04.03.2018 09:39

507. Valbjörn ÍS 13. LBDH / TFCJ.

Mótorskipið Valbjörn ÍS 13 var smíðaður í Risör í Noregi árið 1928. 41 brl. 90 ha. Ellwe vél, smíðuð hjá Svenska Maskinverken í Stokkhólmi, Svíþjóð. Eigendur voru Jón Kristjánsson, Sölvi Ásgeirsson, Ketill Guðmundsson, Finnur Jónsson og Vilmundur Jónsson á Ísafirði frá desember á sama ári. Ný vél (1943) 120 ha. Ruston díesel vél. Frá 3 nóvember 1943, var Samvinnufélag Ísfirðinga eigandi bátsins. Seldur 6 desember 1951, Mími h/f í Hnífsdal, hét Mímir ÍS 30. Ný vél (1955) 240 ha. GM díesel vél. Seldur 31 október 1959, Gylfa h/f á Ísafirði, hét þá Gylfi ÍS 303. Seldur 28 september 1968, Ólafi V Sverrissyni í Grindavík, báturinn hét Gylfi Örn GK 303. Báturinn sökk út af Höfnum á Reykjanesi 23 ágúst árið 1971. Áhöfnin, 2 menn, bjargaðist um borð í Gullþór KE 85 frá Keflavík.


Valbjörn ÍS 13.                                                                                       (C) Sigurgeir B Halldórsson.

    Bátar Samvinnufélags Ísfirðinga

Mótorskipum Samvinnufjelags Ísfirðinga hafa nýlega verið nöfn gefin. Heita þau Ásbjörn, Ísbjörn, Sæbjörn, Vébjörn og Valbjörn. Ráði félagið yfir 100 skipa flota í framtíðinni, gæti svo farið að það yrði í bjarnarnafnahraki, ef ekki má frá þeim víkja.

Verkamaðurinn. 30 október 1928.

       Bátar Samvinnufélagsmanna

M. s. Sæbjörn, eigandi Ólafur Júlíusson o. fl., kom hingað á aðfaranótt þorláksmessu og hafði verið sjö og hálfan sólarhring frá Risör. M. s. Ísbjörn, eigandi Rögnvaldur Jónsson o. fl., kom hingað að morgni þess 27. M. s. Ásbjörn, eigandi Haraldur Guðmundsson o. fl., var í Vestmannaeyjum í gær. M. s. Vébjörn var í Færeyjum á annan dag jóla, en er nú lagður af stað heimleiðis. M. s. Valbjörn hreppti vont veður og snéri aftur til Noregs, vegna einhverrar bilunar á olíugeymi.
Bátarnir eru allir 44-45 tonn að stærð, með 90 hk. Elwe-vél. Reynst hafa þeir sem komnir eru, hin bestu sjóskip, á þessari löngu og hættulegu ferð.

Vesturland. 29 desember 1928.


507. Valbjörn ÍS 13. Líkan.                                              (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.

                  Valbjörn ÍS 13

M.b. Valbjörn kom hingað 16. þ m. Eru nú allir bátar samvinnufélagsmanna komnir

Skutull. 18 janúar 1929.


Valbjörn ÍS 13 með fullfermi síldar á Siglufirði.                                                  (C) Leó Jóhannsson.


507. Gylfi ÍS 303.                                                         (C) Snorri Snorrason. Úr safni Atla Michelsen.

            Sökk á leið í slipp eftir bruna

Vélbáturinn Gylfi ÍS 303 frá Grindavik sökk í gær út af Höfnum á Reykjanesi. Tveir menn voru um borð í bátnum og björguðust þeir yfir í Gullþór KE, sem hafði komið til aðstoðar, þegar mikili leki kom að Gylfa. Gylfi ÍS 303 var 47 tonna eikarbátur, smíðaður í Noregi 1928. Skipstjóri og eigandi var Ólafur Sverrisson, Grindavik, Gylfi var á leið í slipp í Njarðvíkum, en á föstudagsmorgun kom upp eldur í lúkar bátsins í Grindavík. Slökkvilið Grindavíkur var kvatt út klukkan 05:45 á föstudagsmorgun og var lúkar Gylfa þá alelda, Slökkvistarf gekk greiðlega, en miklar skemmdir urðu frammi í bátnum. Talið er, að eldurinn hafi kviknað út frá eldavél.
Seinnipartinn í gær lagði svo Gylfi af stað frá Grindavik til Njarðvíkur, þar sem taka átti bátinn í slipp. Sæmilegt veður var, en þegar báturinn var stadduir út af Hafnabergi, kom að honum mikill leki frammi í. Um borð voru skipstjóri og vélstjóri og tókst þeim ekki að stöðva lekann. Vélbáturinn Gullþór KE var staddur skammt frá og kom hann Gylfa til aðstoðar, en þá hafði vél Gylfa stöðvazt. Gullþór tók Gylfa í tog og var haldið áfram vestur fyrir Reykjanes, en eftir um hálfa klukkstund, um klukkan 18:30 var Gylfi orðinn svo siginn í sjó, að tauginni var sleppt og sökk hann skömmu síðar.
Skipverjar á Gylfa voru þá komnir yfir í Gullþór, sem flutti þá til Grindavíkur. Sjópróf fara fram í dag.

Morgunblaðið. 25 ágúst 1971.



Flettingar í dag: 2697
Gestir í dag: 53
Flettingar í gær: 1155
Gestir í gær: 85
Samtals flettingar: 1196472
Samtals gestir: 83813
Tölur uppfærðar: 2.4.2025 22:01:18