10.05.2018 14:21
460. Morgunstjarnan GK 532. TFUM.
"Morgunstjarnan"
G . K. 532
Laust fyrir miðjan júlí var nýjum bát hleypt af stokkunum í
skipasmíðastöð Júlíusar Nýborg í Hafnarfirði. Bátur þessi heitir
"Morgunstjarnan" og hefur einkennisstafina G. K. 532. Hann er 43 rúmlestir
að stærð, smíðaður úr eik og hefur 171 ha. Buda-Lanova dieselvél. Alls eru í
bátnum 16 hvílur; 9 hvílur í hásetaklefa, 6 í káetu og 1 í skipstjóraklefa.
Allar vistarverur eru fóðraðar innan með lakksmurðum krossvið, vatnsþéttum. Er
þetta fyrsti báturinn, sem þannig er gengið frá. Byrjað var á smíði þessa báts síðastliðið
haust, en skriður komst ekki á verkið fyrr en í byrjun þessa árs. Júlíus Nyborg
teiknaði bátinn og sá um smíði hans. Járnsmíði og niðursetningu vélar annaðist
Vélsmiðja Hafnarfjarðar h/f. Raflagnir annaðist h. f. Ekko í Hafnarfirði, en
Guðmundur Hróbjartsson kom fyrir miðstöðvarlögnum. Sören Valentínusson í
Keflavík bjó til segl og reiða. Togvinda er í bátnum og smíðaði hana Vélsmiðjan
Keilir í Reykjavík. Auk þess unnu Blikksmiðjan Dvergasteinn h/f í Hafnarfirði
og Hannes Sigurjónsson húsgagnabólstrari við smíði bátsins.
Eigandi "Morgunstjörnunnar" er nýstofnað hlutafélag í Hafnarfirði, sem
heitir "Hafstjarnan h. f." Framkvæmdastjóri þess er Magnús Guðjónsson í
Hafnarfirði, en hann átti fyrr vélbátinn Njál. Skipstjóri á Morgunstjörnunni er
Guðvarður Vilmundsson úr Hafnarfirði. Báturinn hefur verið á síldveiðum í
sumar.
Ægir. 8 tbl. 1 ágúst 1944.