn og neglurnar voru nú komnar á sinn stað. Kristmundur Þorsteinsson og annar maður sem komnir voru á flekann, héldu honum við skipið. Jörundur loftskeytamaður fór niður skipssíðuna á kaðli en síðan ýttu þeir frá. Þeir sáu fljótlega að flekinn hafði skaddast í meðförunum og flaut illa. Það vatnaði strax yfir hann og það var sýnilegt að eitthvað af vatnsþéttu hólfunum höfðu gefið sig. Allt hafði þetta gerzt á stuttri stund. Mennirnir á flekanum ákváðu að komast sem fyrst að lífbátnum. Þeir reru með höndunum og sígarettukartoni, sem Jörundur hafði tekið með um leið og hann yfirgaf loftskeytastöðina. Þótt seint gengi komust þeir frá skipinu og aftur fyrir það. Skrúfan var nú að mestu uppúr og framskipið í kafi. Þeir komust að bátnum, og um borð í hann. Það var mjög þröngt og lítið borð fyrir báru. Þeir sáu að ljósin loguðu ennþá um borð í Fylki, en síðan dofnuðu þau og hurfu, og þeir vissu að sjórinn hefði náð rafbúnaði vélarúmsins og ljósavélinni. Það braut orðið á skipinu.


Fylkir RE 161.                                                                              (C) Þórhallur S Gjöveraa. 

Það lyfti sér ekki lengur og endalok þess voru sýnilega skammt undan. Skipið hafði borið frá bátnum og var spölkorn undan þegar þeir sáu það hallast enn meira til stjórnborða og afturenda þess rísa úr sjó. Bátaþilfarið, afturskipið, skrúfan, stýrið, en , aðeins nokkur andartök og síðan stakkst skipið í djúpið. Þeir horfðu á hringiðuna, sem myndaðist þrátt fyrir ölduna, og brátt tók lausum hlutum að skjóta upp á yfirborðið. Það var máske fyrst nú, er skipið var sokkið og mennirnir 32 í lífbáti í haugasjó, 33 sjómílur frá landi, að þeir gerðu sér fulla grein fyrir kringumstæðum. Allt hafði gerzt svo hratt og óraunverulega. Margir voru meiddir, þeirra á meðal Auðunn Sæmundsson, faðir skipstjórans og aldursforsetinn um borð. Tveir voru þó verst haldnir. Ólafur Halldórsson sem var slasaður á öxl og Gunnar Eiríksson, sem var nærri drukknaður undir netinu. Fátt var hægt að gera mönnunum til aðstoðar. Margir voru fáklæddir, engin föt voru í lífbátnum og þeim kólnaði fljótt.
Menn reyndu að standa og sitja þétt og vonuðu að togararnir sem voru í grennd hefðu heyrt neyðarkallið. Þá rak yfir staðinn, þar sem Fylkir hvíldi nú á botninum. Vonuðu að hinn lífbáturinn hefði losnað og myndi skjóta upp. Sú von brást. Meðal togaranna, sem voru að veiðum nær landi var B v. Hafliði frá Siglufirði. Loftskeytamaðurinn þar heyrði neyðarkall Fylkis. Einnig heyrði loftskeytamaðurinn á varðskipinu Þór, sem statt var við Vesturland neyðarkallið, en aðeins einu sinni. Fleiri togarar en Hafliði heyrðu til Fylkis, og settu á fulla ferð á slysstaðinn. Það var um hálftíma eftir að Fylkir sökk, sem Hafliði kom að bátnum. Það var byrjað að skíma og það auðveldaði björgunina að sjálfsögðu. Auðunn Auðunsson kallaði til Alfreðs Finnbogasonar skipstjóra á Hafliða og bað hann að koma kulmegin við bátinn. Togarinn stanzaði og rak að bátnum. Um borð í Hafliða voru margar hendur á lofti til þess að aðstoða Fylkismenn um borð. Eftir að björgun var lokið, var stefna sett til Ísafjarðar. Stuttu síðar var skeyti sent til Sæmundar Auðunssonar, framkvæmdarstjóra Fylkisútgerðarinnar.


B.v. Fylkir RE 161 í Grimsby. Mennirnir á bakkanun eru Kristján Andrésson skipstjóri og síðar hafnarvörður í Þorlákshöfn og Einar Torfason stýrimaður.  Ljósmyndari óþekktur.
  
Ennfremur til Ísafjarðar, þar sem beðið var um að læknir kæmi út með lóðsbátnum vegna hinna meiddu. Fregnin um að Fylkir hefði farizt á tundurdufli barst fljótt um Ísafjörð og þegar Hafliði kom að bryggju var þar margt manna saman komið. Farið var með Ólaf, Gunnar og nokkra aðra, sem voru meiddir á spitalann. Það kom í ljós, að Gunnar hafði drukkið mikinn sjó og var kominn með heiftúðuga lungnabólgu. Ólafur hafði farið úr liði um öxl og liðpokinn rifnað. Skurðaðgerð var því nauðsynleg. Þennan sama dag var sagt frá þvi í fréttum útvarpsins, að Fylkir hefði sokkið að völdum tundurdufls. Í sama fréttatíma kom einnig fram, að undirritað hefði verið samkomulag í Paris, milli Íslendinga og Breta um að löndunarbannið, sem verið hafði í gildi í fjögur ár væri úr sögunni.
Hinn 15. nóvember kom varðskipið Þór með mennina af Fylki til Reykjavíkur. Vinir og venzlamenn fjölmenntu niður að höfn og fögnuðu skipshöfninni. Hópurinn, sem svo nauðuglega hafði bjargast, kom þó ekki allur. Ólafur Halldórsson og Gunnar Eiríksson urðu eftir á spítalanum á Ísafirði. Þeir dvöldust nokkrar vikur á sjúkrahúsi, en náðu báðir heilsu við góða umönnun og hjúkrun á Ísafirði. Nokkru áður en Fylkir hélt út í þessa örlagariku veiðiferð hafði útgerðin pantað tvo gúmmíbjörgunarbáta, sem þá voru lítt þekkt björgunartæki hér á landi, nema þá fyrir flugvélar. Bátarnir áttu að koma um borð í skipið í næstu ferð. Meðal ráðamanna í landi virtist viss mótstaða gegn þessari nýju gerð björgunarbáta , þótt þeir sjómenn, sem höfðu kynnt sér þá, væru hinsvegar á einu máli um notagildi þeirra. Auðunn Auðunsson skipstjóri var við komuna til Reykjavíkur, beðinn að segja frá atburðunum, er Fylkir fórst, í útvarpi. Hann sagði frá því sem fyrir kom, en hélt einnig hina skeleggustu ræðu, þar sem hann lýsti gúmmíbjörgunarbátunum. Sennilegt er, að þetta framlag Auðuns hafi orðið þungt á metunum, er skömmu síðar var ákveðið, að slíkir bátar skyldu vera um borð í öllum skipum. Það hefir af flestum sem til þekkja verið talið yfirnáttúrlegt, að enginn skyldi slasast lífshættulega, er tundurduflið sprakk við borðstokk Fylkis. Kannske var það einnig lán, að illa gekk að losa lífbátinn stjórnborðsmegin. Þegar hann loks losnaði, var skipið orðið svo sigið, að hann komst óskemmdur í sjóinn. Og þótt illa horfði um hrið, sigldi allur mannskapurinn af Fylki áfram, eftir að skip var horfið í djúpið, eins og í draumi skipstjórans.

Vikan. 34 árg. 49 tbl. 7 desember 1972.
Sveinn Sæmundsson.


B.v. Fylkir RE 161 á veiðislóð.                                                                          Ljósmyndari óþekktur.

    Skipshöfnin á Fylki sem öll komst af

Samkvæmt upplýsingum frá Þorsteini Einarssyni, forstöðumanni skrifstofu lögskráningar skipshafna, voru þessir menn á Fylki í þessari síðustu veiðiferð skipsins:
Auðunn Auðunsson, skipstjóri,
Gunnar Hjálmarsson, 1. stýrim., Lundi við Nýbýlaveg.
Valdimar Einarsson, 2. stýrim., Nesvegi 66.
Viggó Gíslason, 1. vélstjóri, Mávahlíð 24.
Guðmundur Í. Bjarnason, 2. vélstjóri, Kvisthaga 21.
Þórður Hannesson, 3. vélstjóri, Hverfisgötu 96.
Jörundur Sveinsson, loftskeytam., Litla-Landi, Mosfellssveit.
Þorbjörn Þorbjörnsson, bátsm., Birkimel 6A.
Emil Pálsson, 1. matsveinn, Vestmannaeyjum.
Karl Jóhannsson, 2. matsveinn, Akurgerði 8.
Einar Steingrímsson, kyndari, Reykjahlíð 10.
Auðunn Sæmundsson, bræðslumaður, Miklubraut 62.
Magnús G. Jóhannsson, netam., Akranesi.
Rafn Kristjánsson, netamaður, Lækjargötu 12.
Steingrímur Elíasson, netamaður. Stað, Seltjarnarnesi.
Jóhannes H. Jónsson, Höfðaborg 39.
Magnús Jónasson, háseti, Skipasundi 13.
Ólafur Halldórsson, háseti, Eskihlíð 12B.
Guðmundur Guðlaugsson, háseti, Tálknafirði.
Hafsteinn Gunnarsson, háseti, Höfðaborg 41.
Árni Konráðsson, háseti, Bergþórugötu 41.
Þór G. Jónsson, háseti, Víðimel 49.
Ari Jóhannesson, háseti, Vesturgötu 55.
Kristmundur Þorsteinsson, háseti, Flókagötu 18.
Gunnar Eiríksson, háseti, Vestmannaeyjum.
Guðjón Sigmundsson, háseti, skála við Faxaskjól.
Ragnar Zophóníasson, háseti, Mávahlíð 9.
Ásgeir Þorsteinsson, háseti, Borgarholtsbraut 30A, Kópav.
Friðþjófur Strandberg, háseti, Rvík. Heimilisfang ókunnugt.
Indriði Indriðason, háseti, Hverfisgötu 98A.
Njáll Guðmundsson, háseti, Skipasundi 3.
Benedikt Kristinsson, háseti, Hjallavegi 10.

Morgunblaðið. 15 nóvember 1956.


Flettingar í dag: 1257
Gestir í dag: 115
Flettingar í gær: 421
Gestir í gær: 22
Samtals flettingar: 1191659
Samtals gestir: 83671
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:18:30