28.02.2018 19:14

Dráttarbáturinn Magni í slippnum í Reykjavík.

Það var falleg sjón að sjá Magna kominn í slipp. Gott og þarft verk að gera skipið upp, eða að reyna það. Mér finnst nú að ríkið eigi að styrkja þetta verkefni, þetta er jú fyrsta stálskip sem smíðað er hér á landi. Það vantar ekki að það er hlaupið til þegar á að vernda eða endurbyggja einhverja fúabragga hér og þar um landið, þá er til nóg fé. Það vantar ekki. Magni er stór hluti af skipasögu okkar sem ber að varðveita. Mér skilst að ný vél í hann (samskonar vél og er í honum) kosti um 6 milljónir. Minjastofnun mætt alveg koma að þessu verkefni fyrir hönd ríkisins. En hvað um það, Magni er glæsilegt skip og markaði merk tímamót í sögu okkar Íslendinga.


146. Magni. Dráttarskip.      














                                                                                    (C) Þórhallur S Gjöveraa. 28 febrúar 2018.

  "Magni"afhentur hafnarstjórn á laugardag
  Mjög traustur, verður notaður sem dráttarbátur,                    
ísbrjótur og til vatnsflutninga

Dráttarbáturinn Magni, fyrsta stálskipið, sem smíðað hefur verið hér á landi, var afhent hafnarstjórn á laugardaginn. Benedikt Gröndal verkfræðingur afhenti skipið fyrir hönd Stálsmiðjunnar, en Valgeir Björnsson hafnarstjóri veitti því móttöku fyrir hönd hafnarstjórnar. Í tilefni afhendingar skipsins var borgarstjóra, hafnarstjórn, ýmsum er unnið höfðu að byggingu skipsins og fleiri gestum boðið um borð í Magna, og var skipinu siglt upp undir Gufunes, en þar fór afhendingin fram, Gekk báturinn í þessari siglingu rúmar 11 sjómílur, en hafði áður í reynslusiglingu gengið 12,2 sjómílur á klukkustund. Samningar um smíði Magna voru undirritaðir 28. apríl 1953, og var skipið sjósett frá Stálsmiðjunni 15. október 1954. Síðan hefur verið unnið að niðursetningu véla, innréttinga og öðrum útbúnaði skipsins, og hafa þar ýms fyrirtæki lagt hönd að verki. Vélsmiðjan Hamar sá um niðursetningu aðalvéla, Héðinn um spil, stýrisútbúnað, skrúfu og fleira. Allt tréverk var unnið á vegum Slippfélagsins og raflagnir annaðist Volti h.f. Eins og kunnugt er, þá er Magni byggður sem ísbrjótur, og því mun sterkbyggðari en venjuleg skip, og þó að hann sé einkum ætlaður sem dráttarbátur og til vatnsflutninga fyrir höfnina (en hann tekur um 65 tonn af vatni), er hann byggður samkvæmt fyllstu kröfum um úthafsskip. Vistarverur skipshafnar eru mjög rúmgóðar og smekklega innréttaðar, en í skipinu eru vistarverur fyrir 7 manns, auk sjúkraherbergis. Skipstjóri á Magna verður Theodór Gíslason, en 1. vélstjóri Sigurður Ólafsson. Aðalaflvél skipsins er 1.000 hestöfl, og má geta þess, að hún vegur um 20 smálestir. Auk aðalvélarinnar eru fjórar hjálparvélar, dæluvél og ljósavélar. Rúmteikningar að skipinu gerði Hjálmar R. Bárðarson skipaskoðunarstjóri, en yfirumsjón með byggingunni hafði Gunnar Norðland skipaverkfræðingur Stálsmiðjunnar. Byggingarkostnaður Magna var áætlaður við samningsgerð 6,4 milljónir króna, og sagði hafnarstjóri í ræðu sinni við móttöku skipsins, að líkur væru á að sú áætlun stæðist, en ennþá eru ýmsir reikningar í sambandi við byggingu skipsins óuppgerðir. Tjáði Hafnarstjóri Stálsmiðjunni þakkir sínar fyrir hið stórhuga átak og brautryðjendastarf er hún hefði unnið með byggingu þessa fyrsta stálskips landsins, og kvað alla samvinnu við fyrirtækið hafa verið hina ánægjulegustu.

Vísir. 27 júní 1955.


Flettingar í dag: 1882
Gestir í dag: 116
Flettingar í gær: 421
Gestir í gær: 22
Samtals flettingar: 1192284
Samtals gestir: 83672
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:39:31