01.04.2018 08:16
Finnbjörn ÍS 24. TFLR.
Nýju
birnirnir
Samvinnufélag Ísfirðinga hefir fengið tvo 80 tonna báta frá
Svíþjóð. Þann 12. júní kom fyrri bátur Samvinnufélagsins, Ísbjörn til
Ísafjarðar, og var hann fyrsti Svíþjóðarbáturinn, sem hingað kom í bæinn.
Ísbjörn er byggður í Skredsvik hjá Bröderna Olsons Bátsvarv eftir teikningu
Bárðar G. Tómassonar skipaverkfræðings. Skipstjóri á Ísbirni er Ólafur
Júlíusson. Síðari bátur Samvinnufélagsins, Finnbjörn, kom hingað miðvikudaginn
10. júlí. Hann er byggður hjá Halmstads Varvs nya Aktiebolag í Halmstad í Svíþjóð,
einnig eftir teikningu Bárðar Tómassonar. Skipstjóri á Finnbirni er Jón
Kristjánsson. Báðir nýju birnirnir eru með 215 hestafla Atlas diesel og 10
hestafla ljósavél, dýptarmæli, útvarpsmóttöku- og sendistöð og talbrú. Eftir er
að setja í þá miðunarstöð. Ganghraði þeirra er um 9 mílur. Búist er við, að
kostnaðarverð þeirra hvors um sig verði 500-550 þúsundir kr. með síldardekki og
togútbúnaði.
Bjarni Fannberg sigldi báðum björnunum til landsins og kom með Finnbirni alla
leið til Ísafjarðar.
Skutull. 28-29 tbl. 12 júlí 1946.
Askur KE 11. Líkan Gríms Karlssonar. (C) Þórhallur S Gjöveraa.
Bátur brann
við bryggju í Keflavík
Aðfaranótt sunnudagsins kom upp eldur í vélbátnum Aski KE í
Keflavíkurhöfn. Slökkviliðið var kvatt á vettvang, báturinn dreginn að bryggju,
og var eldurinn fljótlega slökktur með því að dæla á hann sjó, en þá fór
báturinn á hliðina og sökk við bryggjuna. Eldsins varð fyrst vart laust eftir
kl. þrjú um nóttina, en þá skíðlogaði aftantil í bátnum. Sennilegast er talið
að kviknað hafi í vélarrúmi eða káetu.
Slökkviliðið hófst þegar handa að dæla sjó á eldinn og tókst að ráða niðurlögum
hans fljótlega, en þá tókst ekki betur til en svo að báturinn seig á hliðina,
vegna sjávarins, sem í honum var og sökk. Stendur þó nokkur hluti hans úr sjó.
Eigandi Asks er Angantýr Guðmundsson. Hefur hann orðið fyrir tilfinnanlegu
tjóni, þar eð báturinn er stórskemmdur. Var hann tryggður fyrir 2,7 milljónir
kr., en geta má þess, að bátar af sömu stærð (80 tonn) eru yfirleitt tryggðir
fyrir allt að 5 milj. kr. Angantýr keypti bátinn fyrir nokkru af Einari
Sigurðssyni.
Tíminn. 13 desember 1960.
Hamar GK 32
ferst
11
bjargast á sögulegan hátt
Voru á
annan sólarhring á reki og á eyðieyju
Laust eftir klukkan níu á laugardagskvöldið sökk vélskipið
Hamar GK-32 frá Sandgerði um 30 sjómílur suðaustur af Jökli. Lagðist skipið á
bliðina og gerðist allt með svo skjótum hætti að skipsmenn björguðust fáklæddir
í gúmmíbát og vannst ekki tími til að kalla í talstöðina. Rak skipbrotsmennina,
11 talsins, fyrir sjó og vindi alla laugardagsnóttina og tóku land í Hvalseyjum
undan Ökrum á Mýrum, um 6 mílur frá landi. Þrátt fyrir að þeir kveiktu bál,
sendu upp svifblys, sæju bílaumferð í landi og tvær flugvélar, vissi enginn um
skipbrotið fyrr en sex mannanna tókst að róa í land á gúmmíbátnum seint á
sunnudagskvöldið. Björguðust skipsmenn allir og má telja það mikla mildi. Má
nærri geta hversu farið hefði ef vindur hefði staðið af landi, bátinn rekið á
haf út og enginn hefði vitað betur en Hamar væri ofansjávar á leið á
síldarmiðin fyrir Norðurlandi. Hamar var 80 tonna skip, endurbyggt upp úr Aski,
sem brann og sökk í höfninni í Keflavík í desember 1960. Var báturinn búinn
öllum fullkomnustu tækjum til síidveiða, asdictækjum, radar, kraftblökk,
dýptarmælum o.s. frv. Eigandi bátsins var Páll Ó. Pálsson, útgerðarmaður í
Sandgerði, en hlutafélagið Miðnes í Sandgerði hafði leigt bátinn til síldveiða
fyrir Norðurlandi í sumar, og var báturinn á leið þangað er hann sökk.
Skipstjóri var Birgir Erlendsson, sonur Erlendar Þorsteinssonar formanns
síldarútvegsnefndar, 34 ára gamall til heimilis í Kópavogi, stýrimaður Eðvald
Eyjólfsson, 36 ára, Reykjavík, 1. Vélstjóri Friðrik Sigurðsson, 42 ára,
Sandgerði, II vélstjóri Tómas Þórhallsson, 24 ára, Reykjavík, matsveinn Jón
Þórir Gunnarsson, 38 ára, Reykjavík og hásetar Georg Georgsson, 36 ára,
Reykjavík, Björn Ragnarsson, 22 ára, Sauðárkróki, Erling Guðmundsson, 20 ára,
Sauðárkróki, Guðmundur Friðriksson, 16 ára, Sandgerði, Gísli Ólafsson, 16 ára,
Sandgerði, og Sigurður Jónsson, 32 ára, Keflavík.
Fréttamaður Mbl. átti í gær tal við Eðvald Eyjólfsson, stýrimann, en hann var í
brú bátsins er óhappið vildi til. Sagðist Eðvald svo frá þessari einstæðu ferð
þeirra félaga:
Það var um fjögurleytið síðdegis á laugardag að við lögðum upp frá Reykjavík.
Ætluðum við vestur fyrir Jökul og norður um á miðin. Vindur var af suðvestri,
6-7 vindstig og nokkur alda. Klukkan rúmlega 9 um kvöldið vorum við staddir um
30 sjómílur suðaustur af Jökli. Ég var þá í brúnni og háseti við stýrið, og
höfðu vaktaskipti farið fram klukkan 9. Tveir hásetar voru frammi í lúkar, en í
káetu var 1. vélstjóri. Hinir voru aftur í borðsal. Síðan gerðist það að skipið
hallaði skyndilega undan einni öldunni og tók sjó inn í ganginn
stjórnborðsmegin. Á næstu báru fór skipið alveg á hliðina. Við slógum strax af
við fyrri báruna, Qg skipstjóri kom fram í brú þegar í stað. Var skipinu snúið
undan og reynt að rétta það með stýrinu en það virtist ekkert gagna,, enda
lagðist það á möstrin um leið, svo að við sáum niður í sjóinn um gluggana
stjórnborðsmegin Skipstjórinn kallaði strax að bátinn yrði að hafa tilbúinn.
Lá
skipið þá á hliðinni með gluggana á brúnni í kafi stjórnborðsmegin en bakborðsgluggarnir
vissu beint upp í loftið. Fór skipstjóri upp um hurðina og ég á eftir. Virtist
okkur strax að eina vonin til bjargar væri að koma bátnum út. Báturinn var
staðsettur á þaki stýrishússins, stjórnborðsmegin, og var á kafi í sjó. Var
báturinn í trékistu, sem fest var við þakið en á henni var lok, fest með
böndum. Skipstjóri kafaði eftir bátnum og tókst að opna kistuna. Flaut báturinn
þá strax upp, og var þá tekið í línuna til að blása hann upp. Hásetarnir tveir,
sem voru frammí gengu eftir síðu skipsins afturá, svo mikill var hallinn. Var
talsvert bras við gúmmíbátinn, en afturmastrið og loftnetsvírinn slógust í hann
og áttum við mjög erfitt með að halda bátnum frá. Ég stökk út í bátinn af
afturmastrinu og komst nokkurnveginn þurr. 1. vélstjóri flæktist um stund í
nótinni, en losnaði aftur. Var hann með bjarghring utan um sig, og var sá eini
okkar, sem hafði tíma til þess að ná í lífbelti. Flestir voru fáklæddir, 1.
vélstjóri á skyrtu og nærbuxum, skipstjóri á nærklæðum, flestir skólausir og
aðeins einn í stígvélum. Mjög erfitt var að ná bátnum frá skipinu, en við sáum
brátt að nótin hafði losnað og komin spölkorn frá skipinu. Sáum við brjóstlínu frá
nótinni, gátum náð í hana og halað okkur frá sökkvandi skipinu. Síldardekkið
flaut allt út og við náðum tveimur þilfarsborðum, sem við notuðum í stað ára,
og kom það sér vel síðar.
Kort af Mýrunum þar sem má sjá Hvalseyjar undan Ökrum.
Nokkuð þröngt var um okkur í bátnum, sem er gerður fyrir 10 menn. Lokuðum við
honum strax öðru megin, en frá hinni hliðinni sá ég Skipið sökkva skömmu síðar.
Við héldum bátnum undan þar til skipið sökk, en það mun hafa verið 10 mínútum
eftir að við fórum í bátinn. Var síðan látið reka og notuðum við spýturnar til
þess að snúa undan veðrinu alla nóttina. Það var kuldi og bleyta í bátnum og
menn urðu sjóveikir, sem tilheyrir víst þessum gúmmíbátum. Við gerðum upphaflega
ráð fyrir að við yrðum ekki nema 4-5 klst. að reka upp að landi, en þær urðu
15. Um klukkan átta á sunnudagsmorguninn fórum við að grilla í land. Við vissum
að framundan voru Mýrarnar með öllum sínum skerjum og grynningum, og þegar við
nálguðumst þær skutum við öðru svifblysinu af tveimur, sem í báta um voru. Við
tókum land í Hvalseyjum nokkru fyrir klukkan eitt á sunnudag. Þegar við
nálguðumst eyjarnar var þar talsvert um grunnbrot. Þurftum við að róa fyrir
eitt brotið og hefðum sennilega lent í því ef ekki hefði verið fyrir spýturnar
góðu. Þegar við komum framhjá þessum brotum sáum við vík, sem virtist sæmileg
til landtöku, og ákváðum að fara í land þar en halda ekki áfram. Tókst
landtakan ágætlega. Ekkert mannvirki var á eyju þessari og hún algjörlega í
eyði. (Hér mun sennilega átt við stærstu eyna í Hvalseyjum, Húsey-innskot Mbl.)
Reiknaðist mér til að eyjan væri á stærð við Örfirisey.
Fyrsta verk okkar var að safna saman rekaviði og kveikja bál. Notuðum við tvö
blys til að kveikja í kestinum, sem logaði í 5-6 klst. Bárum við þara og gras á
eldinn til þess að sem mestan reyk legði af honum. Þá fundum við bambusstöng,
festum veifu úr gúmmíbátnum á hana og reistum síðan stöngina. Bátinn settum við
á áberandi stað rétt hjá stönginni. Undir kvöld skutum við síðara svifblysinu,
en allt kom fyrir ekki. Seint um kvöldið vorum við vissir um að enginn hefði
tekið eftir okkur. Voru það okkur vonbrigði því við sáum bæinn að Ökrum og
kirkjuna, bílaumferð í landi og tvær flugvélar hátt í lofti. Reyndum við m.a. að
gefa merki til flugvélanna og lands með sólspegli. Þegar leið á daginn gerði
stinningskalda af norðri. Fluttum við okkur þá ofar í eyna og hagræddum okkur
sem bezt við gátum. Um 10- leytið um kvöldið fór að lygna og var komið logn um
klukkan 10:30. Fórum við þá að ræða um hvað bezt væri að gera og ákváðum að sex
menn skyldu freista þess að róa til lands í gummíbátnum, skipstjóri, ég, báðir
vélstjórarnir, matsveinninn og einn háseti. Skyldu fjórir róa en tveir leysa
af. Fundum við tvær heppilegar spýtur til að róa með og höfðum þær með auk
þilfarsborðanna.
Áður en við lögðum af stað skárum við flot púðana neðan af
gúmmíbátnum og tókum loftflöskuna úr slíðrum, til þess að auðveldara yrði að
róa bátnum. Róðurinn til lands gekk ágætlega,, og vorum við um tvær klukkustundir
að fara þessar sex mílur. Lentum við í vík beint fyrir neðan Akra, og gekk
lendingin ágætlega. Þarna var nokkur alda og ein báran henti okkur skemmtilega
10-15 metra áfram, langleiðina upp í fjöru, rétt eins og maður væri að sigla á
öldum á Hawaii. Síðan gengum við upp að bænum. Fór ég fyrstur þar sem ég hafði
skóræfla á fótum, og hinir komu rétt á eftir. Allir voru í fasta svefni, en
bóndinn, Ólafur Þórðarson, kom til dyra. Sagði ég honum að við værum
skipbrotsmenn af skipi, sem hefði farist úti í bugtinni nóttina áður og fimm
aðrir væru í Hvalseyjum. Bóndi sagði að hann ætti árabát en treysti honum ekki
til að fara í eyna. Hringdi hann síðan á næstu bæi ag lét slysavarnafélagið
vita hvernig komið væri. Síðan fór hann með okkur á næsta bæ, Akra III. Fengum
við hinar beztu móttökur þar. Var síðan hringt til Helga Gíslasonar bónda á
Tröðum, og fór hann á báti og sótti þá, sem eftir urðu í eynni, og fór með þá
heim að Tröðum. Við lögðum okkur eftir að hafa fengið hressingu og sváfum til
klukkan sex um morguninn, en þá kom bíll frá Þórði Þ. Þórðarsyni á Akranesi og
flutti okkur til Reykjavíkur. Hafði útgerðin sent bílinn jafnskjótt og kunnugt
varð um atburðinn.
Mér finnst það undursamlegt, hvernig við sluppum frá þessu öllu, en okkur
finnst að útbúa þyrfti þessa gúmmíbáta með litlum árum og umfram allt talstöð.
Óhugsandi var að komast í talstöðina er skipið sökk og ef vindur hefði staðið
af landi, hefði okkur rekið til hafs, og engin leið að segja hvenær það hefði
uppgötvast að skipið var ekki lengur ofansjávar, sagði Eðvald stýrimaður að
lokum.
Morgunblaðið. 3 júlí 1962.