05.04.2018 16:11
2780. Ásgrímur Halldórsson SF 250. TFBL.
Nýr Ásgrímur
Halldórsson SF
leysir Jónu Eðvalds af hólmi
Gangmeira og
burðarmeira skip
"Verkefnin breytast ekki," segir Gunnar Ásgeirsson,
stjórnarformaður Skinneyjar-Þinganess hf. á Hornafirði. Félagið hefur fengið
nýtt og öflugt uppsjávarskip, Ásgrím Halldórsson SF 250, og lætur í staðinn frá
sér Jónu Eðvalds SF. Nýja skipið er átta ára gamalt, smíðað í Noregi en hefur
verið gert út frá Skotlandi til tog- og nótarveiða. Það hét Lunar Bow og var í
eigu Lunar Fishing. Ásgrímur Halldórsson er liðlega 61 metri að lengd og um 13
á breidd og getur borið liðlega 1.500 tonn í kælitönkum. Skipið fékk nafn
Ásgríms Halldórssonar, eins af stofnendum Skinneyjar. Ásgrímur er gangmeira og
burðarmeira skip en Jóna Eðvalds. "Við erum að hugsa um að koma hráefninu í
betra ásigkomulagi til vinnslunnar hérna. Með þessu skipi höfum við möguleika á
stöðugra og betra hráefni en verið
hefur," segir Gunnar. Krossey verður áfram gerð út.
"Þetta er glæsilegt skip. Þótt það sé átta ára gamalt lítur það út eins og
nýtt," segir Sigurður Ægir Birgisson sem er skipstjóri á Ásgrími Halldórssyni
SF ásamt Ásgrími Ingólfssyni. Sigurður segir að skipið hafi reynst vel í
siglingunni frá Skotlandi. Það hafi til dæmis varla haggast þegar það lenti í
slæmu veðri á milli Færeyja og Íslands. Stefnt er að því að Ásgrímur
Halldórsson fari til veiða á síld úr norsk-íslenska stofninum undir lok mánaðarins
ásamt Krosseynni. Skip félagsins hafa verið saman að veiðum undanfarin tvö ár,
með svokallað partroll, með góðum árangri. Það verður að sögn Sigurðar Ægis í
sömu verkefnum og Jóna Eðvalds, veiðum á síld og loðnu fyrir vinnsluna á
Hornafirði. Þó segir hann að stærra og öflugra skip skapi möguleika til að
sækja lengra, ef á þurfi að halda. Þannig segir hann til athugunar að fara einn
túr á kolmunna núna í mánuðinum til að láta reyna á tækin. Skinney-Þinganes fær
í haust tvö ný skip sem verið er að smíða í Taívan.
Þau verða notuð til humarveiða en jafnframt útbúin til annarra verkefna. "Við
erum að yngja upp skipakostinn og skapa möguleika til að koma með betra hráefni
að landi," segir Gunnar. Fyrirtækið gerir út átta skip og reiknar Gunnar ekki
með að breyting verði á því. Hins vegar sé ekki ákveðið hvaða skipum verði lagt
þegar nýju skipin koma. "Þetta er stöðug barátta, eins og alltaf hefur verið,"
segir Gunnar um stöðuna. Hann segir að engin breyting hafi orðið á verkefnum
fyrirtækisins. Það er í bolfiski, humri og uppsjávarfiski. Hann segir að taka
verði á því í stjórnuninni, þegar hann er spurður um viðbrögð við
kvótasamdrættinum sl. haust.
Morgunblaðið. 7 maí 2008.