08.04.2018 07:21
149. Mánatindur SU 95. TFOM.
Vélskipið Víðir MB 35. (C) Haraldur Sturlaugsson.
Akurnesingar
eignast nýtt skip
M.s. "Víðir" eign h.f. Víðis á Akranesi
Hið nýja skip m.s. Víðir, eign hlutafjelagsins Víðir á
Akranesi, kom hingað í gær í fyrsta sinn. Framkvæmdastjóri fjelagsins, Jón
Sigmundsson, bauð blaðamönnum að skoða hið forkunnar fagra skip. Skipið er 103
smálestir brúttó, allt byggt úr eik, og er öll smíði þess og frágangur hinn
vandaðasti, og eins fullkominn og frekast verður krafist. Vjel skips er
Lister-dieselvjel 320 hestafla. Ennfremur er ljósavjel og er hún 20 hestafla.
Skipið er allt hitað upp með rafmagni. Einnig er rafmagns eldavjel. "Raftækjaverksmiðjan
Rafha" í Hafnarfirði hefir smíðað þessi hitunartæki. Í framstafni og aftur
í skipinu eru svefnklefar skipshafnarinnar. Einnig er í framstafni skipsins og
miðskips farþegarúm. Eru þau í alla staði hin ákjósanlegnstu, bólstraðir bekkir
með öllum veggjum, og eru farþegaklefarnir hitaðir upp með rafmagnsofnum.
Báturinn er nú leigður Skipaútgerð Ríkisins til fólks og vöruflutninga milli
Akureyrar og Sauðárkróks. Hann er byggður sem fiskiskip, en þegar horfið var að
því að leigja hann, var innrjettingum skipsins breytt, þannig, að tekið var af
lestarrými til innrjettingar farþegarúms. Svo vel er frá innrjettingunum
gengið, að ekki tekur nema stuttan tíma að breyta skipinu í fiskiskip, og mun
það þá bera um 70 tonn af ísfiski. Teikningu af skipinu gerðu Eyjólfur Gíslason
skipasmíðameistari og nemandi hans, Magnús Magnússon. Bygging Víðis hófst í
Dráttarbraut Akraness í marsmánuði 1942, en nokkrar tafir urðu, eða um þriggja
mánaða tíma, sjerstaklega vegna þess, að tafir urðu á, að vjelin kæmi til landsins.
Skipstjóri verður Bernhard Pálsson frá Akureyri og vjelstjóri, Guðjón
Sigurðsson, Akranesi. Yfirsmiður við smíði bátsins var Eyjólfur Gíslason
skipasmíðameistari á Akranesi. Alla járnsmíði og niðursetningu vjela annaðist
vjelsmiðja Þorgeirs og Ellerts á Akranesi. Raflagnir annaðist Sveinn
Guðmundsson rafvirki á Akranesi, málningarvinnu Lárus Árnason málarameistari á
Akranesi, bólstrun bekkja Runólfur Ólafsson húsgagnabólstrari á Akranesi,
hurðir allar og glugga smíðaði Teitur Stefánsson trjesmiður á Akranesi og reiða
Óskar Ólafsson í Reykjavík. Hlutafjelagið Víðir var stofnað 1938, um b.v.
Sindra, er það keypti það ár, en í stjórn þess eru: Pjetur Ottesen
alþingismaður, formaður, Þorgeir Jósefsson og Halldór Jónsson. Morgunblaðið
óskar Akurnesingum og h.f. Víði til hamingju með þetta glæsilega skip.
Morgunblaðið. 16 nóvember 1943.
Mánatindur SU 95 (fjær) og Sunnutindur SU 59 við bryggju á Djúpavogi. (C) Sveinn Þorsteinsson.
Bátur til
Djúpavogs
Víðir SU 95
Vélskipið Víðir af Akranesi hefir nú verið keypt til
Djúpavogs. Víðir er 103 lesta stór og mun vera stærsta skipið í austfirska
fiskveiðiflotanum, þegar togararnir eru undanskildir. Með þessum skipakaupum
skapast á Djúpavogi stórauknir afkomumöguleikar.
Austurland óskar Djúpavogsmönnum til hamingju með skipið. Megi vonir þær, sem
við það eru bundnar, rætast.
Austurland. 23 desember 1952.
Mánatindur
SU 95
Síldveiðiskipið Víðir fiskaði rúmar 500 lestir á vetrarvertíðinni og tæp 4000 mál af síld. Rekstursafkoma hans er alveg í járnum án nokkurra afskrifta og hefur hann aukið skuld sína hjá félaginu, sem svarar afborgunum af föstum lánum, sem á honum hvíla. Nú stendur yfir mikil viðgerð á honum sökum þurrafúa, sem fannst í honum haust. Hann kemur heim aftur sem nýtt og glæsilegt skip, með nýju nafni "Mánatindur". Báturinn sem Búlandstindur hf. samdi um smíði á í Þýzkalandi hlaut nafnið "Sunnutindur" S U 59. Hann kom ekki til landsins fyrr en 8. febrúar í ár. Djúpavogsbúar fögnuðu honum vel við komuna. Jón Sigurðsson, Rjóðri, flutti kvæði ort í því tilefni. Báturinn hefur nú verið 2 mánuði á veiðum og gengið vel. Hann hefur reynst afburða sjóskip og ekkert hefur komið fyrir eða farið í ólag, hvorki í smáu né stóru. Ég vil hvetja sjómennina til þess að sýna þessum glæsilegu skipum okkar tryggð og vinna þeim vel, og láta þau bera heimahöfn sinni vitni um sjómenn, sem kunna að meta vel útbúin skip og glæsileg.
Austri. 16 tbl. 4 september 1957.
Flakið af
Mánatindi í fjörunni við Sveinstaðaseyri í Hellisfirði
Ljósmyndir
Gunnars Þorsteinssonar af leifum Mánatinds sem hann tók í júlí árið 2010. Með
honum í för var m.a. Norðfirðingurinn Kristinn Pétursson (Kiddi í Dagsbrún),
skipstjóri og útgerðarmaður á Djúpavogi. Læt hér fylgja með nokkrar myndir úr
leiðangri þeirra félaga í Hellisfjörð.
Flakið af Mánatindi á Sveinstaðaeyri í Hellisfirði.
Horft út eftir eyrinni og út Hellisfjörð. Barðsneshorn og Rauðubjörg lengst til hægri.
(C) Myndir: Gunnar Þorsteinsson.
Mánatindur
ónýtur
Í haust var Djúpavogsbáturinn Mánatindur tekinn í slipp hér í Neskaupstað og skyldi fara fram á honum gagngerð viðgerð. Við rannsókn kom í ljós, að skipið var svo illa farið af þurrafúa, að það mun hafa verið dæmt ónýtt og mun Mánatindur þar með úr sögunni. En vonandi verður þess ekki langt að bíða, að annar Mánatindur komi til Djúpavogs.
Austurland. 5 febrúar 1965.