17.03.2018 08:33

616. Jón Guðmundsson KE 4. TFNY.

Vélskipið Jón Guðmundsson KE 4 var smíðaður hjá Schlichting Werft í Lubeck-Travemunde í Þýskalandi árið 1960 fyrir Ólaf Lárusson útgerðarmann í Keflavík. Eik. 68 brl. 400 ha. MWM díesel vél. Skipið var selt 10 júní 1964, Meitlinum h/f í Þorlákshöfn, hét Ísleifur ÁR 4. Selt 7 desember 1971, Bakkaskipi h/f á Eyrarbakka, hét Askur ÁR 13. Ný vél (1976) 425 ha. Caterpillar díesel vél. 11 júlí var Byggðasjóður eigandi skipsins. Selt 15 maí 1981, Herði Bjarnasyni á Ísafirði, hét Guðbjörg ST 17. Frá 18 maí 1981 hét skipið Laufey ÍS 251. Frá sama tíma var skipið skráð á Byggðasjóð. Selt 21 október 1982, Friðrik Friðrikssyni, Sveini Sveinssyni, Jóhannesi Friðrikssyni og Hauki Jónassyni á Siglufirði, hét Dagur SI 66. Selt 18 desember 1985, Flóa h/f á Patreksfirði, hét Egill BA 77. Selt 14 júlí 1987, Stefáni Rögnvaldssyni á Dalvík, hét Stefán Rögnvaldsson EA 345. Ný vél (1988) 510 ha. Caterpillar díesel vél, 375 Kw. Skipið var selt árið 2008, Skarfakletti ehf á Blönduósi, hét Stefán Rögnvaldsson HU 345. Árið 2011 er nafni skipsins breytt, hét þá Stefán HU 38, sami eigandi. Selt sama ár Reddingu ehf á Flateyri, hét Markús ÍS 777. Skipið sökk við bryggju á Flateyri 3 ágúst 2013 en náðist upp stuttu síðar. Það var svo 19 september sama ár þegar Kristbjörg ÍS 177 var með Markús í drætti frá Flateyri til Ísafjarðar, en þar átti að rífa skipið, að það sökk endanlega út af Sauðanesi.


616. Jón Guðmundsson KE 4.                                   (C) Snorri Snorrason. Úr safni Atla Michelsen.

     Fimmti nýi báturinn til Keflavíkur

Keflavík, 4. apríl. Nýr bátur kom í morgun til Keflavíkur, Jón Guðmundsson KE 4. Hann er smíðaður í Travemunde í Þýzkalandi eftir teikningu Tryggva Gunnarssonar frá Akureyri. Í bátnum er 400 ha. Mannheim dieselvél og öll nýjustu og beztu tæki til siglinga og fiskleitar.
Skipið reyndist mjög vel á heimleið. Skipstjóri er Arnbjörn Ólafsson, sonur Ólafs Lárussonar eiganda bátsins, og verður hann einnig fiskiskipstjóri. Hann fer á netaveiðar á morgun. Þetta er 5 nýi báturinn, sem kemur til Keflavíkur á þessari vertíð.

Morgunblaðið. 12 apríl 1960.


616. Jón Guðmundsson KE 4. Líkan Gríms Karlssonar.                             (C) Þórhallur S Gjöveraa.


616. Stefán Rögnvaldsson EA 345.                                                 (C) Hafþór Hreiðarson.


616. Markús ÍS 777.                                                                         (C) Jón Steinar Sæmundsson.

      Markús ÍS sökk í Flayteyrarhöfn

Trébáturinn Markús ÍS sökk í Flateyrarhöfn aðfararnótt sunnudags en lensidæla skipsins var ekki í gangi. Guðmundur M. Kristjánsson, yfirmaður hafna Ísafjarðarbæjar, segir bátinn á ábyrgð eigenda sinna og var hann í þeirra umsjá. Reyna átti að ná bátnum upp á þriðjudag. Markús er gamall trébátur sem var smíðaður árið 1960 og hefur ekki verið gerður út í nokkurn tíma.

Bæjarins besta. 8 ágúst 2013.


616. Markús ÍS 777 sokkinn í höfninni á Flateyri.                                              (C) Páll Önundarson.

      Markús ÍS sökk út af Sauðanesi

Þann 19. september 2013 var Markús ÍS 777 í drætti við Sauðanes. Veður: NV 8 m/sek. Það var Kristbjörg ÍS 177 sem var á leiðinni með Markús ÍS frá Flateyri til Ísafjarðar en þar átti hann að fara í niðurrif. Þegar bátarnir voru staddir út af Sauðanesi slitnaði dráttartaugin og eftir nokkurn tíma tókst að koma annarri taug á milli þeirra aftur en þá var Markús ÍS orðinn talsvert siginn. Fljótlega eftir að lagt var að stað aftur sökk Markús ÍS á stað 66°06'52N og 23°40'17V. (Markús ÍS sökk við bryggjuna á Flateyri þann 3. ágúst 2013 eftir að hafalegið þar síðan í mars 2012). Málið hefur ekki verið tekið fyrir.

Rannsóknarnefnd sjóslysa.


Flettingar í dag: 1257
Gestir í dag: 115
Flettingar í gær: 421
Gestir í gær: 22
Samtals flettingar: 1191659
Samtals gestir: 83671
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:18:30