28.04.2018 08:44

1360. Kleifaberg RE 70 við Grandagarð í gærmorgun.

Tók þessar myndir af Kleifaberginu þar sem skipið lá við Grandagarðinn í gærmorgun. Togarinn er búinn að vera í slippnum í Reykjavík undanfarna viku þar sem hann var málaður og dittað að ýmsu öðru eins og gengur þegar skip eru tekin á land. Kleifaberg er nú á siglingu á utanverðum Breiðafirði á norðurleið og ég geri ráð fyrir að skipið sé á leið á veiðar. Kleifaberg RE 70 er í eigu útgerðarfélagsins Brim Seafood hf í Reykjavík.


1360. Kleifaberg RE 70 við Grandagarð.                               Þórhallur S Gjöveraa. 27 apríl 2018.


1360. Kleifaberg RE 70. Stormur HF til vinstri og Grænlenski togarinn Markus hægramegin.


1360. Kleifaberg RE 70. TFAC.                                                 Þórhallur S Gjöveraa. 27 apríl 2018.

                    Brim Seafood hf

Brim hf er stofnað 1998 þá sem Útgerðarfélagið Tjaldur ehf þegar þeir feðgar, Kristján Guðmundsson, Hjálmar Kristjánsson og Guðmundur Kristjánsson, skiptu upp rekstri sínum á Rifi. Guðmundur var þá fluttur til Reykjavíkur og tók alfarið við rekstri Útgerðarfélagsins Tjalds ehf. Félagið var frá upphafi til húsa að Tryggvagötu 11 í Reykjavík en fluttist inn á Bræðraborgarstíg 16, árið 2007. Árið 2005 var nafni Útgerðarfélagsins Tjalds ehf breytt í Brim hf.

Í upphafi gerði félagið út einn línubát, Tjald SH 270. Báturinn stundaði línuveiðar og landaði aflanum ýmist ferskum á fiskmarkaði og frystum afurðum á erlenda markaði. Starfsmenn félagsins voru í upphafi um 20. Árið 1999 var sjávarútvegsfyrirtækið Básafell hf keypt og seinna sameinað inn í útgerðarfélagið Tjald, (Brim hf.) Við þessi kaup hóf félagið togararekstur og gerði út tvo rækjufrystitogara, Eldborg RE og Orra ÍS og línubátinn Tjald SH 270. Erfiður rekstur var í rækjuveiðum á þessum árum og hætti félagið rekstri rækjuskipanna á árunum 2002 til 2003. Frystitogarinn Guðmundur í Nesi RE 13 er keyptur og kemur í ársbyrjun 2004. Togarinn er sérhæfður til grálúðuveiða.

Á þessum árum lagði félagið aðaláherslu á grálúðuveiði á djúpslóð, með línuveiðum, togveiðum og netaveiðum. Ýmsar ástæður voru fyrir því að fyrirtækið varð að hætta línuveiðum á grálúðu meðal annars sú að búrhvalurinn komst á lag með að éta grálúðuna af línunni þegar verið var að draga hana af miklu dýpi. Í framhaldi af því fór Tjaldur SH á grálúðuveiðar með net og var það í fyrsta skipti sem það var gert við Ísland.

Árið 2004 keypti félagið í samvinnu við KG fiskverkun á Rifi, Útgerðarfélag Akureyringa. Í framhaldi var ÚA sameinað inn í Brim hf árið 2005. Í dag er Brim hf með víðtæka starfsemi í sjávarútvegi á Íslandi. Það gerir út frystitogarana Brimnes RE 27, Guðmund í Nesi RE 13 og Kleifaberg RE 70. Árið 2012 starfa hjá Brimi um 150 manns.

Brim hf. hefur alltaf lagt mikla áherslu á að vera með traust og góð skip í rekstri á hverjum tíma og leitast er við að svara kröfum nútímans um hagkvæman rekstur, gæði hráefnis og góðan aðbúnað sjómanna. Umhverfismál og gott starfsfólk skipa háan sess í allri starfsemi Brims.

 

Af vefsíðu Brim Seafood hf.


Flettingar í dag: 1882
Gestir í dag: 116
Flettingar í gær: 421
Gestir í gær: 22
Samtals flettingar: 1192284
Samtals gestir: 83672
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:39:31