Á fyrstu áratugum 20 aldar var ekki mikið um síld á Norðfirði né heldur á Austurlandi. Norðlendingar voru eiginlega frumkvöðlar síldveiða og vinnslu hér á landi og þá á Siglufirði með Norðmennina Sören Goos, Ole Tynes og ekki má gleyma Óskari Halldórssyni sem voru fremstir í flokki og margir fleiri örugglega. Það var ekki fyrr en 14 október árið 1926 að hreppsnefnd Neshrepps tók fyrir bréf frá Joakim Indbjör, "þar sem hann fyrir hönd Dr. Carl Paul í Oldenburg í Þýskalandi fer fram á að hreppsnefndin mæli með því við Stjórnarráðið að hann fái að reisa hér (á Nesi) og starfrækja verksmiðju til að vinna beinamjöl úr þorskúrgangi og ef nauðsyn krefur síðar einnig til að vinna olíu úr síld". Sú verksmiðja, sem kölluð var Fóðurmjölsverksmiðja Norðfjarðar eða bara"gúanó", tók svo til starfa í júlímánuði 1927. Tíu árum síðar er búið að stækka hana svo að hún getur brætt rúmlega 600 mál síldar á sólarhring. Þessi verksmiðja stórskemmdist svo í eldsvoða árið 1950, en var endurbyggð og bætt eftir brunann. Síldarsöltun var aldrei mikil á Norðfirði á þessum árum. Það var ekki fyrr en árið 1952 að Síldarsöltun hf var stofnuð að Norðfirðingar fóru að salta síld í stórum stíl til útflutnings. Það var svo árið 1957 að Síldarvinnslan hf var stofnuð til að reka síldarverksmiðju og tók hún til starfa sumarið 1958. Sú verksmiðja var langtum afkastameiri en Fóðurmjölsverksmiðjan gamla. Bræðsla SVN gat brætt rúmlega 700 tonn að jafnaði á sólarhring og í kjölfarið stórbættist öll aðstaða til síldarsöltunar og hófu þá margar nýjar stöðvar að salta síld, t.d. Sæsilfur, Drífa, Máni, Ás og fl. og voru þær starfræktar til þess tíma að síldin hvarf af Íslandsmiðum.

Síldveiðiskip að háfa síld á Norðfirði um miðjan 7 áratuginn. Vélbáturinn Þráinn NK 70 heldur til veiða eftir löndun. Eftir myndinni að dæma, hefur hann ekki þurft að fara langt. Ljósmyndari óþekktur.
Síldarbátarnir við bryggju og bræðsla í fullum gangi. Verið er að gera uppfyllinguna neðan við Steininn og kastalann. Myndin er sennilega frá árinu 1963-64. (C) Sigurður Arnfinnsson.
Söltun í fullum gangi á Drífuplaninu. Ljósmyndari óþekktur.

Fóðurmjölsverksmiðja Norðfjarðar og síðar Fiskimjölsverksmiðja SÚN, sú fyrsta á Austurlandi, reyst árið 1927. (C) Sveinn Guðnason.
Síldar og loðnuverksmiðja SVN árið 1965. Þessi verksmiðja gjöreyðilagðist í snjóflóðunum 20 desember árið 1974 sem kostuðu 12 manns lífið. (C) Hjörleifur Guttormsson.
Þokan grúfði yfir fjarðarbotninum, þegar horft var ofan af
Oddskarði. Þegar niður kom, blandaðist hún reyknum úr verksmiðjunni. Fyrstu
húsin komu í ljós eins og vörður við veginn. Byggðin fór að þéttast og
síldaranganin magnaðist og nú var blaðamaður Vísis kominn í velferðarríkið
Neskaupstað sem í kyrrð sinni bar keim af mokafla af síld og sleltulausri vinnu
dag og nótt vikum saman undanfarið. Á söltunarstöðinni Ás var unnið langt fram
eftir nóttu. Síldardömurnar virðast hafa vakað langtímum saman, en kappið var
óskert. Þráinn NK rennir upp að bryggju með góðan afla. Freyfaxi KE frá
Keflavík er nýbyrjaður á síldveiðum. Um morguninn hafði verið saltað úr honum,
og voru þeir á leið út aftur. Síldin er uppi í landssteinum aðeins 4 til 5
tímar á miðin SSA af Gerpi. Þarna er allur flotinn að veiðum sennilega um 200
skip, fá ekkert smáræði í einu kasti, 3.000 mál, jafnvel barst orðrómur um, að
eitt þeirra hefði fengið 4.000 mál. Um morguninn hafði verið saltað, en nú var
lát á vegna þess að verið var að landa síld í flutningaskipið "Stavnes".
Um kvöldið hófst löndun úr tveimur skipum við planið Ás, Barða NK með 1.200 mál
og Bjarti NK með 1.800 mál, sem hvort tveggja eru aflaskip (með um og yfir 30
þúsund mál). Ekki var vinnuaflið mikið á þessu plani, en alvarlegur hörgull á
fólki til síldarvinnu er þarna fyrir austan á aflatíðinni.
Fólkið á plönunum var orðið þreytt af vökum og striti. Komið hefur fyrir, að
það hefur unnið 40 stundir í strikklotu, án þess að festa blund. Tunnurnar hlaðast
upp jafnt og þétt, og síldin berst að landi á Norðfirði eins og á færibandi,
demantssíld, millisíld, blönduð síld, síld, sem breytist í peninga, ósvikinn
gjaldeyri. Sárafá skip voru inni í gær og í fyrradag á Norðfirði þrátt fyrir
uppgripsveiðina. Þrærnar voru fullar, þar sem annars staðar á austfirzku
síldarstöðvunum. Á Rauða torginu, en svo kallast miðin, kennd við rússneska "vininn"
er alltaf krökt af skipum, sem biða eftir kvöldinu, en þá taka þau síldina á um
20- 25 faðma dýpi, og það gengur ævintýri næst, hvað aflast mikið í hvert sinn.
Glöggir menn fyrir austan eru farnir að spá því, að þessi aflahrota haldist
lengi, jafnvel fram yfir nýár.
Vísir. 7 október 1965.
Skrifað af Þórhalli S Gjöveraa.