12.05.2018 11:26

395. Eyjaberg VE 130. TFMD.

Vélbáturinn Eyjaberg VE 130 var smíðaður hjá Brandenburg Havel í Brandenburg í A-Þýskalandi árið 1959 eftir teikningum Hjálmars R Bárðarsonar. 94 brl. 400 ha. Mannheim díesel vél. Eigandi var Sigurður Þórðarson útgerðarmaður í Vestmannaeyjum frá 26 nóvember sama ár. Eyjabergið var fyrsta skipið sem kom til landsins af þeim 15 skipum sem smíðuð voru í Brandenburg fyrir Íslendinga. Eyjaberg fórst við Faxasker við Vestmannaeyjar 7 mars árið 1966. Áhöfnin, 7 menn, komst í gúmmíbjörgunarbát og var bjargað þaðan um borð í hafsögubátinn Lóðsinn frá Vestmannaeyjum heilum á húfi. 


395. Eyjaberg VE 130.                                               (C) Snorri Snorrason.  Úr safni Atla Michelsen.


Eyjaberg VE 130 í Reykjavíkurhöfn.                                                              Ljósmyndari óþekktur.

              Eyjaberg VE 130

Fyrsti 95 lesta stálbáturinn smíðaður í
A-Þýzkalandi fyrir Íslendinga kominn

Kominn er til landsins fyrsti 95 lesta stálbáturinn af allmörgum jafnstórum, sem smíðaðir eru fyrir íslendinga í Þýzka lýðveldinu. Báturinn heitir Eyjaberg VE 130, eigandi Sigurður Þórðarson útgerðarmaður í Vestmannaeyjum. Kom báturinn til heimahafnar sinnar s.l. fimmtudagskvöld og í gærmorgun sigldi hann inn á Reykjavíkurhöfn. Fréttamaður Þjóðviljans fór um borð í bátinn í gærmorgun, skömmu eftir að hann hafði lagzt að verbúðabryggju við Grandagarð og hitti að máli skipstjórann Jón Guðjónsson, héðan úr bænum. Við vorum 5 saman, sem fórum utan til að sækja Eyjaberg, sagði skipstjórinn; vorum 4 sólarhringa og 20 klukkustundir frá Kaupmannahöfn til Vestmannaeyja. Meðalhraði í heimferðinni var 10 sjómílur, en báturinn gekk 11 sjómílur í reynsluferð. Hvernig reyndist báturinn á heimleiðinni?  Prýðilega. Að vísu fengum við gott veður á leiðinni og reyndi því ekki mjög á sjóhæfnina, en mér lízt mjög vel á bátinn, segir skipstjórinn, öllu virðist haganlega fyrir komið og vistarverur skipverja eru sérstaklega skemmtilegar. Sem fyrr segir er Eyjaberg VE 130 fyrsti 95 lesta báturinn af allmörgum samskonar, sem smíðaðir eru úr stáli fyrir íslendinga í Austur-Þýzkalandi. Fimm bátanna munu verða tilbúnir eða afhentir eigendum á þessu ári og fara tveir þeirra til Vestmannaeyja, auk Eyjabergs, og tveir til Ísafjarðar.
Bátarnir eru allir smíðaðir eftir teikningu Hjálmars Bárðarsonar skipaskoðunarstjóra í skipasmíðastöðinni í Brandenburg í Þýzka lýðveldinu. Aðalaflvél Eyjabergs er 400 hestafla Mannheim-vél, en hjálparvélin er 25 hestafla.

Þjóðviljinn. 2 desember 1959.


Eyjaberg VE 130. Líkan.                                                                          (C) Hjálmar R Bárðarson.


Eyjaberg VE 130. Líkan.                                                                             (C) Hjálmar R Bárðarson.


Fyrirkomulagsteikning skipa smíðuðum í Brandenburg.                        (C) Hjálmar R Bárðarson.


Eyjaberg VE 130 á strandstað á Faxaskeri í mars 1966.                           (C) Sigurgeir Jónasson.

   Eyjaberg VE strandaði á Faxaskeri
     Skipshöfnin komst yfir í Lóðsinn

Í gærkvöldi strandaði Vestmannaeyjabáturinn Eyjaberg VE 130 á vestanverðu Faxaskeri, sem er rétt norðan við Heimaey. 7 menn voru á bátnum og komust þeir á gúmmíbát yfir í Lóðsinn. Eyjaberg var heilt á strandstað er skipverjar yfirgáfu það, en búizt við að það mundi höggva sig niður í nótt og eyðileggjast. Þetta gerðist kl. 19.40, er Eyjaberg var að koma úr róðri með 12 tonn af fiski eftir daginn. Fór Eyjabergið venjulega siglingaleið inn milli Heimaeyjar og skersins eða um Faxasund, ásamt fleiri bátum. Dimmt var yfir og slydduhríð. Tilkynntu skipverjar hvernig komið var og fór Lóðsinn út til þeirra. Komust þeir í gúmmíbát sínum yfir í Lóðsinn, allir heilir, enda ágætt sjóveður. Skipstjóri á Eyjabergi er Sigurður Guðmundsson. En eigandi hans er Sigurður Þórðarson útgerðarmaður. Fréttaritari blaðsins náði snöggvast tali af skipstjóranum, er hann var kominn heim til sín. Hann vildi lítið um þetta segja umfram það sem vitað var.
Sagði að þeir hefðu verið að koma úr róðri vestan við Eyjar og farið venjulega siglingaleið. Hafi þeir séð að þeir mundu vera full nærri Faxaskerinu og ætluðu að beygja frá áður en þeir komu að því, en þá hafi stýrisútbúnaður ekki virkað. Báturinn var á fullri ferð og var strandi því ekki afstýrt. Skipstjórinn sagði að gott hefði verið í sjóinn og fóru skipverjar í gúmmíbátinn, eftir að þeir höfðu gert aðvart. En þar sem myrkur og slydduhríð og viðbúið að báturinn mundi höggva sig niður, þá þótti ekki ráðlegt að þeir væru þar um kyrrt. Höfðu þeir taug í gúmmíbátnum, sem föst var í Eyjaberginu og slepptu henni ekki fyrr en þeir höfðu náð Lóðsinum. En þangað létu þeir sogið bera sig og réru sjálfir. Varð þeim ekki meint af, enda steinsnar inn til Vestmannaeyjarkaupstaðar. Faxasker er lágt sker, og enginn gróður á því. En þar er skipbrotsmannaskýli.
Eyjaberg er stálbátur, 94 lestir að stærð, byggður í Austur- Þýzkalandi árið 1959.

Morgunblaðið. 8 mars 1966.


Flettingar í dag: 430
Gestir í dag: 54
Flettingar í gær: 2218
Gestir í gær: 119
Samtals flettingar: 1193050
Samtals gestir: 83729
Tölur uppfærðar: 1.4.2025 12:04:43