10.05.2018 14:21

460. Morgunstjarnan GK 532. TFUM.

Vélbáturinn Morgunstjarnan GK 532 var smíðaður í Skipasmíðastöð Júlíusar Nýborg í Hafnarfirði árið 1944 fyrir Hlutafélagið Hafstjörnuna í Hafnarfirði. Eik. 43 brl. 170 ha. Buda-Lanova díesel vél. Báturinn var seldur 11 janúar 1951, Birni Ásgeirssyni, Soffaníasi Cecilssyni í Grundarfirði og Sigurði Ágústssyni í Stykkishólmi, hét Páll Þorleifsson SH 121. Ný vél (1954) 200 ha. Alpha díesel vél. Seldur 18 nóvember 1959, Þorleifi Guðjónssyni og Trausta Jónssyni í Vestmannaeyjum, hét Glaður VE 270. Seldur 17 maí 1969, Gylfa Gunnarssyni í Neskaupstað, hét Glaður NK 45. Báturinn var talinn ónýtur og tekinn af skrá í apríl árið 1970. Afdrif hans urðu þau að hann endaði á öskuhaugunum í Neskaupstað í þremur pörtum og var brenndur þar stuttu síðar.


Morgunstjarnan GK 532 sjósett í júlímánuði árið 1944.                 Úr safni Tryggva Sigurðssonar.


Um borð í Morgunstjörnunni GK 532. Einn skipverjanna heldur á einum rígaþorski. Báturinn er þarna greinilega á togveiðum.                     (C) Vilmundur Kristjánsson.


      "Morgunstjarnan" G . K. 532

Laust fyrir miðjan júlí var nýjum bát hleypt af stokkunum í skipasmíðastöð Júlíusar Nýborg í Hafnarfirði. Bátur þessi heitir "Morgunstjarnan" og hefur einkennisstafina G. K. 532. Hann er 43 rúmlestir að stærð, smíðaður úr eik og hefur 171 ha. Buda-Lanova dieselvél. Alls eru í bátnum 16 hvílur; 9 hvílur í hásetaklefa, 6 í káetu og 1 í skipstjóraklefa. Allar vistarverur eru fóðraðar innan með lakksmurðum krossvið, vatnsþéttum. Er þetta fyrsti báturinn, sem þannig er gengið frá. Byrjað var á smíði þessa báts síðastliðið haust, en skriður komst ekki á verkið fyrr en í byrjun þessa árs. Júlíus Nyborg teiknaði bátinn og sá um smíði hans. Járnsmíði og niðursetningu vélar annaðist Vélsmiðja Hafnarfjarðar h/f. Raflagnir annaðist h. f. Ekko í Hafnarfirði, en Guðmundur Hróbjartsson kom fyrir miðstöðvarlögnum. Sören Valentínusson í Keflavík bjó til segl og reiða. Togvinda er í bátnum og smíðaði hana Vélsmiðjan Keilir í Reykjavík. Auk þess unnu Blikksmiðjan Dvergasteinn h/f í Hafnarfirði og Hannes Sigurjónsson húsgagnabólstrari við smíði bátsins.
Eigandi "Morgunstjörnunnar" er nýstofnað hlutafélag í Hafnarfirði, sem heitir "Hafstjarnan h. f." Framkvæmdastjóri þess er Magnús Guðjónsson í Hafnarfirði, en hann átti fyrr vélbátinn Njál. Skipstjóri á Morgunstjörnunni er Guðvarður Vilmundsson úr Hafnarfirði. Báturinn hefur verið á síldveiðum í sumar.

Ægir. 8 tbl. 1 ágúst 1944.


Flettingar í dag: 430
Gestir í dag: 54
Flettingar í gær: 2218
Gestir í gær: 119
Samtals flettingar: 1193050
Samtals gestir: 83729
Tölur uppfærðar: 1.4.2025 12:04:43